Helgidagafriður
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég vil í upphafi biðjast velvirðingar á því að hv. deild skuli hafa tafist, en vegna atkvæðagreiðslu í Ed., þar sem ég á sæti, gat ég ekki komið fyrr til fundar.
    Ég mæli hér fyrir frv. til laga um helgidagafrið sem kveður á um helgidaga þjóðkirkjunnar og helgidagafrið. Frv. þessu er ætlað að leysa af hólmi lög um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar frá árinu 1926. Lengi hefur verið ljós þörf á því að endurskoða lögin frá 1926. Talið var nauðsynlegt að endurskoðunin færi fram í fullu samráði við þjóðkirkjuna. Málið varðar jafnframt allan almenning og þá sem fara með framkvæmd mála, svo sem löggæslu.
    Á árinu 1984 undirbjó kirkjulaganefnd, sem starfar á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, frv. til laga um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar. Var það ásamt greinargerð lagt fyrir kirkjuráð og síðan fyrir kirkjuþing 1985 og 1986. Í fyrra skiptið samþykkti kirkjuþing frv. með nokkrum breytingum. Í síðara skiptið afgreiddi kirkjuþing frv. svo að felld voru úr því þau ákvæði sem viku að því hvaða starfsemi væri óheimil á helgidögum eða einstökum helgidögum. Einnig voru felld niður ákvæði um heimild lögreglustjóra til að veita undanþágur frá lögunum. Samkvæmt því skyldi frv. aðeins fjalla um það hverjir vera skyldu helgidagar þjóðkirkjunnar og um friðunartíma einstakra helgidaga og svo skyldi vera þar almennt ákvæði er legði bann við því að trufla guðsþjónustu eða kirkjuathöfn, sbr. 3. gr. þessa frv. Gert var ráð fyrir að málum þeim, sem lagt var til að felld væru niður í frv., yrði skipað með reglugerð.
    Af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefur frv., eins og það kom frá kirkjuþingi, sætt rækilegri athugun. Þau ákvæði í frv. kirkjulaganefndar, sem kirkjuþing felldi niður, varða ekki síst löggæslu og lagaframkvæmd. Þótt kirkjuþing 1986 hafi talið heppilegra að fjalla um þessa þætti í reglugerð en í lögunum sjálfum lýsir afgreiðslan út af fyrir sig ekki andstöðu við efnisákvæði þau í frv. sem hér er um að ræða, sbr. og afgreiðslu kirkjuþings 1985.
    Ráðuneytið telur eðlilegra að skipa ákvæðum um nánari afmörkun á þeirri starfsemi, sem ætlunin er að sporna við á helgidögum, með lögum af eftirfarandi ástæðum:
    a. Helgidagalöggjöf varðar mjög almenning á landi hér. Ákvæði laga eru að jafnaði betur kunn en ákvæði reglugerða. Ólíkt er greiðara fyrir almenning og raunar einnig þá sem fylgjast eiga með framkvæmd þessara réttarreglna að kynna sér lög í lagasafni en að leita uppi reglugerð. Öll meginatriði slíkra reglna ættu að vera í lögunum sjálfum.
    b. Þá er eðlilegt að löggjafinn kveði á um þau atriði sem greinir í þeim ákvæðum er hér um ræðir, þ.e. 4.--7. gr. þessa frv. Þar reynir á atriði sem varða mjög almenning og þá sem standa fyrir margs konar félaga- og atvinnustarfsemi. Grundvöllur reglugerðarákvæða, sem væntanlega er þörf á, sbr. 8.

gr. frv. þessa, verður enn fremur traustari ef löggjafinn hefur fjallað um þessi efni og markað meginstefnu í þeim.
    Frv. það, sem hér er flutt, er að efni til í samræmi við þau grundvallarsjónarmið sem hér var lýst. Ákvæði 1.--3. gr. frv. eru í megindráttum í samræmi við afgreiðslu kirkjuþings 1986 á frv. því er kirkjulaganefnd samdi. Ákvæði 4.--10. gr. frv. eru í megindráttum byggð á frv. kirkjulaganefndar og er hliðsjón höfð af afgreiðslu kirkjuþings 1985 sem taldi að ákvæði þessi ættu að vera í frv. sjálfu. Ákvæði 2. gr. frv. um helgidaga og afmörkun á helgi þeirra er í samræmi við afgreiðslu kirkjuþings, en gert er ráð fyrir að helgi skírdags verði hin sama og sunnudaga. Sleppt er ákvæðinu um að bann liggi við skemmtanahaldi laugardaga fyrir páska og hvítasunnu frá kl. 21.
    Í grg. með frv. er nokkuð rakin saga löggjafar um helgidaga og helgidagahald. Verður það ekki rakið hér. Hins vegar vil ég rekja þau sjónarmið sem legið hafa til grundvallar við samningu frv. Kemur þar fram að kirkjulaganefnd viðaði að sér löggjöf um þetta efni frá allmörgum löndum í Evrópu. Helsta fyrirmynd frv. eru norsku helgidagalögin, en einnig hefur verið höfð hliðsjón af öðrum erlendum lögum, m.a. dönsku lögunum, sem ganga skemmra í friðun helgidaga en frv. þetta. Verður hér fyrst og fremst getið nokkurra almennra sjónarmiða sem koma til álita við samningu frv. um þetta efni.
    Oft er því haldið fram að helgidagalöggjöf sé slælega framfylgt. Könnun málsins veitir vísbendingu um að lögreglustjórum sé hér ærinn vandi á höndum. Bent er m.a. á það af hálfu þeirra sem framkvæmdin hvílir á að friðaðir séu dagar sem lítil helgi virðist hvíla á í hugum almennings, sbr. t.d. uppstigningardag og skírdag og laugardag fyrir páska og hvítasunnu (eftir kl. 18). Þá er vísað til þess að athafnir séu óheimilar sem lítil ástæða sé til að amast við, svo sem blómasala á skírdegi eða uppstigningardegi, svo að dæmi sé nefnt. Þeir sem kunnugir eru framkvæmd laganna benda einnig á að framkvæmdin sé talsvert mismunandi eftir lögsagnarumdæmum, þar á meðal um undanþágur sem
lögreglustjórar veita. Bent er á sérstök álitamál út af íþróttamótum og svo listahátíðum, þar á meðal kvikmyndasýningum í tengslum við þær. Í sumum umdæmum hefur það vandamál leitað á hvernig líta eigi á mannfundi sem til er stofnað á messutíma. Þurfa þeir út af fyrir sig ekki að trufla guðsþjónustu sem slíka, en slík tilhögun getur þó verið til ama fyrir þá sem að kirkjuathöfn standa.
    Eitt af vandamálum við samningu frv. um helgidaga og helgidagahald er sú spurning hvort sú löggjöf eigi að taka til atvinnustarfsemi eins og verslunar. Rök mæla með því að þessum málum sé skipað í löggjöf um opnunartíma sölubúða og annarra þjónustustofnana. Í norskri löggjöf virðist það t.d. gert. Hér á landi hefur hin leiðin verið farin, enda getur verslunarstarfsemi raskað mjög þeirri helgi sem eðlilegt má telja að hvíli á helgidögum.

    Vert er að taka fram að inn í helgidagalöggjöf og spurninguna um það hvernig hún verði úr garði gerð grípa ýmis sjónarmið sem ekki varða málefni kirkjunnar. Ef fækka ætti helgidögum mætti vænta þess að launþegasamtökin brygðust öndverð gegn því, bæði frá vinnuverndarsjónarmiðum og af kaupkjaraástæðum. Einnig mætti vænta viðbragða frá samtökum verslunar- og skrifstofumanna ef breyta ætti reglum um lokunartíma sölubúða og fleiri stofnana með ákvæðum helgidagalöggjafar. Hér kemur einnig til, svo sem fyrr greinir, tillitið til löggæslu. Örðugt er að fylgja eftir helgidagalöggjöf sem ekki er í samræmi við viðhorf almennings til þessara mála og er það þó engan veginn auðkannað. Þá skiptir það miklu fyrir löggæslu að sem gleggst viðmiðun sé gefin í lögunum sjálfum um þær athafnir sem óheimilar eru samkvæmt lögunum. Vart verður hjá því komist að heimila lögreglustjórum að veita undanþágu frá banni laga sem þessara, en þá er mikilvægt að reyna að samræma eftir föngum framkvæmd slíkra mála í mismunandi lögsagnarumdæmum.
    Í öðru lagi vildi ég aðeins ræða um þá spurningu hvort fækka eigi helgidögum. Umræður síðustu ára hafa einkum hnigið að afnámi skírdags og uppstigningardags og svo friðunar laugardags eftir kl. 18 fyrir páska og hvítasunnu.
    Í frv. þessu er hvorki lagt til að skírdagur né uppstigningardagur séu numdir úr tölu helgidaga. Ekki virðist almennur vilji fyrir slíkri breytingu og sú breyting mundi örugglega sæta mikilli andspyrnu af hálfu kirkjunnar.
    Spurningin um afnám friðunar laugardaga fyrir páska og hvítasunnu horfir öðruvísi við. Danir hafa t.d. afnumið þá friðun og Norðmenn einskorðað hana við tímabilið eftir kl. 21. Í frv. þessu er fylgt danska fordæminu og lagt til að dregið verði úr friðuninni sem nú gildir. Reynslan hefur leitt í ljós að framkvæmd þessara ákvæða er mjög örðug og ákvæðin alloft ekki virt. Samkvæmt frv. yrðu t.d. kvikmyndasýningar heimilaðar laugardag fyrir páska og hvítasunnu allt til kl. 12 á miðnætti.
    Í þriðja lagi er um að ræða þá spurningu við hvaða athöfnum og starfsemi er réttmætt að sporna á friðuðum dögum. Frá lagatæknilegu sjónarmiði koma hér einkum tveir kostir til greina. Annars vegar að greina sem rækilegast í lögunum sjálfum við hvaða starfsemi sé spornað eins og áður er getið. Hinn kosturinn er að greina þetta aðeins með almennu orðalagi og láta annað velta ýmist á reglugerðarákvæðum eða mótast af lagaframkvæmd. Dönsku lögin fylgja síðari stefnunni, en hin norsku (og gildandi lög hér á landi) hinni fyrri. Í frv. er miðað við þá stefnu sem síðast var greind og norsku lögin lögð til grundvallar. Stefnt er að því að sem auðveldast verði fyrir almenning og löggæsluaðila að átta sig á bannákvæðunum, einkum með því að sérgreina þær athafnir og þá starfsemi sem bann er lagt við, sbr. 4. gr., og frávik frá því, sbr. 5. og 6. gr.
    Í 3. gr. frv. er almennt ákvæði um athafnir og starfsemi sem raskar helgi guðsþjónustunnar og

kirkjuathafna. Í 4. gr. er hins vegar sérgreint ákvæði sem kveður allnáið á um athafnir og starfsemi sem andstæðar eru helgidagafriði. Slíkt ákvæði mun væntanlega hafa verulegt leiðsögugildi fyrir þá sem við lögin eiga að búa. Frávik frá banni 4. gr. er svo lögmælt bæði í 5. og 6. gr. þar sem m.a. er tekið tillit til viðskiptaþarfa og virt þörfin á að koma við menningarlegum og listrænum viðburðum á helgum dögum, svo sem listsýningum, samkomum um listræn efni o.fl., sbr. 5. gr. Einnig er komið til móts við óskir og þarfir íþróttamanna með ákvæði 6. gr. Um verslunarstarfsemi er dregið úr banni að vissu marki og reynt að sníða ákvæði að breyttum þörfum, viðhorfum og viðskiptaháttum.
    Ekki er vikið sérstaklega að skólastarfsemi í frv., enda er það mál í tiltölulega föstum skorðum. Þá eru hér ekki sérákvæði um útvarps- og sjónvarpsstarfsemi á helgum dögum og eru engar skorður reistar við henni í frv. Vænta má þess að stjórnvöld og aðrir forráðamenn þeirra mála taki tillit til helgidaga í efnisvali sínu þá daga, og á það treyst að svo sé, þótt um það megi vissulega fjalla eins og annað.
    Í fjórða lagi mun ég fara með yfirlit yfir friðunartíma helgidaga samkvæmt frv.:
    Það eru í fyrsta lagi helgidagar alfriðaðir allan sólarhringinn sem eru jóladagur, föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur; friðun frá kl. 10--15: Sunnudagar, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur, annar dagur hvítasunnu og annar dagur jóla; í þriðja lagi friðun frá kl. 18: Aðfangadagur jóla; í fjórða lagi: Frávik frá friðunartímum eru í 5. og 6. gr.; og í fimmta lagi: Aukin friðun getur leitt af ákvæði 3. gr.
    Þá er í fimmta lagi rétt að geta um efni frv. miðað við gildandi lög:
    a. Helgidagar eru hinir sömu samkvæmt frv. og samkvæmt gildandi lögum en þeir eru greindir í frv. andstætt því sem nú er.
    b. Frumvarpið gerir ráð fyrir að felld verði niður friðun laugardaga fyrir páska og hvítasunnu eftir kl. 18.
    c. Friðun sunnudaga og annarra almennra helgidaga er kl. 10--15 samkvæmt frumvarpinu, en kl. 11--15 nú.
    d. Ákvæðin um starfsemi þá, sem bönnuð er á helgidögum, er sérgreindari í frv. en samkvæmt gildandi lögum og lagt er til að ýmis frávik verði lögfest í samræmi við reynslu af þeim lögum.
    Að því er varðar efni einstakra greina frv. að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til athugasemda í frv.
    Ég hef hér rakið nokkuð efni frv. þessa. Eins og þegar hefur komið fram er það samið upp úr tillögum sem lagðar hafa verið fyrir kirkjuþing og hlotið þar breytingar. Það var niðurstaða í ráðuneytinu að leggja það fram í þessum búningi þótt það sé ekki að öllu leyti í samræmi við vilja kirkjuþings 1986. Frv. var kynnt biskupi og lagði hann það fyrir kirkjuþing nú á dögunum. Tel ég rétt að greina frá þeirri afgreiðslu sem frv. fékk, en í samþykkt kirkjuþings segir, með leyfi forseta:
    ,,Kirkjuþing 1988 hefur fjallað um frv. til laga um

helgidagafrið sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur sent biskupi til fróðleiks en hann taldi rétt að kynna kirkjuþingi. Kirkjuþing 1986 samþykkti fyrir sitt leyti frv. um þetta efni sem það taldi fullnægjandi af kirkjunnar hálfu.
    Að gefnu tilefni vill kirkjuþing benda á brýna nauðsyn þess að helgi skírdags sé tryggð eftir kl. 18, enda er algengasti tími helgihalds þess dags að kvöldi. Þá minnir þingið á mikilvægi þess að tryggja helgi aðfarardags páska og hvítasunnu eftir kl. 21.
    Enn fremur tekur kirkjuþing undir ábendingar um nauðsyn þess að sporna gegn samkomuhaldi eftir miðnætti á jóladag og páskadag þar sem af því hefur víða hlotist truflun og óregla á mestu hátíðisdögum kirkjunnar sem spillir þeim sem heimilishátíð.
    Loks er ástæða til þess að íhuga það álit margra að skemmtidagskrá fyrir börn í sjónvarpi á sunnudagsmorgni hafi valdið togstreitu hjá mörgum börnum sem á þeim friðhelga tíma hafa sótt barnastarf kirkjunnar.``
    Það er ljóst að frv. það sem hér er til meðferðar fjallar um viðkvæmt efni. Álitamál kunna að koma upp bæði að því er varðar form og efni. Frv. hefur hlotið ítarlega meðferð kirkjunnar manna og er nú komið til kasta Alþingis. Ég tel að Alþingi beri að styðja kirkjuna og vernda starf hennar. Jafnframt þurfum við að hafa í huga að löggjöf um þetta efni verði með þeim hætti að allur almenningur virði hana. Frv. er ætlað að stuðla að þessu. Ákvæði frv. eru færð til samræmis við reynslu og þróun og viðhorf manna nú.
    Ég tel að frv. þetta, ef samþykkt verður, muni að ýmsu leyti skapa ný og bætt viðhorf að því er framkvæmd helgidagalöggjafar varðar. Ég tek þó fram að ég tel mig ekki hafa mótað afstöðu til fulls til efnisatriða allra. Frv. lá fyrir í ráðuneytinu þegar ég tók þar til starfa nú á haustdögum og ég taldi rétt að það kæmist fyrir sjónir þm. með þeim hætti sem þar var og síðan yrði nánar fjallað um það hér á hv. Alþingi. Og að sjálfsögðu verður Alþingi að taka afstöðu til þess hvort ekki sé rétt að breyta einhverju í þeim efnum, m.a. hvort meira tillit skuli tekið til vilja kirkjunnar eins og fram kom á síðasta kirkjuþingi og ég greindi hér frá áður.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.