Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þennan fund, en þannig vill til að ég verð ekki á þingfundi á morgun og þar af leiðandi ætla ég að gera hér tvær örstuttar athugasemdir.
    Sú fyrri er varðandi þau ummæli hv. 3. þm. Vesturl. þegar hann tók sérstaklega fram að ekki hefðu náð fram að ganga þær ákvarðanir sem teknar voru við fjárlagagerð fyrir þetta ár um hækkun á tekjum Ríkisútvarpsins. Ýmsar þær heimildir sem veittar voru í fjárlögum --- það nær nú víðar en til Ríkisútvarpsins --- náðu ekki fram að ganga á fyrstu níu mánuðum ársins. En ég vek athygli á því að það er kominn annar menntmrh. og það er komin önnur ríkisstjórn sem fer með framkvæmd þeirra fjárlaga, sem voru sett fyrir tæpu ári síðan, þrjá síðustu mánuði ársins. Og þá skyldi nú vera hægt að grípa til þess að lagfæra aðeins hlut Ríkisútvarpsins. Það er ekki við fyrrv. menntmrh. að sakast þótt þær heimildir hafi ekki verið nýttar til fulls vegna þess að hann hefur ekki verið í starfi allt þetta ár og verður ekki.
    Annað sem ég vildi líka gera athugasemd við voru ummæli hæstv. fjmrh. þar sem hann vék að útgjöldum landbúnaðarins og komst þannig að orði að stór hluti af ríkisútgjöldunum færi til þess atvinnuvegar. Það er væntanlega skýringin á því hvernig landbúnaðurinn er leikinn í þessu fjárlagafrv. sem nú er til meðferðar og er staðfest hér með frv. til lánsfjárlaga. Staðreyndin er hins vegar sú að ríkisútgjöld til landbúnaðar hafa stórlækkað á síðustu árum. Árið 1982 t.d. nam hlutdeild landbúnaðar af ríkisútgjöldum 12%. Fyrir árið 1986 var sambærileg tala orðin helmingi lægri, hafði lækkað niður í 6%. Inni í þessari tölu eru t.d. allar niðurgreiðslur sem eru bókfærðar undir landbrn. og allir vita nú hvert þær hafa farið. ( Fjmrh.: Það er misskilningur.) Já, fyrirgefðu, en þær eru inni í þessari tölu. Þetta hlutfall hefur að sjálfsögðu hækkað eitthvað á síðasta ári vegna þess að niðurgreiðslur voru teknar upp, eins og hér hefur komið fram, vegna matarskattsins. Það er nefnilega mesti misskilningur að það fari stór hluti af ríkisútgjöldum til landbúnaðarins og það er vissulega vert að vekja á því athygli að landbúnaðurinn hefur dregið úr útgjöldum alveg stórlega á síðustu árum sem m.a. kemur fram í hlutdeild hans í ríkisútgjöldunum. Þessu er eins farið þó að litið sé til þjóðarframleiðslu.
    Mér finnst líka vert að vekja athygli á því að hér er um að ræða fjárveitingu til allra stofnana landbúnaðarins, bændaskólanna, rannsóknarstarfseminnar, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar þannig að þegar búið er að taka þessar fjárveitingar í burtu, sem eru býsna mikið alþjóðlegs eðlis, þá eru fjárveitingar til landbúnaðarins sáralitlar --- auk þess sem hluti af þeim er, eins og menn vita, samningsbundinn og við það miðaður að ná fram ákveðnum markmiðum í sambandi við aðlögun búvöruframleiðslunnar vegna breyttra markaðsskilyrða. Ég vil því vona að hæstv. fjmrh. fari betur yfir þessar tölur og sannreyni fullyrðingar sínar í þessum efnum.