Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vil mótmæla því að þessar umræður séu ekki tímabærar vegna þess að ég tel fyllstu ástæðu til þess að taka upp umræður um þetta mál hér á Alþingi, þó miklu fyrr hefði verið. Að vísu ætla ég ekki að taka til máls á sömu forsendu og málshefjandi og vil lýsa því strax yfir að ég tel allar áætlanir um byggingu álvers á þessum forsendum sem hér eru og yfirleitt á hvaða forsendum sem er nánast tóma vitleysu. En það er samt alveg greinilegt á öllu að Alþb. er komið inn í þessa samningagerð og virðist á öllu að þeir hafi breytt afstöðu sinni frá því 28. sept. þegar ríkisstjórnin var mynduð, þar sem þeir hafa fallist á að taka þátt í þeim viðræðum sem hér er lýst og kemur fram á minnisblaði frá hæstv. viðskrh. Eða líta kannski þessir fulltrúar, sem hér hefur komið fram að eru alþýðubandalagsmenn, ekki á sig sem fulltrúa Alþb.? Eru þeir þar sem sérlegir sérfræðingar, þá væntanlega að mati viðskrh., og hefur Alþb. ekki neitt með þetta mál að gera?
    Í DV föstudaginn 11. nóv. sl. segir Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Alþb., með leyfi forseta: ,,Það er í sáttmála ríkisstjórnarinnar að ekki verði unnið að stækkun álversins í Straumsvík. Við viljum að við þær samþykktir verði staðið. Við munum því ekki standa að neinni undirbúningsvinnu.`` Seinna segir hún í þessu sama viðtali: ,,Við erum alfarið á móti þessu álveri og stöndum ekki að neinum breytingum.`` Þarna tekur formaður þingflokks Alþb. alveg ákveðið af skarið, þannig að það virðist ekki vera að hennar skapi það sem hér hefur verið að gerast. Og í Þjóðviljanum 12. nóv. sl. er haft eftir hæstv. landbrh. Steingrími J. Sigfússyni: ,,Um skipan þessarar nefndar [þ.e. nefndar viðskrh.] segir Steingrímur að ef ætlunin væri að fulltrúar í nefndinni væru fulltrúar sinna flokka þá þætti sér heldur ógeðfellt að ráðherrann ,,handveldi einhverja fulltrúa`` úr Alþb. Ef nefndarmenn ættu að vera fulltrúar flokkanna ætti að fjalla um það á lýðræðislegan hátt innan flokkanna hver sá fulltrúi ætti að vera.`` Nú heyrðist mér hér áðan að formanni Alþb. hefði verið fullkunnugt um þessa skipan mála þannig að það virðist vera ljóst að þrátt fyrir allt eru þessir menn þarna sem fulltrúar Alþb. þó að formaður flokksins reyni að sverja það af sér á undarlegan hátt.
    Hér hefur komið fram að margir sem talað hafa fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og stuðningsmenn hennar eru þeirrar skoðunar að fyrirtækin fjögur sem hér er rætt um hafi verið í góðri trú um að hér verði byggt álver ef samningar náist og ef hagkvæmniathugun er jákvæð. En ef farið er að athuga þau svör sem ég fékk við fsp. varðandi nýtt álver, þá kemur í ljós að ekki liggur fyrir hvaða mengunarvarnarkröfur verða gerðar. Það er einungis talað um það að þar verði að lúta jafnströngum mengunarvarnarkröfum og gilda um ný álver í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta þykir mér ákaflega veikt orðað. Mér finnst einkennilegt ef hægt er að gera hagkvæmniathugun án þess að kröfur um mengunarvarnir liggi fyrir. Það liggur heldur ekkert fyrir um það hvert verði

fyrirkomulag skattamála fyrirtækisins. Það kemur einnig fram hér að ekki hefur verið samið á neinn hátt um það. Það hlýtur að sjálfsögðu líka að þurfa að koma inn í hagkvæmniathugunina. Og það liggur heldur ekkert fyrir um orkuverðið. Ég á því mjög erfitt með að skilja hvernig hægt er að gera hagkvæmniathugun án þess að þetta allt liggi fyrir.
    Það kemur fram á minnisblaðinu, sem er fylgiskjal með þessu svari, að ráðgjafarnefndin hefur það verkefni að fylgjast með hagkvæmniathuguninni og veita upplýsingar um íslenskar aðstæður sem máli skipta, t.d. varðandi verð og afhendingarskilmála orku og íslensk skattamál. Þannig er alveg greinilegt að ráðgjafarnefnd á að fara að semja um þessi atriði og að þetta felst ekki í þeim samningi sem gerður var við fyrirtækin á sínum tíma. Svo að ég veit ekki hvernig Alþb. ætlar að snúa sig út úr þessu og halda því fram að þeir séu ekki komnir inn í samninganefnd um þessi mál.
    Það hefur reyndar ekki fengist upplýst hvernig þessi samningur hljóðar sem var gerður 4. júlí sl. milli fyrirtækjanna fjögurra og íslenskra aðila. En það er greinilegt að ekkert er inni í þeim samningi um orkuverð, skattamál eða mengunarvarnir. Ég á því mjög erfitt með að skilja á hvaða forsendum sá samningur er gerður. En það kemur fram í svari frá hæstv. viðskrh. að ekki er hægt að fallast á þá ósk mína að samkomulagið á milli íslenska ríkisins og fyrirtækjanna fjögurra verði birt vegna þess að þeir vilja líta á þetta sem viðskiptaleyndarmál. Þetta þykir mér mjög slæmt, sérstaklega með tilliti til þess hvað þarna virðast margir lausir endar.
    Mér finnst það því hafa komið mjög greinilega fram að þetta mál er mjög illa undirbúið og það eru alls ekki öll kurl komin til grafar enn. Það kom fram í fjölmiðlum hér fyrr í sumar, bæði í blöðum og útvarpi, að þeir fjórir aðilar sem hafa verið að vinna að þessari hagkvæmniathugun hafa gengið út frá því að orkuverð verði á svipuðum nótum og orkuverð til Ísals, sem greinilega er allt of lágt og allsendis óviðunandi ef við eigum að fara að semja á þeim nótum. Það er varla hægt að minnast á það ógrátandi hvernig undanfarin ár hefur verið staðið að mengunarvarnarmálum í Straumsvík varðandi Ísal. Þannig
að það má ekki standa eins illa að þeim málum og gert var á sínum tíma --- og við gerum enn. Í núgildandi samkomulagi við Íslenska álfélagið stendur að mengunarvarnir ,,verði að bestu manna vitneskju``. Ég veit ekki hvort hægt er að telja það viðunandi ef ekki er farið betur með mál en nú er raunin í Straumsvík.
    Hér er líka talað um að við þurfum að hafa fjölbreyttara atvinnulíf. Því get ég verið alveg sammála. Við þurfum að efla okkar atvinnulíf og fjölbreytni þess. En það eina sem ráðamenn virðast láta sér detta í hug er að fá nýtt álver. Það getur varla aukið mikið á fjölbreytni vegna þess að við erum hér með eitt álver, illu heilli, og eigum við svo að bæta við álveri? Þá erum við raunverulega enn að bæta við

sams konar atvinnu og fyrir er og það getur ekki aukið fjölbreytni. Ef við eigum því enn að setja öll eggin í sömu körfuna þá getur það ekki leitt til neinnar farsældar.
    En ég fagna því að þetta mál skuli koma hér upp þó að ég geti alls ekki fallist á að það skuli vera komið svo langt sem raun ber vitni, að það sé þegar farið að semja við þessa aðila. Því að ekki er hægt að skilja það sem hér hefur komið fram öðruvísi en svo að samningar séu komnir á fulla ferð.