Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Það frv. til lánsfjárlaga sem nú liggur fyrir hv. deild er í engu frábrugðið þeim lánsfjárlögum sem við fjölluðum um á síðasta ári og árin þar á undan. Þau bera þess öll merki að um er að ræða langvarandi fjármálaóstjórn gömlu flokkanna. Eins og ég hef oft vakið athygli á áður þá skiptir ekki orðið nokkru máli hver hinna gömlu fjögurra flokka fer með stjórnina hverju sinni. Fjármálastjórn þeirra er a.m.k. mjög svipuð og geri ég engan greinarmun á því hvort við erum að fjalla hér um lánsfjárlög ríkisstjórnar þar sem búið er að skipta nokkrum ráðherrum Sjálfstfl. út fyrir nokkra ráðherra Alþb. Þetta er sami grauturinn úr sömu skál eftir sem áður.
    Það fyrsta sem vekur athygli þegar í 1. gr., og segir raunverulega alla söguna, er að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka allt að 4,7 milljarða kr. lán innan lands á árinu 1989. Vandi ríkissjóðs er hin mikla umframeyðsla sem verið hefur hér um langan aldur, þ.e. ríkissjóður hefur forgöngu um það að eyða um efni fram. Þetta er alvarlegt þjóðarmein og margar fjölskyldur í landinu berjast við þennan sama vanda, að lifa um efni fram, en það er kannski ekkert einkennilegt að þær geri það þegar ríkið sjálft hefur forustu í þessum efnum. Hvar er nú hagsýna húsmóðirin? Við höfum eiginlega verið vitni að hálfgerðu eyðslufylliríi hér í marga, marga áratugi, allt frá stríðslokum.
    Í framhaldi af þessu er svo annað höfuðatriði þessa lánsfjárlagafrv. erlenda skuldasöfnunin og hvernig fjármálastjórn eða hæstv. fjmrh. í ríkisstjórn hverju sinni reynir að stíga á bremsurnar eins og framast er unnt án þess að verða mikið ágengt í þeim efnum.
    Ég átti þess kost sl. sumar að koma í heimsókn í japanska þingið. Skrifstofustjóri þess fór með mig þar um og sýndi mér aðstöðuna sem japanskir þingmenn búa við. M.a. kom ég þar í herbergi fjárveitinganefndar japanska þingsins sem var stór salur, svona álíka stór og sá salur þar sem við sitjum í sameinuðu þingi. Ég fór að spyrja hann að því hvernig væri með halla japanska ríkisins og hvernig hann væri fjármagnaður. Jú, hann sagði að því miður væri búinn að vera langvarandi og mikill halli á ríkisfjármálum í Japan, sem mér kom nokkuð á óvart. Það kemur reyndar allvel fram í ágætri skýrslu, sem ég hef verið að glugga í, sem nýbúið er að senda okkur þingmönnum, um ríkishalla og ríkisskuldir með meiru, að það hefur verið langvarandi ríkishalli í velflestum löndum hins vestræna heims. Ég spurði síðan skrifstofustjóra japanska þingsins: Hvernig fjármagnið þið þennan halla á ríkisfjármálunum? Jú, við reynum að selja spariskírteini innan lands --- og kom það mér ekkert á óvart. Ég spurði þá: En hvað með erlend lán? Þurfið þið ekki stundum að taka erlend lán til þess að brúa bilið? Nei, það er algjörlega óhugsandi. Hvorki japanska ríkið né opinberir aðilar aðrir, þ.e. sveitarfélög eða nokkrir opinberir aðilar taka nokkurn tíma erlend lán. --- Ég spurði þá: Eru þá engin erlend lán tekin í Japan? Jú, allir aðrir mega taka öll þau erlendu lán sem þeim

sýnist án þess að nokkur afskipti ríkisvaldsins komi þar nálægt. En ríkið sjálft og aðrir opinberir aðilar mega aldrei taka erlend lán.
    Af þessu má draga mikinn lærdóm. Ég held nefnilega að þarna sé kannski kjarni málsins. Hér hefur fjármálastjórn verið með þeim hætti að ríkið sér um allar erlendar lántökur og skammtar síðan erlent lánsfé til fjárfestingarlánasjóða og til atvinnurekstrarins. Það væri strax mikil landhreinsun í því ef við tækjum út úr ríkisreikningnum og fjárlögunum hluta atvinnurekstrarins í erlendum lántökum. Tökum svokallaðan C-hluta algjörlega út úr lánsfjárlögum og jafnvel hluta af þeim ríkisstofnunum sem eru undir B-hluta fjárlaga enn fremur. Ég held að það væri hollt fyrir okkur að endurskoða algjörlega stefnu okkar gagnvart erlendum lántökum. Ég held nefnilega að við ættum að fara að dæmi Japana og banna ríkinu og sveitarfélögum að taka erlend lán. Leyfa hins vegar Jóni Jónssyni að taka öll þau erlendu lán sem honum sýnist. Ef Jón Jónsson úti í bæ getur fengið einhvern banka í New York til að lána sér peninga út á þær eignir sem hann á á Íslandi á hann að fá leyfi til þess. Ef hann fer síðan á hausinn gerist ekkert annað en það að einhver banki í New York krefst þess að eignir hans verði boðnar upp og þá það. Halda menn kannski að ef einhver erlendur banki verður að slá sér eign hér á uppboði á Íslandi taki hann þær með húð og hári og flytji þær til Bandaríkjanna, hann taki eitthvert einbýlishús hér upp með rótum og sigli því burt úr landinu? Nei, það gerist nefnilega ekki. Þess vegna held ég að það heilbrigðasta sem við gætum gert í okkar fjármálalífi væri að hreinsa erlendar lántökur algjörlega burt frá ríkinu og láta atvinnulífinu það eftir að sjá um þann þátt mála. Það kann vel að kosta það að vextir verði eitthvað óhagstæðari en verið hefur, þegar ríkið hefur gengið í ábyrgð fyrir allar erlendar lántökur, en ég held kannski að það mundi þá vera sú bremsa sem þarf að vera til þess að atvinnulífið fari ekki á algjört fjárfestingarfyllirí eins og því miður hefur oft viljað bera við hér.
    Annars eru tvær meginstærðir sem ganga sem rauður þráður í gegnum lánsfjárlögin. Það er viðskiptahallinn og útgjaldahalli fjárlaga eða halli á
fjárlögunum, hvernig á að brúa hann. Ef við tökum viðskiptahallann fyrst sýnist mér nú að hann sé orðinn höfuðvandamál íslenskrar fjármálastefnu. Hvernig í ósköpunum eigum við að ráða niðurlögum hins mikla viðskiptahalla sem er orðinn varanlegur? Það virðist ekkert koma í veg fyrir að hann haldi áfram að aukast. Viðskiptahallinn var um 7 milljarðar kr. á árinu 1987. Hann stefnir í 10--12 milljarða kr. á árinu 1988 og í lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að hann verði rúmlega 12 milljarðar kr. eða þar um bil á árinu 1989 og mér kæmi ekkert á óvart þó hann endaði í 14--15 milljörðum.
    Þarna er kannski ein höfuðmeinsemdin í íslensku efnahagslífi. Eina ráðið til þess að vinna okkur út úr þessum viðskiptahalla er að sjálfsögðu að auka útflutning okkar og draga úr innflutningi með

einhverjum ráðum. Þar komum við að ýmsum hlutum, þ.e. hver vandamál útflutningsatvinnuveganna eru og hvers vegna það hefur alla tíð á Íslandi verið með þeim hætti að innflutningur hefur verið aðalatriðið, útflutningur hefur alltaf verið hálfgerð hornreka í okkar þjóðfélagskerfi. Enda hefur það verið þannig um langan aldur að duglegir viðskiptamenn og verslunarmenn hasla sér yfirleitt völl í innflutningsgreinunum því þar ríkir fullt frelsi, þar geta þeir athafnað sig. Þeir eru færri sem hasla sér völl í útflutningsgreinunum af því að þar ríkja alls konar höft og hömlur og þar er yfirleitt um það að ræða að ríkið stjórnar útflutningsmálunum, skammtar fjármuni til útflutningsfyrirtækja og stendur oft í veginum fyrir því að menn geri útflutningssamninga. Ef einhverjum aðila tekst t.d. að gera samning um að selja töluvert af kindakjöti, þá rekst hann hér á vegg ef hann kemur með slíkar hugmyndir til stjórnvalda. Það er yfirleitt séð til þess að allar slíkar hugmyndir séu kæfðar í fæðingu.
    Hér þarf algjöra hugarfarsbreytingu, bæði hjá ráðamönnum þjóðarinnar og e.t.v. hjá þjóðinni í heild, að þjóðin sem slík með ríkisvaldið í broddi fylkingar einbeiti sér að því að efla útflutning þjóðarinnar. Ég er ekki að segja að innflutningsverslunin sé algjörlega óþörf en það er sjálfsagt að leggja minni áherslu á innflutningsverslunina en gert hefur verið hingað til. Að sjálfsögðu hlýtur land eins og Ísland alla tíð að vera mjög háð innflutningi. Við þurfum að flytja inn hráefni til framleiðslu okkar. Við þurfum að flytja inn vélar og tæki til atvinnufyrirtækja okkar og það er auðvitað mjög þýðingarmikið að innflutningsverslunin sé hagkvæm, að hún geti þróast á skynsamlegan hátt. En númer eitt hlýtur þó að vera að gera útflutningsversluninni hærra undir höfði þannig að við getum smám saman reynt að vinna okkur út úr þeim mikla viðskiptahalla sem við eigum við að stríða.
    Hæstv. fjmrh. nefndi áðan að það væri kominn tími til að draga úr ábyrgðum ríkissjóðs vegna alls konar atvinnustarfsemi, bæði vegna útflutningsfyrirtækja og kannski átti hann fyrst og fremst við fjárfestingar, geri ég ráð fyrir. Það er þá eitt sem vekur athygli mína og það er að flest vestræn ríki hafa komið sér upp mjög öflugu útflutningsábyrgðakerfi. Við könnumst ekki við neitt slíkt hér á Íslandi. Það er að vísu örlítill vísir að útflutningsábyrgðum í gegnum Útflutningslánasjóð, en þar er þó um að ræða mjög veikburða framtak. Hér er mikil þörf fyrir að í staðinn fyrir beinar ríkisábyrgðir verði komið upp öflugum útflutningsábyrgðasjóði sem taki að sér það verkefni að útvega útflutningsfyrirtækjum hagstæð erlend lán og fjármagna útflutningsviðskipti. Ég held að það væri mjög þarft verk fyrir ríkisstjórnina að beita sér að slíku.
    Það er svo sorgleg staðreynd að aukinn viðskiptahalli eykur tekjur ríkissjóðs. Það er einn af þeim einkennilegu hlutum sem auðkenna íslenskt efnahagslíf að nú seinni mánuði þessa árs hefur dregið verulega úr innflutningi og einnig hafur dregið úr þenslunni sem margir tala svo mikið um. Þá minnka

tekjur ríkissjóðs, hríðminnka, þannig að því miður þá er þversögn í þessu: Þeim mun meiri viðskiptahalli, þeim mun meiri tekjur ríkissjóðs.
    Ef við tölum hins vegar um útgjaldahallann eða hallann á ríkissjóði, þá virðist hann vera orðinn ólæknanlegur sjúkdómur. Ég held að vandinn sé hér fyrst og fremst sú útgjaldaþensla sem hefur verið að undanförnu og þar er auðvitað ekkert um annað að ræða en að við ætlum okkur um of. Við erum að reyna að reka þetta fámenna þjóðfélag eins og við værum fleiri, fleiri milljónir manna. Við höfum innleitt hér rándýr kerfi, ef ég má nota það í víðtækri merkingu. Við erum að burðast við að halda hér uppi menntakerfi, heilbrigðiskerfi, samgöngukerfi og ýmsu fleira sem ætti betur við 2 1 / 2 milljónar manna þjóð, svo að maður tali nú ekki um bankakerfið. Bankakerfið mundi sennilega ekki taka eftir því þó að þjóðin yrði allt í einu 10 milljónir manna. Það mundi ekki muna mikið um að sinna þörfum svona eins og 10 milljóna manna.
    Ég held að við þyrftum að endurskoða allt þjóðfélagið og rekstur þess frá grunni til þess að vinna okkur út úr þessum útgjaldavanda. Sem dæmi um útgjaldavandann má benda á að það hefur nú verið upplýst, og kom það reyndar fram áðan í ræðum hv. alþm. og reyndar í ræðu hæstv. fjmrh., að hallinn á ríkissjóði hækkar um einn milljarð króna við hverja ræðu hæstv. ráðherra eins og hann sagði sjálfur. Ég var því að velta því fyrir mér hvort ekki yrði að taka desember út úr þessu ári með þál., reyna að ljúka árinu sem allra fyrst
svo við komumst þá í gegnum árið með svona 5--6 milljarða halla. Ef við höfum desember með gæti hann endað í 7 milljörðum. Þetta er svona hugmynd sem ég læði hér að. En það er augljóst að nú þarf að taka ný erlend lán til að fjármagna halla á ríkissjóði sem stefnir í 5 eða jafnvel 6 milljarða. Síðan var sérstaklega veitt heimild til þess að auka ríkissjóðshallann um 600 millj. kr. Mér finnst ekki koma nógu vel fram hvort þessar 600 millj. kr. séu með í þessum 5 milljörðum sem verið er að tala um; ég geri ráð fyrir því að svo sé.
    Í stjórnarsáttmála fyrrv. ríkisstjórnar var lögð mikil áhersla á það að ríkissjóður yrði rekinn með tekjuafgangi og var reyndar gert ráð fyrir því í fjárlögum fyrir 1988 að tekjuafgangur yrði 30 millj. kr. Hann verður líklega í staðinn neikvæður um 5 milljarða eða meira. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar er líka talað um að ríkissjóð skuli reka hallalaust og er reyndar gert ráð fyrir því að ríkissjóður skili tekjuafgangi upp á einar 1200 millj. kr. fyrir árið 1989. En mig grunar að þegar við stöndum hér að ári liðnu --- ja, þeir okkar sem enn þá verða á þingi, við skulum ekki alveg útiloka þann möguleika, það getur hafa orðið breyting á því hverjir sitja á þingi þegar komið er að jólum, að ári liðnu --- munum við vera að ræða margra milljarða halla enn á ný. Og ástæðan fyrir því er, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, röng fjármálastefna gömlu flokkanna. Það er raunverulega

alveg sama hvaða ríkisstjórn er mynduð með þátttöku gömlu flokkanna, hvaða mynstur sem svo er oft kallað er við lýði þá stundina, fjármálastefnan er í heild alltaf sú sama.
    Ef við förum yfir einstök atriði í frv. rekum við okkur á í 3. gr. að Landsvirkjun er heimilt að taka erlent lán á næsta ári að upphæð allt að einum milljarði króna og er síðar í skýringum talað um að það sé vegna framkvæmda á árinu 1989 sem eru áætlaðar upp á 1420 millj. kr. Þar er sagt að 900 millj. kr. séu vegna Blönduvirkjunar. Það er einnig athyglisvert að sjá að vaxtabyrði vegna Blönduvirkjunar verður 250 millj. kr. á næsta ári. Það hefði verið fróðlegt að fá nánari upplýsingar um stöðu mála við Blönduvirkjun því að það er ógnvekjandi að Blönduvirkjun, sem því miður hefur verið tímasett mjög vitlaust að margra dómi og það hefði verið hægt að fresta framkvæmdum þar og reyndar aldrei átt að byrja á þeim fyrr en það lá ljóst fyrir að þörf væri fyrir rafmagnið frá Blönduvirkjun, að það skuli þegar vera komin vaxtabyrði upp á 250 millj. kr. vegna Blönduvirkjunar og það er enn þá ekki ljóst hvað á að gera við rafmagnið frá þeirri virkjun.
    Það eru miklar viðbótarlántökur erlendis eins og í lánsfjárlögum frá því í fyrra þrátt fyrir yfirlýsta stefnu stjórnvalda hverju sinni um að hætta nú öllum erlendum lántökum eða draga verulega úr þeim. Þar eru gamlir kunningjar á ferð. Þróunarfélagið fær heimild til þess að taka lán allt að 100 millj. kr. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeim fjármunum skal varið, en væntanleg er skýrsla sem segir frá starfsemi Þróunarfélagsins. A.m.k. minnist ég þess að hafa verið með á beiðni um skýrslu um starfsemi Þróunarfélagsins, meðflutningsmaður að þeirri beiðni.
    Nokkrar hitaveitur, mér sýnist þetta vera nánast sömu hitaveitur og var verið að ræða um í lánsfjárlögum í fyrra, fá heimild upp á 250 millj. kr. lántöku erlendis og Byggðastofnun og Framkvæmdasjóður fá til samans lántökuheimild upp á 1 milljarð kr. erlendis. Síðan kemur flóabáturinn og Herjólfur.
    Skerðingarákvæðin eru ákaflega hliðstæð og voru í fyrra. Það er orðin föst venja að þurfa að horfa upp á að fyrst eru sett lög um ákveðna tekjustofna fyrir hinar og þessar ríkisstofnanir og síðan eru alltaf í lánsfjárlögum þessar tekjur ýmist skertar eða felldar niður með öllu. Það væri þá miklu hreinlegra að endurskoða starfsemi þessara stofnana en að gera þetta með þeim hætti að fyrst er lofað miklum fjármunum til reksturs þessara stofnana og síðan eru þessir fjármunir aftur teknir til baka með lánsfjárlögum. Það vekur t.d. athygli að enn á ný eru öll aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum látin renna í ríkissjóð og Ríkisútvarpið mun væntanlega þurfa að burðast með mikinn hallarekstur á næsta ári. Við eigum áreiðanlega eftir að fá að heyra um mikinn vanda Ríkisútvarpsins þegar líður fram á næsta ár, um hvernig á að láta enda ná saman.
    Eins og þegar hefur verið bent á af hv. þm. sem hér hafa talað á undan mér og hæstv. ráðherra einnig

kemur þarna fram hvernig framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs er skert til að standa undir hinum nýja Atvinnutryggingarsjóði sem verður að setja stórt spurningarmerki við. Það kom greinilega fram í umræðunum utan dagskrár í sameinuðu þingi í gær að það fer að verða spurning um Atvinnutryggingarsjóðinn, hvort ákvæði um hann verða samþykkt á hinu háa Alþingi. Það skyldi þó aldrei verða, þegar við höfum lokið við að fara yfir bráðabirgðalögin og greiða um þau atkvæði, að Atvinnutryggingarsjóðurinn verði hreinlega horfinn út úr bráðabirgðalögunum. Þá vaknar spurningin um hvort það þurfi ekki að leiðrétta þessa grein þegar þar að kemur.
    Það er eitt smámál, sem kannski er varla vert að fara að minnast á hér, en
ég geri það af því að ég er sérstakur áhugamaður um að refum verði ekki algerlega útrýmt á Íslandi. Mér finnst nefnilega gaman að sjá villt dýr á ferð í náttúru landsins. Því tel ég algerlega óþarfa að eyða nokkrum peningum í að eyða refum eða mink. Ég er ekki að segja að það þurfi að friða þessar skepnur því þær valda eflaust nokkru tjóni, þó sérstaklega minkurinn. En þeir sem telja sér stafa einhverja ógnun af þessum skepnum geta hreint og beint sjálfir séð um að verjast ágangi þeirra án þess að fá fyrir það nokkra greiðslu.
    Það er ekkert nýtt að peningum sé rænt af vega- og samgöngumálaframkvæmdum. Hér er um að ræða að 600 millj. kr. skuli renna í ríkissjóð af tekjum vegna hækkunar á bensíngjaldi og þungaskatti. Það er ekkert nýtt að umferðin er skattlögð til að hjálpa upp á ríkishítina. Minnst af því sem umferðin leggur til af fjármunum til ríkissjóðs fer til vegagerðar, því miður.
    Eins eru sömu skerðingarákvæðin eftir sem áður á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Nú hlýtur að ráðast hvað verður um verkaskiptingarlögin, hvort þetta gengur heim og saman eða hvort við þurfum að horfa upp á að í janúar nk. verði ríkisstjórnin að koma með bráðabirgðalög um að hækka framlag í Jöfnunarsjóð vegna þess að menn hafi ekki náð samkomulagi um verkaskiptinguna. Reyndar þætti mér ekki ólíklegt að svo færi vegna þess að ég held að við séum jafnfjarri því og við vorum fyrir ári að ná saman um með hvaða hætti verkaskipting sveitarfélaga og ríkis skuli vera. Ég held að grundvöllurinn að því frv. sé alrangur og það þurfi að stokka þar spilin algerlega upp á nýtt. Þess vegna held ég að það hefði verið ráðlegra að láta Jöfnunarsjóð hafa þá fjármuni sem hann þarf án tillits til þess að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga verði breytt að sinni.
    Þá er mikið fjallað um hvernig eigi að fjármagna þann útgjaldahalla sem er fyrirsjáanlegur. Hæstv. fjmrh. fjallaði töluvert um sölu á spariskírteinum. Ég get út af fyrir sig verið alveg sammála því að ef ríkið þarf á annað borð að fjármagna halla á ríkissjóði er skynsamlegast og best að reyna að gera það með sölu á spariskírteinum, með innlendum sparnaði. Það er hins vegar ógnvekjandi hugsun, sem kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan, að spariskírteini ríkissjóðs verði eina sparnaðarformið sem verði án skattlagningar.

Heyrðist mér ekki betur en hæstv. fjmrh. væri að boða að vextir af almennum sparisjóðsbókum í bönkum og sparisjóðum yrðu skattlagðir, þvert ofan í það sem var talað um í fjárlagaræðunni og reyndar í sambandi við myndun ríkisstjórnarinnar í september sl. Þá kom það skýrt fram, og reyndar minnir mig að það komi óbeint fram í stjórnarsáttmálanum, að vextir af almennu sparifé muni ekki skattlagðir. En nú heyrist mér að það sé stefna hæstv. fjmrh. a.m.k. að skattleggja sparifé landsmanna nema þeirra sem velja að kaupa sér spariskírteini ríkissjóðs. Ég tel þetta ákaflega varhugaverða stefnu. Reyndar er þarna verið á mjög einkennilegan hátt að stýra því fjármagni sem fólk dregur saman með sparnaði til ríkisins í stað þess að gefa fólki kost á að velja þær sparnaðarleiðir sem því finnst henta hverju sinni.
    Þá er spurningin hvernig þessi áform muni ganga upp. Það er áætlað að sala á spariskírteinum ríkissjóðs verði um 5,1 milljarður á næsta ári. Í grg. með frv. er rifjað upp að það var gert ráð fyrir að innlend fjármögnun fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári yrði 56% en varð ekki nema 42% vegna þess að spariskírteini, a.m.k. síðustu mánuði ársins, seljast illa. Þess vegna er spurt hvort það sé raunhæf áætlun að það verði hægt með innlendri fjármögnun að ná 52% af fjárþörf ríkissjóðs á árinu 1989.
    Það er bent á að óumsamin lánsfjáröflun sé upp á rúma 6 milljarða kr. Þar af eru 4,7 milljarðar í spariskírteinum. Það má vel vera að það gangi betur að selja spariskírteini á næsta ári en var í ár vegna þess sérstaka samkomulags sem var gert við bankana síðla sumars, en þó er ég mjög efins um að þessar áætlanir muni standast.
    Síðan er talað um að 1 1 / 2 milljarði verði náð með því að sækja fé í sjóði lífeyrissjóðanna. Í raun og veru er ekkert annað sagt þar um hvernig eigi að afla þessa viðbótarfjármagns. Það er aðeins talað um að það megi benda á verulega aukið óbundið ráðstöfunarfé lífeyrissjóða. Nú er mér spurn: Hvernig og með hvaða hætti er ætlunin að ná meira fé út úr lífeyrissjóðunum? Lífeyrissjóðirnir hafa þegar velflestir fallist á að kaupa skuldabréf af byggingarsjóðum ríkisins sem nemur 55% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Það er gert ráð fyrir því að þetta muni gefa byggingarsjóðum ríkisins fjármagn sem verður 9,3 milljarðar kr. á næsta ári.
    Nú er athyglisvert að það eru uppi hugmyndir um það með breyttum húsnæðislögum að draga úr kaupskyldu lífeyrissjóðanna niður í 45%. Það er kannski ekki tímabært að fjalla um það frekar hér vegna þess að drög að nýjum húsnæðislögum hafa verið í vinnslu í sérstakri endurskoðunarnefnd um húsnæðislánakerfið, en ég held að ég brjóti engan trúnað þó að ég geti þess að það hafa komið upp þær hugmyndir að draga úr kaupskyldu lífeyrissjóðanna þannig að hún lækki um 10%. Mér er því spurn: Hvernig á að afla þess mismunar sem verður á 9,3 milljörðum kr. og því sem fæst með 45%?
    Virðulegi forseti. Ég held að ég fari að stytta mál mitt. Ég get ekki látið hjá líða að benda á mjög

athyglisvert lesendabréf sem birtist í Dagblaðinu Vísi í morgun. Þar er verið að fjalla um og spurt um nýja fjármálastefnu. ,,Byrjum frá grunni`` er yfirskriftin á þessu lesendabréfi. Ég held að ég geti alveg tekið undir það með viðkomandi, sem ritar þetta bréf, að það er spurningin hvort það þurfi ekki einmitt að byrja upp á nýtt, byrja á núlli. Það er nefnilega með fjárlögin og lánsfjárlög og svo margt fleira í ríkiskerfinu, og reyndar er þetta orðin föst venja hjá flestum ríkisstofnunum og reyndar hjá flestum fyrirtækjum, að reikningurinn frá því í fyrra er tekinn og síðan er bara strikað yfir tölurnar og þær færðar upp með áætlaðri verðbólgu milli ára og lagðar fram sem ný áætlun fyrir árið sem er að koma. Þannig er lítið reynt að glugga í það sem er á bak við hinar ýmsu tölur. Er raunveruleg þörf þar á bak við? Þarf þessi útgjöld? Þarf þessar tekjur? Ég held að við ættum að taka okkur tak. Hér þarf raunverulega öll þjóðin að vera með, með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar að sjálfsögðu, og fara kirfilega ofan í öll ríkisfjármálin og rannsaka hvort þetta sé allt nauðsynlegt. Má ekki draga úr ýmsu af því sem ríkið hefur sett í gang, síðan er það orðið nánast sjálfvirkt, að til hinna ýmsu liða þarf fjárveitingar á hverju ári? Það hefur stundum verið talað um svokallaðar núllgrunnsáætlanir. E.t.v. er það lausnarorðið í þessum útgjaldavanda og þensluvanda ríkissjóðs að taka upp núllgrunnsáætlanagerð, þ.e. byrja alls staðar á núlli og athuga hvort það sé þörf fyrir allar þessar framkvæmdir og allan þennan rekstur sem ríkissjóður stendur undir.
    Ég get heils hugar tekið undir það með hæstv. ráðherra að það er full þörf á því að kenna þjóðinni að umgangast betur fjármuni og fara með þá. Ég hef oft velt því fyrir mér að það þyrfti að hafa sérstök námskeið í grunnskólum landsins þar sem skólabörnum er kennt að fara með fjármuni og hvernig á að passa upp á fjármuni og hvernig á að gæta þeirra peninga sem þau afla. Ég er alveg sannfærður um að við Íslendingar höfum því miður vanið okkur á alls konar ósóma í þessu sambandi og það væri ákaflega hollt fyrir okkur öll að læra að fara betur með fjármuni. Mig óar oft við því, þegar ég kem í hina ýmsu söluturna hér í bænum, að sjá ung börn sem eru að versla þar, hvernig þau reyna oftast að eyða hverjum einasta eyri. Þegar þau eru búin að fá það sem þau báðu um sitja þau eftir með kannski nokkrar krónur og þá er aðalvandamálið hjá þeim hvernig þau geti nú fengið eitthvað þannig að þau geti eytt hverri einustu krónu sem þau hafa á milli handanna áður en þau yfirgefa búðina. Í raun og veru er ríkissjóður engu betri. Það er einmitt vandamálið að það er verið að reyna að eyða öllum þeim peningum sem aflað er og meira til ef ekki vill betur.
    Ég held að það sé kominn tími til, eins og ég sagði áðan, að við endurskoðum alla okkar fjármálastefnu og fjárlagagerð frá grunni.