Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að hv. 14. þm. Reykv. og höfuðtalsmaður Sjálfstfl. um atvinnumál og efnahagsmál skuli vera staddur í deildinni þessa stundina og ég beini orðum mínum sérstaklega til hans, m.a. vegna þeirrar ræðu sem hann flutti áðan. Það eru fáein atriði sem mig langaði til að víkja sérstaklega að varðandi þessa umræðu alla.
    Það er mjög sérkennilegt að heyra hv. þm. Sjálfstfl., eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal, sem nokkuð hefur blandað sér í þessa umræðu, fara hamförum gegn þessu frv. til lánsfjárlaga sem hér er nú til umræðu. Það þarf ekki að hafa langt minni til þess --- bara nokkur ár aftur í tímann, bæði í fyrra og þar áður og kannski þar áður líka, var þessi hv. þm. helsti verjandi lánsfjárlaga sem þá voru til meðferðar hér á þingi. Raunar hygg ég að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafi stundum komið þar við sögu líka. Nú er það svo að þetta frv. til lánsfjárlaga er í öllum meginatriðum svipað og verið hefur hér á umliðnum árum. Það eru að vísu nokkur áhersluatriði sem hér eru öðruvísi og jafnvel sumt í skynsamlegri áttir en áður hefur verið, a.m.k. stundum. Og það er svolítið sérkennileg reynsla, en maður venst nú ýmsu hér á hinu háa Alþingi, þegar maður heyrir hv. þm. Sjálfstfl. fara hamförum, bæði úr framsóknararmi Sjálfstfl. og eins úr öðrum örmum flokksins, fara hamförum gegn þessu frv. Það er svolítið sérkennilegt. ( EgJ: Er framsóknarmaður Alþfl. að tala?)
    Ég heyrði hv. þm. Egil Jónsson tala hér um söluskattinn á matvæli sem hans flokkur stóð að, alveg eins og minn flokkur, að setja á og talaði um þær breytingar sem þetta hefði valdið á skattheimtunni. ( EgJ: Þið eigið sök líka.) Nú veit hv. þm. það mætavel að þessi skattlagning leiddi ekki til hækkunar á innlendum matvælum. Það var allt saman greitt niður og því var mætt með auknum niðurgreiðslum. Þetta veit hv. þm. þó hann kannski fáist ekki til þess að viðurkenna það.
    Ég heyri það nú að talsmenn Sjálfstfl. tala um að það eigi að fella gengið. Þeir hafa sagt það hér berum orðum. Það væri þá kannski fróðlegt að heyra hversu mikið og heyra röksemdir þeirra fyrir því hvernig það leysi þann vanda sem nú er við að etja í þjóðarbúinu. Það er fróðlegt að heyra þessa speki frá fulltrúum flokksins sem heyktist, sem hafði ekki döngun í sér, hafði ekki kraft, hafði ekki forustu til að standa að þeim aðgerðum sem þurfti að gera, og skorti pólitískt hugrekki. Þar varð pólitíski heigulshátturinn ofan á og ekki kannski í fyrsta skipti þegar við vandamál var að stríða hér sl. haust. (Gripið fram í.) Nú heyri ég að ég kem við kaun á hv. þm. sem kalla nú allir þrír sjálfstæðismenn hér fram í í einu. Það er svo sem ágætt. ( EgJ: Svo geta menn nú talað vitlaust að ofbjóði.) Það er svo sem ágætt. ( Forseti: Forseti vill fara þess á leit að einn tali í einu og nú er hv. 3. þm. Vesturl. í ræðustóli.) Það breytir ekki því að Sjálfstfl. var í ríkisstjórn þar til í lok september þegar þeir heyktust á því að ráðast til atlögu við þann vanda sem

við var að etja. Þetta veit þjóðin. Forusta Sjálfstfl. brást og það er alveg sama hvað þessir hv. þm. reyna nú að bera sig mannalega og tala digurbarkalega við okkur hv. samþingmenn sína. Þjóðin hefur ekki trú á því.
    En hver eru úrræði Sjálfstfl. núna? Við höfum afskaplega lítið heyrt um þau. Það er gagnrýnt allt sem gert er. Það er gagnrýnt þegar reynt er að koma í veg fyrir að hér stansi allt, fyrirtækin á landsbyggðinni, undirstöðuatvinnugreinarnar. En hver voru úrræði Sjálfstfl.? Hvað gerði formaður Sjálfstfl. þegar hann var forsrh.? Hann fékk nefnd sérfræðinga til að búa til úrræði fyrir sig eins og frægt er. ( Gripið fram í: Hvað vildi Alþfl.?) Og hvað gerði hann síðan? Hann fékk aðra menn úti í bæ til að hafna þessum sömu úrræðum. Þetta er það sem gerðist og allir vita með sérfræðinganefndina undir forustu Flateyringsins. Síðan voru aðrir menn úti í bæ fengnir til að hafna þessum sömu úrræðum. Það var ekki beitt sömu aðferðum og dr. Bjarni Benediktsson beitti þegar hann var stjórnandi og formaður Sjálfstfl. og forsrh. en hann kallaði --- þetta veit ég að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson man --- forustumenn verkalýðshreyfingarinnar á sinn fund 1968 þegar við mikla erfiðleika var að etja í íslensku þjóðarbúi. Hann sagði ekki við þá: Samþykkið þið þetta. Ég hygg að dr. Bjarni Benediktsson hafi sagt þá við leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar: Ég er ekki að biðja ykkur um að samþykkja eitt eða neitt. Þetta er spurning um það hverju þið getið unað og ég mælist til að þið unið þessu. Og það var. Og þjóðin sigldi út úr þeim erfiðleikum. Þá var öðruvísi um stjórnartaumana haldið en í tíð hæstv. fyrrv. forsrh. Þetta vitum við öll. (Gripið fram í.) Það brast kjark og það brast stjórnvisku. Það brast forustu. Þetta veit öll þjóðin og það er alveg sama hvað hv. þm. Halldór Blöndal og Guðmundur H. Garðarsson tala hér digurbarkalega um þessi mál núna. Það hefur ákaflega lítið að segja. ( GHG: Er það niðurfærslan enn þá sem Alþfl. vill?) Alþfl. axlaði ábyrgð ( GHG: Vill Karl Steinar verkalýðsforingi . . . ) og tók þátt í að mynda nýja ríkisstjórn þegar Sjálfstfl. brást bæði þjóðinni og kannski fyrst og fremst sjálfum sér. Það er svolítið athyglisvert að hugsa
til þess, hv. þm., að í rauninni ( HBl: Hvað sagði Karl Steinar?) ( GHG: Karl Steinar neitaði . . . ) Það er greinilegt, virðulegi forseti, að hv. þm. Sjálfstfl. una þessu illa. ( Forseti: Má ég biðja menn um að tala einn í einu. Ég hef áður vakið athygli á því að hv. 3. þm. Vesturl. er í ræðustól og öðrum þingmönnum er heimilt að koma upp í ræðustólinn á eftir og tjá sig.)
    Ég bið hv. þm. um að horfa til baka til sögunnar. Hvað er langt síðan Sjálfstfl. hefur myndað stjórn á Íslandi upp á eigin spýtur? Hvað er langt síðan? Það er mjög langt síðan. ( Gripið fram í: 30 ár.) A.m.k. Myndaði hæstv. fyrrv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, ríkisstjórn? Það vita allir að hann gerði það ekki. Myndaði fyrrv. formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, nokkurn tímann ríkisstjórn þó að hann væri forsrh.? Það vita allir að hann gerði það ekki. Þetta er

nefnilega býsna athyglisverð saga þegar farið er aftur í tímann.
    En ég ætlaði að víkja aðeins að ræðu sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson flutti hér áðan og var um ýmsa hluti athyglisverð. Hann talaði eingöngu um málefni lífeyrissjóðanna. Það er vissulega ástæða til þess undir þessum dagskrárlið. Ég veit að hann gjörþekkir þau mál, er búinn að vera í stjórnum lífeyrissjóða og hefur stjórnað fjármálum verkalýðshreyfingarinnar eða hluta hennar um áratuga skeið, er glöggur maður og þekkir þessa hluti mjög vel. En ég verð að játa það að ég skildi ekki alveg hvað hann var að fara og þess vegna greip ég fram í fyrir hv. þm. þegar hann talaði um það að með því að byggja nýjan flugvöll á Austurlandi mætti stytta ferðatímann þangað um helming. Ég held að það sé ekki rétt, hv. þm. Ég held að það hafi ekki afgerandi áhrif á ferðalög manna til Austurlands hvort það tekur hálftíma eða klukkutíma að komast þangað. Ég held að það sé mjög einfalt mál og hafi í rauninni ekkert að segja. Hins vegar skildist mér á honum að það ætti kannski að fara að flytja aldrað fólk út á land. ( GHG: Bjóða upp á möguleikann.) Ég held að þeir möguleikar séu fyrir hendi í dag. En ég held að hv. þm. hafi eitthvað misskilið mitt frammíkall. Ég sé ekki hvaða máli það skiptir hvort það er flugvöllur fyrir austan og hvort það tekur hálftíma eða klukkutíma að komast þangað. Ég sé bara ekki að það snerti þetta mál. Hins vegar veit ég að við hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson erum áreiðanlega sammála um það að það ber brýna nauðsyn til að byggja varaflugvöll á Austurlandi, en það kemur bara þessu máli ekkert við. Ég held að hv. þm. hafi þarna verið að blanda saman einhverju sem ekki hafi átt að blanda saman.
    En, eins og ég sagði hér, virðulegi forseti, er uppsetning þessara lánsfjárlaga og efni þeirra ekki frábrugðið því sem verið hefur um langt skeið. Það eru hér mér til hrellingar og leiðinda sömu skerðingarákvæðin og verið hafa í bráðabirgðalögum, hvort sem fjmrh. hefur heitið Þorsteinn Pálsson eða Jón Baldvin Hannibalsson eða Ólafur Ragnar Grímsson. Mér finnst, og ég segi það aftur og enn að mér finnst það heldur vond lögfræði að setja ein lög og skerða þau síðan með öðrum. Ég sé líka mér til ekki mikillar ánægju að hér eru enn skerðingarákvæði varðandi Ríkisútvarpið. Það er ekki ný bóla. Hins vegar er nú að störfum sérstakur starfshópur sem hæstv. menntmrh. setti til þess að gera tillögur um það hvernig megi ná Ríkisútvarpinu út úr þeim fjárhagslegu ógöngum sem það hefur lent í og ég hef rökstuddar og sterkar vonir um það að fjármál Ríkisútvarpsins mæti meiri skilningi hjá þessari ríkisstjórn en þeirri síðustu þar sem hæstv. menntmrh., leyfi ég mér að segja, hafði ekki mikinn skilning á vandamálum Ríkisútvarpsins eins og ljóst má vera af því að Ríkisútvarpinu var synjað um hækkanir á afnotagjaldi í samræmi við fjárlagaforsendur sem Alþingi hafði samþykkt. Því var synjað. Það er líka til marks um þann hug sem hæstv. fyrrv. menntmrh. og

flokkur hans hafa borið til þessarar mestu menningarstofnunar þjóðarinnar að daginn sem ríkisstjórnin var að fara frá, eða kvöldið áður, þá var eitthvað farið að ámálga það að afnotagjald Ríkisútvarpsins yrði hækkað. Það var þegar klukkuna vantaði eins og tvær mínútur í tólf á síðasta sólarhring þeirrar ríkisstjórnar sem þá var.
    Og það er líka til marks um góðan hug fyrrv. ríkisstjórnar, eða fyrrv. hæstv. menntmrh. segi ég öllu heldur, gagnvart Ríkisútvarpinu að útvarpsstjóri skrifaði ráðuneyti hans þrisvar sinnum til að freista þess að fá úr því skorið hvort --- ja, ég vil segja augljóslega ólöglegar auglýsingaaðferðir Stöðvar tvö færu ekki í bága við og væru á svig við settar reglur. Hæstv. menntmrh. svaraði aldrei þessum þremur bréfum útvarpsstjóra. Aldrei. Það var svo mikill skilningur á málefnum Ríkisútvarpsins í því ráðuneyti þá.
    Ég vonast til að þessi mál verði öðruvísi núna þótt þessi skerðingarákvæði kunni að haldast hér inni, enda má deila um ágæti þess að stofnun eins og Ríkisútvarpið hafi tekjur af aðflutningsgjöldum. Það má deila um markaða tekjustofna yfirleitt. Ég hygg að við munum fá á þessu skýringar í nefndinni þegar hún fjallar um þetta. Það má deila um merkta tekjustofna af þessu tagi. Hins vegar verður Alþingi auðvitað að standa við þau loforð sem gefin voru við breytingu á útvarpslögunum. Hv. þm. Halldór Blöndal kom nokkuð nálægt því og hann veit jafn vel og ég að í greinargerð þeirrar nefndar sem samdi það frv. var það beinlínis tekið fram að Ríkisútvarpinu yrðu bættar þær
auglýsingatekjur sem það kynni að missa við það að fleiri aðilar fengju leyfi til að útvarpa. Við þetta var ekki staðið.
    Við gerð fjárlaga fyrir árið 1988 var gengið út frá ákveðnum forsendum varðandi afnotagjöld Ríkisútvarpsins, hækkun þeirra og verðlagsþróun á árinu 1988. Þetta var svikið og það vita þeir sem sæti eiga í fjvn. Hið opinbera getur auðvitað ekki leyft sér að koma fram með þessum hætti gagnvart stofnun eins og Ríkisútvarpinu. Ég veit það hins vegar líka að ýmsir af hv. þm. Sjálfstfl. mundu svo sem ekkert gráta það þó að Ríkisútvarpið liði undir lok eða hlutur þess yrði miklu minni en hann er núna. Það hafa ýmsir þeirra beinlínis sagt berum orðum. Og að því er varðar menntmrh. Sjálfstfl. í síðustu ríkisstjórn, þá tala auðvitað verkin eða öllu heldur verkleysið um hug flokksins til þessarar stofnunar.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa mikið fleiri orð um þetta. Hér eru margir gamlir kunningjar í þessu. Hér er líka sitt af hverju nýtt og fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar mun þurfa nokkurn tíma til að fjalla um þetta mál. Ég geri ráð fyrir að nefndin þurfi að kalla allmarga aðila til funda og þurfi eins og áður að leita eftir upplýsingum og aðstoð úr fjmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Við munum auðvitað afgreiða þetta mál í tæka tíð, en til þess þarf áreiðanlega töluvert mikla vinnu og töluverðan tíma. Ég veit að það stendur ekki á nefndarmönnum í hv.

fjh.- og viðskn. að halda fundi þótt það verði um helgar og á kvöldin til að koma þessu máli fram og sinna öllum þeim óskum sem ég veit að fram munu koma um að kalla menn til fundar við nefndina.