Forseti (Guðrún Agnarsdóttir):
    Ég legg hér fram bréf frá sérstökum ríkissaksóknara til forseta Ed. og vil leyfa mér að lesa það bréf.
    ,,Reykjavík, 11. nóv. 1988.
    Með bréfi dómsmálaráðherra dags. 6. ágúst 1987 var undirritaður skipaður til þess sem sérstakur ríkissaksóknari að fara með mál er tengjast gjaldþroti Hafskips hf. Með dómum Hæstaréttar upp kveðnum 4. júní og 24. júlí 1987 var ákærum, sem hinn reglulegi ríkissaksóknari hafði gefið út vegna þessara mála, vísað frá dómi þar sem eigi var talið rétt að hann færi með ákæruvald í þeim. Hin opinbera rannsókn hefur m.a. beinst að því að upplýsa hvort stjórnendur og starfsmenn Útvegsbanka Íslands hafi gerst sekir um brot í opinberu starfi skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19 frá 1940.
    Rannsókn hefur m.a. leitt til þess að gefin hefur verið út ákæra á hendur fjórum mönnum er sátu í bankaráði Útvegsbanka Íslands á þeim tíma þegar bú Hafskips hf. var tekið til gjaldþrotaskipta hinn 6. des. 1985. Þeim er gefið að sök að hafa sem bankaráðsmenn sýnt af sér saknæma vanrækslu við yfirstjórn bankans og við eftirlit með starfsemi hans og þannig látið hjá líða að fylgjast með skuldbindingum og tryggingum vegna viðskipta bankans við Hafskip hf. sem var einn af helstu viðskiptaaðilum hans, en samkvæmt fundargerðum bankaráðsins var ekki fjallað um málefni Hafskips hf. á fundum þess á tímabilinu frá 1. jan. 1980 til 6. des. 1985 fyrr en 1. mars 1985.
    Auk þeirra fjögurra fyrrv. bankaráðsmanna Útvegsbanka Íslands sem ákærðir hafa verið átti Jóhann Einvarðsson alþingismaður sæti í bankaráðinu þegar bú Hafskips hf. var tekið til gjaldþrotaskipta hinn 6. des. 1985. Með vísan til 1. mgr. 49. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33 frá 1944, er hér með leitað samþykkis hv. efri deildar Alþingis til málshöfðunar á hendur Jóhanni Einvarðssyni alþm. eins og öðrum bankaráðsmönnum Útvegsbankans er fyrr greinir.
Allra virðingarfyllst,

Jónatan Þórmundsson.``