Helgidagafriður
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég held að ástæðulaust sé að fjölyrða frekar um þetta mál. En ég vildi aðeins taka það fram að þau almennu sjónarmið lágu til grundvallar við samningu þessa frv. að virða sjónarmið kirkjunnar annars vegar og þann almenna vilja og þá almennu siði sem hafa þróast hér í landinu síðan þessi lög voru sett á sínum tíma, 1926. Hvort þar hefur tekist nægilega vel til má út af fyrir sig lengi deila um því að siðir eru misjafnir í landinu. En hvernig svo sem menn vilja skilgreina orðið ,,einkasamkvæmi`` liggur það fyrir að það er sjálfsagt erfitt í mörgum tilvikum að greina á milli opinberrar samkomu og einkasamkvæmis og ýmislegt það sem ekki er hægt að framkvæma undir orðinu ,,opinber samkoma`` er þá gert í nafni einkasamkvæmis. Þetta á við áfengislöggjöfina og ýmislegt fleira.
    Það er hins vegar alveg ljóst að þetta frv. tekur ekki til athafna sem fara fram á heimilum manna, það verður að vera alveg skýrt, enda væri fráleitt að setja slíkt í löggjöf því að það er algjörlega útilokað að framfylgja því og dettur að sjálfsögðu engum manni í hug að það yrði lagt á löggæslu landsmanna að fylgjast með því hvað færi fram á heimilum manna á hinum helgustu dögum. Ég vænti þess því, hvað svo sem þarna stendur, að þetta sé alveg skýrt og verði ekki dregið í efa.