Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál eins og það horfir við frá mínum sjónarhóli. Ég dreg mjög í efa í fyrsta lagi að það sé tímabært að hefja utandagskrárumræður um þetta mál og ég skal færa að því nokkur rök, en fyrst þetta: Í mínum huga er alveg skýrt að sú hagkvæmniathugun sem nú er unnið að varðandi byggingu nýs álvers í Straumsvík er hafin að frumkvæði íslenskrar ríkisstjórnar. Íslensk ríkisstjórn leitaði út fyrir landsteinana til ýmissa fyrirtækja með það fyrir augum að efla orkufrekan iðnað á Íslandi og skjóta fleiri stoðum undir efnahagslíf. Árangur af því frumkvæði var sá að fjögur fyrirtæki undirrituðu samning við íslensk stjórnvöld um að gera á því hagkvæmniathugun hvort hér mundi reynast góður kostur að byggja nýja álbræðslu. Áætlanir benda til að slík hagkvæmniathugun muni kosta um 30 millj. kr. og taka nokkuð mikinn tíma. Ég lít svo á, hafandi starfað að þessum málum, að þau fyrirtæki sem að frumkvæði íslenskrar ríkisstjórnar ráðast í slíka hagkvæmniathugun og verja til þess verulegum fjármunum og tíma hljóti að vera í góðri trú með það að íslensk stjórnvöld ætli sér að standa að byggingu slíks álvers ef samningar nást, þ.e. ef hagkvæmniáætlun er jákvæð og samningar nást við Íslendinga um þau atriði sem að sjálfsögðu þarf að semja um.
    Ég verð hins vegar að taka undir með fjmrh. um það að það liggur engan veginn fyrir hvað út úr þessari hagkvæmniáætlun kemur. Ég hef svo lengi starfað að samningum um orkufrekan iðnað að mér er enn ljóst að það getur brugðið til beggja vona. Ég minni í því sambandi sérstaklega á samninga um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði þar sem samningar voru nánast komnir á lokastig en hagkvæmniáætlun brást. Lengi framan af voru menn mjög bjartsýnir á að slík hagkvæmniathugun gæti orðið jákvæð og úr byggingu þeirrar verksmiðju gæti orðið. Það brást hins vegar og ég get ekki neitað því að það er enn í kollinum á mér að um þá hagkvæmniathugun, sem nú er unnið að, getur brugðið til beggja vona. Það er ekkert sem bendir enn til þess að hún verði jákvæð. Við vitum ekki hver niðurstaðan úr henni verður.
    Jafnframt er það líka rétt að samningar sem á eftir henni fylgja hljóta að verða á þann veg að Íslendingar séu fyllilega sáttir við þá. Þetta hljóta menn að verða að hafa í huga. En að því gefnu að samningar náist sem Íslendingar geta sætt sig við og hagkvæmniathugun verði jákvæð hlýt ég að lýsa því yfir að ég lít svo á að þessir erlendu aðilar hljóti að vinna að þessu í góðri trú og það verði ákaflega erfitt fyrir Íslendinga að þessum atriðum uppfylltum og gefnum, sem ég þegar hef nefnt, að lýsa því yfir að þeir hafi nánast ekki meint neitt með þessu, það sé fróðlegt að sjá hvað út úr þessu hafi komið, en hvorki sé tími, staður eða stund til að halda áfram með málið.
    Ég ítreka hins vegar að ég tek undir með hæstv. fjmrh. með það að mér þykir þetta tæplega tímabær umræða vegna þess að enginn veit enn hvað út úr

þessu kemur og því miður hafa þeir samningar sem við hingað til höfum staðið í teflst á þann veg að niðurstaða hefur orðið neikvæð jafnvel þótt við höfum átt von á hinu gagnstæða.
    Ég vil hins vegar jafnframt segja það sem mína skoðun að ég tel afar mikilvægt að skjóta sem flestum stoðum undir atvinnulíf og efnahagslíf Íslendinga. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að virkjun auðlindanna, orkufrekur iðnaður, sé ein þeirra leiða sem við eigum til þess að nýta. Leiðirnar eru að sjálfsögðu margar og auðvitað eigum við ekki að einblína á orkufrekan iðnað, en sú atvinnugrein hlýtur að vera ein þeirra sem við reynum að byggja hér upp og ekki síst nú þegar við horfum til aukins samdráttar, e.t.v. atvinnuleysis og erfiðleika í þessu landi, og viðskiptahallinn við útlönd er svo mikill sem raun ber vitni.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna í þessu sambandi að auðvitað koma fleiri leiðir til greina og eiga að vinnast samhliða og notast um leið. Í því sambandi vil ég aðeins nefna að ef við eingöngu ölum þau laxaseiði til slátrunar sem nú eru í landinu og gætu orðið sláturafurð um áramótin 1989--1990 mundi það geta skilað inn í þjóðarbúið svipuðum tekjum og tvö álver af þeirri stærð sem nú eru í Straumsvík. Bæði fjmrh., formaður Alþb., og núv. landbrh. vinna að því að þetta markmið geti náðst og það er afar mikilvægt, en jafnhliða hljóta menn að benda á að álverið í Straumsvík núna, sem er með vergar tekjur einhvers staðar upp undir 7000 millj. á ári, skilar í þjóðarbúið, inn í landið svipuðum tekjum og veiði á milljón tonnum af loðnu. Að vísu eru þetta stærðargráðureikningar hjá mér, en mér sýnist að milljón tonna loðnuveiði skili inn í þjóðarbúið brúttó einhvers staðar um 4 1 / 2 milljarði og ef menn meta það svo að erlend aðföng séu um 30--40% stenst það nokkurn veginn á endum að eftir inni í landinu af þessum milljón tonnum verða um 2 1 / 2 --3 eða um 3 milljarðar kr. eða svipað og eftir verður af tekjum álversins í Straumnsvík. Þá hljóta menn að sjá að hér er um afar mikilvægan kost að ræða sem engin leið er að horfa fram hjá þegar menn líta til bæði samdráttar í efnahagslífi og viðskiptahalla.
    Það er heldur enginn vafi á því án þess að ég fari um það mörgum orðum að
stóriðja á Íslandi hefur orðið til þess að byggja upp raforkukerfi landsins. Það eru yfir 50% af framleiðslu Landsvirkjunar sem eru seld til stóriðju.
    Það er líka ljóst að það eru sjálfsagt einhvers staðar á milli 800 og 1000 Íslendingar sem vinna beint við stóriðju og eru óneitanlega meðal tekjuhæstu launahópa í landinu. Það hefur verið giskað á að það séu um 6000 Íslendingar sem hafa beint eða óbeint lífsviðurværi sitt af stóriðju.
    Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það ætti að vera tiltölulega einfalt mál fyrir Íslendinga að sjá að þörf er á því að renna fleiri stoðum undir efnahagslífið. Mér hefur líka fundist að það ætti að vera hægt að ná sæmilegri sátt um það hér í landinu að virkjun orkulindanna sé ein leiðin til þess að gera

það. Mér hefur fundist að menn ættu að leita fremur að meiri sátt og friði um orkumálin og stóriðjumál en hvessa andstæðurnar stöðugt og gera þessi mál að meiri pólitískum deilum í þjóðfélaginu en ástæða er til.
    Mér er ekki alveg ljóst hvað fyrir hv. málshefjanda vakir í þessu máli. Þar finnst mér ég eiga um tvo kosti að velja. Annars vegar að skilja hann svo að honum sé ákaflega brýnt í huga að fá upplýsingar um stöðu þessa máls og forvitni reki hann áfram. Hann hafi þess vegna ekki séð aðra leið til þess að fá þessar upplýsingar en hefja máls á málinu utan dagskrár á Alþingi. Ég vil ekki útiloka þessa skýringu þó að ég verði að játa að mér þykir hún ekki sennileg. Hinn kosturinn er að skilja málshefjanda svo að hann telji að með þessari utandagskrárumræðu takist honum að hvessa andstæður og jafnvel vekja deilur, ekki bara á þinginu heldur innan stjórnarflokkanna, um þetta mikilvæga mál. Ef þannig á að skilja málshefjanda harma ég það vegna þess að ég þykist vita að honum sé það jafnofarlega í huga og mér að renna fleiri stoðum undir efnahagslíf Íslendinga og telji það með mér að framleiðsla sem getur skilað inn í þjóðarbúið svipuðum tekjum og milljón tonna veiði á loðnu sé mikilvæg og þess vegna sé ástæða til að reyna að koma henni fram án þess að vekja um það allt of miklar deilur og væri þess vegna þjóðhagslega meiri ástæða til að vinna að sátt um málið.
    Ég ætla ekki að fara út í heimspekilegar vangaveltur um það hvað fyrir málshefjanda vakir, en ég dreg mjög í efa að ástæða hafi verið til að hefja á þessari stundu umræður um þetta mál hér og ég dreg mjög í efa að það sé framgangi málsins til góðs þó að ég þykist þess fullviss að fyrrv. iðnrh. Friðrik Sophusson vildi vinna að því máli einlæglega.