Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú svarað að hluta því sem ég hefði viljað fá fram í þessari umræðu, þ.e. að hæstv. forsrh. svaraði fyrirspurn hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Ég vil taka undir orð hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Það er vissulega mjög alvarlegt mál fyrir Alþingi Íslendinga og þjóðina í heild að nú skuli sitja að völdum ríkisstjórn sem er með forsrh. sem vísvitandi lætur undirbúa og gefa út bráðabirgðalög sem hann hefur enga örugga vissu fyrir að verði samþykkt á Alþingi Íslendinga í jafnalvarlegu máli og bráðabirgðalögin snúast um sem er að tryggja rekstrarforsendur grundvallaratvinnuvega þjóðarinnar. Þetta er mjög alvarlegt mál og hefði verið full ástæða til að ræða það meira á þingi.
    Ég vek athygli á því enn einu sinni að hér hefur hæstv. forsrh. gefið út bráðabirgðalög og látið forseta Íslands staðfesta þau og hefur enga örugga vissu fyrir því að Alþingi Íslendinga samþykki þessi lög. Þetta er einsdæmi í þingsögunni og mjög alvarlegt fyrir þróun lýðræðis og þingræðis á Íslandi.