Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Áður en ég hef mál mitt um það sem hér er til umræðu, sem er frv. til laga um lánsfjáráætlun, vil ég lýsa ánægju minni yfir því að formaður þingflokks Alþfl. skuli heiðra samkunduna með því að vera mættur. Einnig verð ég að lýsa ánægju minni yfir því að hæstv. fjmrh. er aftur kominn í salinn. (Fjmrh.: Ég þurfti óhjákvæmilega að skreppa frá.) Ég skil það vel, hæstv. ráðherra, og virði það að sjálfsögðu. Ég hefði bara beðið augnablik með að ræða þetta efnislega þar til ráðherrann hefði verið mættur. Það er kannski táknrænt og einkennandi fyrir hv. Alþingi hvað við hv. alþingismenn sýnum oft hvert öðru óvirðingu og þessari stofnun með því að vera ekki viðstödd þegar verið er að ræða meiri háttar mál sem frv. til lánsfjárlaga er auðvitað.
    Ég byrja á segja að ég var ekki að öllu leyti sammála flokksbróður mínum, hv. alþm. Halldóri Blöndal, um að ræða hæstv. fjmrh. hafi ekki verið góð. Í ræðu hæstv. fjmrh. voru mörg ágæt atriði. Mér fannst ræðan mjög vönduð og vel fram sett og er það af hinu góða þegar ráðherrar vanda sitt mál með þeim hætti sem mér fannst hæstv. fjmrh. gera þó ég geti ekki verið að öllu leyti sammála honum um ýmis efnisatriði.
    Það sem mér féll vel og kom fram í upphafi ræðu ráðherra var m.a. það atriði sem ég ætla að gera að umtalsefni í sambandi við frv. til lánsfjárlaga, en það er varðandi lífeyrissjóðina. Ég mun fyrst og fremst ræða þann þátt þessa máls og ekki fara út í önnur atriði.
    Það sem mér fannst mikils virði og virði sérstaklega við hæstv. ráðherra var að það vafðist ekkert fyrir honum hverjir væru eignaraðilar að lífeyrissjóðum landsmanna. Mér finnst það veigamikil yfirlýsing miðað við hvernig margir hv. alþm. og jafnvel hæstv. ráðherrar hafa fjallað um þessi mál á undangengnum árum. Hæstv. ráðherra viðurkenndi það fullkomlega, sem er auðvitað rétt og kjarni málsins, að eigendur lífeyrissjóðanna eru að sjálfsögðu þeir sem greiða í sjóðina, þ.e. lífeyrissjóðafélagarnir sjálfir. Hæstv. ráðherra kom inn á það margsinnis í sinni ræðu að það væri auðvitað við þetta fólk sem bæði hv. alþm. og ráðherrar sem aðrir ættu erindi við þegar þeir vildu ræða um fjármuni þessa fólks. Til þessara sjóða flestallra var stofnað í frjálsum samningum á milli aðila vinnumarkaðarins, annars vegar verkalýðsfélaganna og hins vegar vinnuveitenda eða samtaka þeirra, þannig að hér er um löghelgan rétt að ræða sem Alþingi á að virða og mun virða, treysti ég, á meðan hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson situr í því embætti þannig að hann verður með okkur hinum ákveðinn útvörður gagnvart þeim hákörlum í hinum flokkunum, sem mynda þessa ríkisstjórn, sem líta á það sem sjálfsagðan hlut að ganga inn í eignir annarra eins og dæmin sanna og mun ég ekki ræða það nánar á þessu stigi.
    Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði þegar hann sagði í ræðu sinni að við stjórnendur þessara sjóða, fulltrúa eigenda, þyrfti að semja um það hvernig á að

nýta þessa sjóði og hvernig á að byggja þá upp og hvernig á að tryggja ávöxtun þeirra með þeim hætti að þeir geti tryggingalega séð staðið við sínar skuldbindingar sem er auðvitað meginatriði.
    Lífeyrissjóðsframlag hvers einstaklings, sem greitt er í 30--40 ár, sem er um 10% af launum og í sumum tilfellum hærri iðgjöld, er auðvitað stærsta eign sérhvers lífeyrissjóðsfélaga. Húseign eða íbúð kemst ekki í hálfkvisti við þá persónubundna eign sem myndast á 30--40 ára tímabili í lífeyrissjóðunum. Þannig að við erum hér, þegar við tökum lífeyrissjóðina til meðferðar inn í lánsfjárlögum og almennt í umræðunni, að tala um stærstu eign sérhvers einstaklings, sem er kominn á vinnuskyldan aldur eða hefur hafið sína starfsævi, vegna þess að nú er það skylda samkvæmt lögum að vera í lífeyrissjóðum þannig að enginn er undanskilinn. Þessi sparnaður er gífurlega mikill og þess vegna er mjög þýðingarmikið eins og hæstv. ráðherra kom inn á að öll starfsemi lífeyrissjóðanna og uppbygging sé heilbrigð og geti náð tilætluðum tilgangi.
    Hæstv. ráðherra kom einnig inn á að það þyrfti að framkalla ákveðnar breytingar í sambandi við lífeyrissjóði landsmanna. Ég get tekið undir það sjónarmið. Þá átti hann sérstaklega við, að því er mér skildist, að það þyrfti að styrkja ávöxtun, þ.e. þetta tryggingafé, með þeim hætti að sjóðirnir gætu staðið við sínar skuldbindingar. Undir það tek ég að sjálfsögðu.
    Hæstv. ráðherra talaði einnig um að nýta þyrfti betur fjármagnið. Í þeim efnum kom hann inn á að það þyrfti væntanlega að stýra því betur af hálfu hins opinbera. Í því atriði er ég honum ekki sammála. Ég get fallist á að hið opinbera setji ákveðnar og mjög strangar aðhalds- og eftirlitsreglur eða lög, þ.e. um grundvallaratriði, sem tryggi heildarrekstur sjóðanna. Það er náttúrlega meginatriði. En hvað aðra stýringu áhrærir held ég að hv. Alþingi eða stjórnmálamenn almennt og þar með ég meðtalinn eigi ekki að ganga of langt í að grípa inn í eðlilegan rekstur og starfsemi sjóðanna. Við getum hins vegar með frjálsum samningum og viðræðum, eins og mér skildist að hæstv. ráðherra ætlaði sér að gera, reynt að hafa áhrif á með hvaða hætti þetta er gert. Ef það kæmi síðan upp að einstaka sjóðir eða sjóðirnir í heild höguðu sér með
þeim hætti í sambandi við sitt ráðstöfunarfé að nauðsyn krefði að Alþingi Íslendinga gripi í taumana hljótum við að gera það sem sitjum nú á þingi og þeir sem síðar taka við.
    Ég sagði í upphafi ræðu minnar að lífeyriseign hvers einstaklings væri stærsta eign hans á starfsævinni. Þetta er ekki aðeins stærsta eign hvers einstaklings, þetta er hugsanlega mesta og öruggasta sparifjárform sem við Íslendingar nú búum við. Við megum búast við því á næstu áratugum að það fjármagn sem safnast fyrir í lífeyrissjóðunum verði mjög mikið sem kemur til ráðstöfunar. Það stafar m.a. af því að aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að tryggingarlegar skyldur lífeyrissjóðanna koma

ekki fram af fullum þunga fyrr en eftir einn til tvo áratugi, nær því eftir tvo áratugi, kringum árið 2004 eða 2010. Ég man ekki alveg nákvæmlega þessar tölur þó ég hafi skýrslur undir höndum, að vísu ekki hér, um áætlanir í þessum efnum. Þetta þýðir að ráðstöfunarfé til þessara sjóða verður gífurlegt. Þetta ráðstöfunarfé og það hvernig með það verður farið getur ráðið örlögum þjóðarinnar í sambandi við framtíðaruppbyggingu íslenskra atvinnuvega og einnig, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, með hvaða hætti ríkisfjármál verða á Íslandi í framtíðinni og með hvaða hætti lífeyrissjóðirnir koma við sögu í þeim efnum.
    Ég var að reyna að gera mér grein fyrir því í stuttu máli, háttvirtur forseti, áður en ég kom í ræðustól, miðað við þær forsendur sem gefnar eru í frv. til lánsfjárlaga um áætlað ráðstöfunarfé, hvaða fjárhæðir getur verið um að ræða á næstu fimm árum í lífeyrissjóðakerfinu. Í stuttu máli sagt, miðað við að árleg aukning sé ekki 33% heldur einhvers staðar á bilinu 25--27%, má gera ráð fyrir því að á árinu 1993 verði árlegt ráðstöfunarfé sjóðanna komið upp í ca. 50 milljarða.
    Ef við lítum á þá lánsfjáráætlun sem hér liggur fyrir og hvernig gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir komi til skjalanna í sambandi við skuldabréfakaup, aðeins er lýtur að íbúðar- og húsnæðismálum, en það eru 60%, má gera ráð fyrir því árið 1994 að tæplega 30 milljarðar færu í að kaupa skuldabréf af húsbyggingarsjóðum og fjárfestingarlánasjóðum hins opinbera. Þá hefur ekki verið tekið inn í hver yrði þáttur lífeyrissjóðanna í kaupum á spariskírteinum úti á hinum frjálsa markaði. Miðað við þessar gefnu forsendur, sem ég er ekki þar með að segja að ég sé bundinn af, enda hef ég mínar efasemdir um að þær séu rétt upp byggðar, og mun koma að því nánar hér á eftir, sjáum við að lífeyrissjóðirnir koma til með að vera ráðandi þáttur í gerð lánsfjárlaga í nánustu framtíð. Það er athyglisvert, og ég segi það, að kannski eru þingmenn svo vel upplýstir um þetta að þeir þurfi ekkert að hugsa um þessi mál og þurfa þess vegna ekki að sitja hér á þingfundum til að ræða og fjalla um þetta mál. Þeir lesa bara plaggið og hlusta á foringjana. En það er athyglisvert að menn skuli ekki leggja meiri vinnu í að skoða þessi mál því hér er raunverulega verið að ræða um ekki bara þátt ríkisins eins og oft er í sambandi við lánsfjárlög heldur einnig um það hvernig því fé verður væntanlega ráðstafað í framtíðinni sem lífeyrissjóðirnir hafa yfir að ráða. Það er þetta fé sem mun ráða úrslitum um hvernig fjárfesting verður í íslensku atvinnulífi og hvert við beinum þessum peningum og þá er ég að tala um nettóráðstöfunarfé.
    Þess vegna endurtek ég að mér fannst ræða hæstv. fjmrh. að mörgu leyti mjög athyglisverð og mun betri en ræður fyrrv. fjmrh. þó að ég hafi stutt hann í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og ekki gert athugasemd við þær ræður út af fyrir sig. En hann mat þetta allt öðruvísi og var mun léttara á vogarskálunum hjá honum hvernig með þetta yrði farið, enda ekki neitt

sérstakur vinur þeirra sem hafa stofnað til þessara sjóða, sem eru verkalýðurinn og vinnuveitendur. En það er nú annað mál. Annar hv. þm., Halldór Blöndal, afgreiddi það mjög vel áðan og geri ég örugglega ekki betur í þeim efnum.
    En þá er það stefnan og það er það atriði sem mér finnst mest um vert að fá að ræða hér um þar sem ég get ekki að öllu leyti fallist á þá tilhneigingu, ég segi ekki stefnumörkun því hæstv. fjmrh. var ekki mjög ákveðinn í þeim efnum en þó gaf hann ákveðnar ábendingar af skiljanlegum ástæðum sem stefndu nokkuð í aðra átt en ég gæti hugsað mér.
    En þá er það stefnan. Hvernig eigum við að líta til framtíðarinnar í þessum efnum? Ef maður í stuttu máli lítur til fortíðarinnar og það er fljótafgreitt, þá er óhætt að segja, og það er kannski á því sem mín innígrip í ræðu hæstv. fjmrh. byggðust áðan, án þess að ég biðjist nokkuð afsökunar á því, að ef maður lítur til fortíðarinnar og til þess hvernig ýmsir og mjög margir stjórnmálamenn hafa litið til lífeyrissjóðanna og ráðstöfunarfjármagns lífeyrissjóðanna hefur hún verið afskaplega einföld hjá flestöllum stjórnmálamönnum. Hún hefur verið sú að reyna að hirða sem mest af þessum peningum, annaðhvort inn í ríkiskassann eða til annarra þarfa sem hentaði stefnu viðkomandi flokka eða stjórnmálamanna í þeirri viðleitni þeirra að halda völdum á Íslandi. Þetta er forkastanleg stefna hvaða flokkur sem í hlut á vegna þess að það sem er meginatriðið þegar maður fjallar um þetta fé er hvernig það skilar sér best aftur til að fullnægja sínum skuldbindingum sem
eru tryggingarnar. Og þá vaknar spurningin sem er það sem skiptir meginmáli: Hvers virði er frelsið á Íslandi? Hvers virði er frelsið á Íslandi? Þetta segi ég að gefnu tilefni. Ég nefni til dæmis þá lífeyrissjóði sem við í verkalýðshreyfingunni stofnuðum á sínum tíma og sumir áratugum á undan almennu hreyfingunni, stofnuðum þetta úr engu, án stuðnings hins opinbera. Við gerðum það í góðri trú og við lögðum fyrir okkar fé í þessa sjóði í tryggingarlegum tilgangi, en gerðum okkur grein fyrir því að það varð að nýta féð þar til kæmi að greiðsluskyldu sjóðanna. Nú er svo komið að maður spyr: Hvers virði er frelsi á Íslandi? Við höfum öll meira og minna tekið þátt í að skerða þetta frelsi. Við höfum skert samningsfrelsið, við höfum skert frjálsa kjarasamninga og við erum með mjög ríkar tilheigingar til þess núna, vegna þess að lífeyrissjóðirnir, sem stofnað var til í frjálsum samningum, eru stórar stærðir, að grípa líka inn í þann þátt frelsisins að þeim sjóðum sem fólk stofnaði til í góðri trú um að það fengi að ráðstafa þeim. Þótt ég sé kjörinn fulltrúi fólksins á Alþingi í bili, kjörinn til fjögurra ára væntanlega, lít ég ekki þannig á mitt kjör að ég hafi frelsi til að ganga á alla þá samninga, öll þau réttindi sem ég hef gefið mig út fyrir að vilja berjast fyrir vegna fólksins í landinu. Og ég treysti því að aðrir hv. þm. hugsi einnig þannig.
    Þess vegna vil ég dvelja við það sem lýtur að framtíðinni. Fortíðin er ekki góð. Hún er ekki til þess

að taka til viðmiðunar eða fylgja og er enginn undanskilinn þar hvað flokka áhrærir.
    Ef ég ætti að setja fram á þessu stigi, og ég geri það hér með til frekari umhugsunar, vegna þess að það snertir þetta mál og það snertir niðurstöðu þessa máls, hvað ég teldi eðlilega stefnu og verkefnaröð í sambandi við lífeyrissjóðina og lífeyrissjóðsfé mundi ég setja eitthvað þessu líkt fram:
    Í fyrsta lagi tel ég --- og þá geng ég út frá því sem gefinni forsendu að þær leiðir sem ég fer tryggi það sem tryggja skal sem er eðlileg ávöxtun fjármagns til að tryggingarnar verði nægilegar þegar kemur til útborgunar --- að lífeyrissjóðirnir hafi skyldum að gegna í sambandi við fjármögnun húsnæðismálakerfisins eða húsnæðismála fyrir lífeyrissjóðsfélaga sem eru allir landsmenn sem eru komnir í fullt starf 16 ára og eldri.
    Þegar maður talar um húsnæðismál kemur fleira til greina en bara íbúðamál. Hingað til hefur verið lögð megináhersla á að lífeyrissjóðspeningar væru notaðir til að tryggja íbúð fyrir alla, hvort sem það hefur verið á félagslegum grundvelli eða á sjálfseignargrundvelli. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að líta til fleiri hluta en bara íbúðamála þeirra sem eru í fullu starfi eða að hefja sitt lífsstarf. Ég tel að það eigi að nota fé lífeyrissjóðanna mun meira í sambandi við öldrunarmál. Því tengjast einnig hjúkrunarmál í sambandi við þá sem eldri eru. Ég tel að það eigi einnig að nota mun meira af fjármunum lífeyrissjóðanna til húsnæðismála fyrir aldraða og einnig vegna þjónustu við aldraða og á ég þá sérstaklega við þann þátt þjónustunnar sem lýtur að fjárfestingu í tækjum, aðbúnaði, umönnun og menntun þeirra sem fjalla um öldrunarmál á Íslandi. Þessi tegund fjárfestingar þarf einnig að koma inn í myndina í sambandi við nýtingu fjármuna lífeyrissjóðanna og mun skila sér vel. Þetta verður að þróa mun betur en gert hefur verið og umræðan þarf að snúast um þetta einnig í sambandi við það fjármagn sem hér er til umræðu.
    Ég viðurkenni það og vil undirstrika að margt hefur verið vel gert í sambandi við aldraða, t.d. á vegum DAS. Nú er nýkomin stofnun sem heitir Skjól. Grund og fleiri aðilar hafa gert vel í fortíðinni. En það þarf að gera enn betur og við höfum enn betri möguleika til að gera það í sambandi við fjármagn lífeyrissjóðanna.
    Annað atriði í þeirri verkefnaröð sem ég mundi setja upp í sambandi við ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna er fjármögnun atvinnulífsins. Það er þáttur sem menn hafa verið mjög feimnir við að ræða um nema í skjóli opinberra fjárfestingarsjóða. Auðvitað er það rangt. Lífeyrissjóðirnir eiga sjálfir að koma til skjalanna gagnvart atvinnulífinu, hvort sem það gerist í sambandi við hið opinbera eða fjármálastofnanir eins og banka eða aðrar viðurkenndar stofnanir. Lífeyrissjóðirnir eiga að lána til atvinnuveganna með svipuðum hætti og tíðkast í nágrannalöndum okkar, þ.e. með kaupum á skuldabréfum og verðbréfum og einnig með samningum við banka sem og löggiltar,

ábyrgar og viðurkenndar fjármálastofnanir. Undir þennan lið kemur að sjálfsögðu hjá mér sá þáttur er lýtur að kaupum á spariskírteinum ríkissjóðs.
    Þá er það þriðja atriðið, sem ekki hefur verið fjallað um á Íslandi sem skyldi þegar rætt er hvernig eigi að nýta ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna, sem er eignarþátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu. Ég er þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðirnir eigi að koma inn í atvinnulífið með miklu sterkari og öflugri hætti en hefur verið hingað til. Þeir eiga ekki eingöngu að vera veitendur með því að beina sínum peningum í formi lána til opinberra fjárfestingarsjóða eða með samningum við banka. Þeir eiga einnig að koma inn í atvinnulífið sem þátttakendur með því að kaupa hlutabréf í stórfyrirtækjum, í fyrirtækjum sem varða sérstaklega almannaheill.
    Hæstv. fjmrh. talaði um að við Íslendingar lifðum í því sem hann kallaði samkeppnisþjóðfélag fárra fyrirtækja. (Fjmrh.: Fákeppni á peningamarkaði.) Já, alveg rétt. Og þetta er að mörgu leyti rétt. Það eru ekki margir og miklir möguleikar á Íslandi til þátttöku í því sem stórt er úti í atvinnulífinu. Fólkið í landinu á geysilega mikið undir því að vel takist til í rekstri þessara fyrirtækja og sérstaklega þeir sem eru í fyrirtækjum sem taka ákveðna áhættu, þ.e. eru ekki verndaðir af ríkinu á meðan ríkið getur verndað einhvern. Lífeyrissjóðirnir eiga að koma sem eignaraðilar að þessum fyrirtækjum. Við erum í litlu landi og á flestöllum sviðum og í flestöllum atvinnugreinum eru fá stór markaðsráðandi fyrirtæki.
    Þetta á að gerast með þeim hætti að lífeyrissjóðirnir eiga að hafa heimild til að koma með takmarkaða aðild í kaupum á hlutabréfum í viðkomandi fyrirtækjum, t.d. mætti hugsa sér að það væri allt að 10% af árlegu ráðstöfunarfé sjóðanna og einnig mætti hugsa sér að það væri takmarkandi miðað við höfuðstól sjóðanna. Síðan ætti það að vera takmarkandi gagnvart því hvað það mætti vera mikill hluti að hlutabréfum viðkomandi fyrirtækis. Auðvitað yrði þetta allt að gerast á grundvelli laga og í samræmi við reglugerðir þar um.
    Við verðum að komast út úr þeim gamla forpokaða hugsunarhætti að fé lífeyrissjóða eigi ekki að koma til skjalanna inn í atvinnulífið með sama hætti og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Ég get nefnt sem dæmi og hef haft tækifæri til þess í gegnum árin að kynna mér það nokkuð vel að í Vestur-Evrópu sem og í Kanada og Bandaríkjunum eru lífeyrissjóðir mjög sterkir eignaraðilar í stórfyrirtækjum. Að vísu býr fólk þar við allt aðrar aðstæður. En hvað sem því líður höfum við ákveðna möguleika hérlendis ef við nýtum þá rétt.
    Í Bandaríkjunum er það t.d. þannig í dag að í þúsund stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna eiga lífeyrissjóðirnir um 60% af öllu hlutafé þessara fyrirtækja. Það gerist auðvitað með allt öðrum hætti en við getum framkvæmt hér vegna þess að þeir hafa peningakerfi sem er með öðrum hætti og ég er ekkert að segja að við getum framkvæmt með þeim hætti. En þetta undirstrikar aðeins það sem þar hefur gerst.
    Í Vestur-Þýskalandi eru verkalýðsfélögin og sjóðir

verkalýðsfélaganna og lífeyrissjóðir, hvort sem það eru fyrirtækjasjóðir eða sjóðir sem verkalýðsfélögin sjálf eru með samningsbundið við vinnuveitendur, einnig miklir þátttakendur í stórfyrirtækjum. Svona gæti ég talið áfram, en mun ekki gera á þessu stigi.
    Þessi aðferð, þ.e. að lífeyrissjóðirnir komi inn í fyrirtæki með þessum hætti, leiðir til eðlilegri þátttöku fólksins, opnar stórfyrirtæki fyrir fólkið, eyðir tortryggni og gefur þeim aðilum sem eru í forsvari t.d. fyrir verkalýðshreyfingunni allt annan aðgang að upplýsingum og þær komast með allt öðrum hætti inn í umræðuna um hvað sé til heilla í sambandi við stórfyrirtækin. Ég nefni sem dæmi það, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. áðan, að fram undan eru kaup á nýjum þotum fyrir Flugleiðir hf. Það er verið að endurnýja flugflotann sem er geysilega þýðingarmikið atriði fyrir þjóðina í heild. Þarna hefði verið eðlilegt að lífeyrissjóðirnir hefðu komið til skjalanna en ríkið eitt þyrfti ekki að koma inn í þetta dæmi þegar þar að kemur og það eru margar leiðir sem koma til greina í þeim efnum.
    Þá er fjórða atriðið sem ég ætla að koma inn á. Ég gæti komið með mörg fleiri í verkefnaröðinni. Ég tek það sem ég tel æskilegast að komi fram á þessu stigi. Það er í sambandi við uppbyggingu heimila fyrir aldraða. Það getur vel verið að hv. þm. líti þannig á að það sé búið að gera svo mikið í þessum efnum að það þurfi ekki að gera mikið meira og ég nefndi það áðan að það hefur vissulega verið mikið gert. En það er hægt að gera miklu meira og með allt öðrum hætti og það getur vel komið til þess að Íslendingar þurfi að horfast í augu við það vandamál, ég kalla það vandamál, að menn þurfi að ljúka sinni starfsævi fyrr en menn óska. Þetta vandamál hefur komið upp hjá öðrum þjóðfélögum þar sem atvinnuleysi hefur verið mikið.
    Ég geri varla ráð fyrir því að margir hafi hugleitt að það eru til staðir á Íslandi sem eru þess eðlis að ef aldraðir, ef fullorðið fólk ætti kost á því að fá að búa þar í lok ævikvölds mundi það kjósa það frekar jafnvel en að búa hér á þéttbýlissvæðinu. Það er mikið kvartað undan því að það sé aðstreymi fólks til Reykjavíkur. Það er m.a. vegna þess að við höfum ekki hugleitt hvernig við getum snúið þessu við og skapað eldra fólki allt aðra og nýja og betri möguleika til að búa annars staðar á landinu sem eru ekki í mikilli fjarlægð, þótt landfræðilega séð sé það mikil fjarlægð, ef maður lítur það út frá sjónarmiði tækninnar. Innan nokkurra ára verður t.d. hægt að fljúga frá Reykjavík til Austfjarða á mun skemmri tíma en nú er. Þegar við verðum búin að koma þar upp stórum flugvelli sem getur tekið stórar þotur erum við búin að koma okkur upp aðstöðu þannig að það tekur ekki meira en 30--40 mínútur að fljúga frá flugvöllum á Stór-Reykjavíkursvæðinu austur að Egilsstöðum.
    Ég sé að hv. þm. Eiður Guðnason hristir höfuðið. Það verður hver að fá að eiga það við sig ef hann þorir ekki og vill ekki horfa til framtíðarinnar.
( EG: Ferðatíminn styttist ekki í þeim mæli sem hv.

þm. er að segja.) Það er mitt mat að ferðatíminn innan lands muni styttast mjög. Ég veit að hv. þm. Eiður Guðnason er stundum dálítið þröngur. Ég minnist þess á sínum tíma þegar hann talaði á móti frjálsu útvarpi, en sér nú eftir því. En ég ætla samt að eiga mína framtíðardrauma í þessu eins og fleira og ég er sannfærður um að ef maður lítur á þetta út frá þessu sjónarmiði skiptir það engu máli sem hv. þm. var að koma að með sínu frammíkalli vegna þess að það eru aðstæðurnar og það eru breyttar samgöngur, nýir möguleikar sem skipta meginmáli.
    Það hefur verið farið með hundruð Íslendinga fársjúka til útlanda til að bjarga þeim frá bráðum dauða og þykir engum langt. Þess vegna segi ég að það er ekki langt að fara frá Reykjavík til Austfjarða á 30--40 mínútum til nýrra framtíðarbyggða fyrir aldraða.
    En ég ætla ekki að reyna að sannfæra þennan ágæta alþýðuflokksmann um það því þeirra er ekki framtíðin eins og við vitum öll. Þeir hafa komið sér þannig fyrir. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að reyna að sannfæra hann vegna þess að mínir kjósendur eru ekki þingmenn Alþýðuflokksins þannig að ég ætla ekki að reyna að sannfæra hv. þm. Mér dettur það ekki í hug.
    En þetta er eitt af því sem við þurfum að horfa til. Við þurfum að breyta afstöðu okkar til þess og bera það undir þá sem eiga að njóta þess í ellinni, skapa nýja möguleika, spyrja fólkið sjálft, bjóða upp á nýja möguleika, ekki bara á þéttbýlissvæðunum heldur, og ég nefni það sem dæmi, á Austfjörðum. Eftir hverju leita menn þegar þeir verða eldri og þegar starfsævi lýkur? Þeir vilja hafa einhver verkefni að sjálfsögðu ef hægt er að koma því við, en þeir vilja líka hafa kyrrð, þeir vilja búa á fögrum stað og njóta góðrar umönnunar og hvíldar í kyrrlátu umhverfi. Þetta er allt hægt að skapa og þetta munum við auðvitað gera með hæfu ungu fólki sem hefur lært sérstaklega að fjalla um og reka slíka staði.
    Virðulegi forseti. Ég er nú orðinn langorðari en ég ætlaði, en ég vil að lokum segja þetta. --- Er hæstv. fjmrh. á næstu grösum því nú kem ég að því aftur sem skiptir miklu máli? Nei, hann hlustar ekki á meðan hann er í símanum. ( EG: Þá vitum við að það sem sagt hefur verið til þessa skiptir ekki neinu máli.) Ég hef minni áhyggjur af því þótt hv. þm. Eiður Guðnason hreyfi sig og hristi sig vegna þess að það vill svo til að ég hef ekki þurft að hafa áhyggjur af því að sumt af því sem ég hef beitt mér fyrir í gegnum ævina hafi ekki gengið eftir og hef enga minnimáttarkennd út af því. En ég hugsa að hv. þm. eigi að sjá eftir þessum frammígripum sínum ef hann hefði hlustað á ræðuna eins og hún var flutt. En sem betur verður hún prentuð og af því að ég veit að hv. þm. er greindur og góður maður les hann ræðuna og mun komast að annarri niðurstöðu þegar hann er búinn að lesa hana. --- En ég óska eindregið eftir því að hæstv. ráðherra ljúki sínu símtali.
    Það sem ég vildi segja hæstv. fjmrh. er að það er rétt að það þarf að endurskoða stefnumörkun

varðandi ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna m.a. með það í huga sem ég hef hér sagt og ýmislegt af því sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra. En það þarf að skoða fleira í því samhengi sem ekki hefur komið fram, hvorki í ræðu hæstv. ráðherra né hjá mér enn sem komið er, og það er að enginn hv. þm. sem hefur tekið þátt í þessari umræðu og ekki heldur hæstv. ráðherra hefur lagt áherslu á það í sambandi við lífeyrissjóðsféð að það þarf að tryggja öllum landsmönnum sambærilegar lífeyristryggingar, sambærilegan rétt. Þá kemur að því sem ég varpa fram til hæstv. ráðherra: Finnst hæstv. fjmrh. t.d. eðlilegt að á sama tíma sem í fjárlögum síðustu ára og nú er gert ráð fyrir sérstökum viðbótargreiðslum til lífeyrisþega í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, þ.e. greiðslu upp á hundruð milljóna, skuli lífeyrisþegar lífeyrissjóða atvinnulífsins búa við mun lakari kjör? Hvers vegna ræðum við ekki um að jafna kjörin, þ.e. ellilífeyristrygginguna? Við vitum öll að það er mikill ójöfnuður í þessum efnum og það eru fyrst og fremst peningarnir úr lífeyrissjóðum þeirra sem búa við lökustu kjörin sem við erum að fjalla um. Það eru þeir peningar sem eiga að bjarga lánsfjárlögum í ár og á næstu árum. Ég vona að hv. þm. Eiður Guðnason sé sammála mér um að hlutur verkakonunnar á Akranesi og sjómannsins í Ólafsvík er stærstur í því framlagi sem við erum að fjalla um.
    Hvers vegna byrjum við ekki á sjálfum okkar í sambandi við þessi mál, þ.e. í sambandi við þau lífeyrisréttindi sem hv. þm. hafa, t.d. með því að leggja niður þann ósið að eini og sami maðurinn geti tekið margfaldar lífeyrisgreiðslur í gegnum hið opinbera hafi hann t.d. verið alþm., ráðherra, bankastjóri í ríkisbanka eða framkvæmdastjóri í opinberri stofnun? Hvað skyldi vera hægt að spara marga tugi milljóna á því að samræma þetta og færa það nær því sem aðrir búa við? Nægir ekki --- ég varpa fram þeirri spurningu --- nægir ekki að maður sem hefur gegnt öllum þeim stöðum sem ég nefndi hjá hinu opinbera fái t.d. lífeyrisgreiðslur á grundvelli bestu tekna á starfsævi sinni? Þetta tíðkast í öðrum löndum, m.a. í gamla kratalandinu Danmörku. Það voru sósíaldemókratar í Danmörku sem beittu sér fyrir því m.a. að þessu yrði breytt þannig í Danmörku á sínum tíma þar sem þetta óréttlæti tíðkaðist. Ég
geri mér fullkomlega grein fyrir að allar þessar greiðslur eru samningsbundnar og samningar skulu standa gagnvart fortíðinni, en ég er að tala um framtíðina og við erum að tala um fjárlög næsta árs.
    Hvers vegna kemur ekki ríkisstjórn félagshyggju og jafnréttis með tillögur sem fela í sér þennan jöfnuð, þ.e. að þeir sem hossa sér í hæstu stöðum stjórnmála og ríkisafskipta láti nú eitthvað af þessum óeðlilega háu greiðslum til sín úr ríkissjóði? Í þessu felst jafnrétti mikið og einnig sparnaður. Ég veit að hæstv. núv. fjmrh. er í hjarta sínu sammála mér um það, sem ég sagði og varpaði fram í spurnarformi, að vilja skapa meiri jöfnuð og tryggja meira réttlæti, en hann er því miður í félagsskap með mönnum sem þekkja aðeins eitt réttlæti og það er: hvað kemur mér og

mínum best, valdalega, aðstöðulega og peningalega? Og þar er ekki spurt um jöfnuð og réttlæti heldur þrönga pólitíska hagsmuni.