Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Að vísu var sú ræða sem hv. þm. Páll Pétursson flutti áðan á þann veg að ég hefði getað fallið frá orðinu. ( PP: Þá skaltu bara láta það eftir okkur.) Já. Það var þó ein setning sem hefði þurft að bæta við en ég gat varla ætlast til að hv. þm. Páll Pétursson gerði. ( PP: Þá er hún óþörf.) Nei, hún þarf að liggja hér fyrir vegna margítrekaðra ummæla og endurtekinna hv. þm. Alberts Guðmundssonar.
    Hv. þm. Páll Pétursson greindi réttilega frá því hér að hæstv. forsrh. hefði við myndun þessarar ríkisstjórnar lýst því yfir sama daginn og ríkisstjórnin var mynduð að verði frv. á Alþingi samþykkt í meiri háttar máli sem einn stjórnarflokkanna hefur ákveðið að styðja ekki jafngildi það tilkomu nýs þingmeirihluta á Alþingi. Þetta var það sem ég sagði í ræðu minni og hv. þm. Albert Guðmundsson taldi hinn mikla árangur hv. þm. Friðriks Sophussonar við þessa umræðu. Hann er ekki meiri en svo þessi árangur að þetta hefur legið fyrir skjalfest í öllum fjölmiðlum landsins frá því að þessi ríkisstjórn var mynduð. Hv. þm. Albert Guðmundsson fylgist væntanlega svo vel með að það hefur ekki farið fram hjá honum. Það sem ég gerði hér var síðan að endurtaka ummæli hæstv. forsrh. sem hann reyndar líka endurtók við þessa umræðu.
    Hv. þm. Albert Guðmundsson hefur hins vegar upp á síðkastið gert sér tíðrætt um hinn vonda kommúnistaflokk, Alþb. Það sé svo illur flokkur og óalandi og óferjandi, þessi vondi kommúnistaflokkur, að það verði fyrir alla muni að koma í veg fyrir að hann hafi nokkur áhrif á gang þjóðmála. Ég ætla ekki að gera þennan stimpil, sem ég tel ekki við hæfi gagnvart mínum flokki, sérstaklega hér að umræðuefni. En hitt vil ég þó minna hv. þm. Albert Guðmundsson á, að það eru fáir menn í þessum sal fyrir utan Alþb. sjálft sem bera meiri ábyrgð á jafnlangri stjórnarsetu þessa flokks en hv. þm. Albert Guðmundsson þegar hann skrifaði frægt bréf á fyrstu mánuðum ársins 1980 og gerði hæstv. fyrrv. forsrh. Gunnari Thoroddsen kleift að mynda þá ríkisstjórn með Alþb.