Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Flm. (Kjartan Jóhannsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 116, 113. mál, um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum.
    Það kom fram í svari við fsp. frá mér til fjmrh. á síðasta þingi að samkvæmt gögnum þess ráðuneytis hefði fjmrh. á árunum 1980--1987 heimilað greiðslu opinberra gjalda með skuldabréfum eða sambærilegum skuldaviðurkenningum 127 sinnum umfram það sem mælt hefur verið fyrir um í sérstökum lögum. Í skattalögum er skýrt kveðið á um gjalddaga opinberra gjalda og dráttarvexti sem gjaldendum ber að greiða sé ekki staðið í skilum á lögbundnum gjalddögum. Það er ekki að finna í lögum ákvæði um heimild stjórnvalda til að breyta gjalddögum opinberra gjalda eða falla frá dráttarvaxtatöku. Samkvæmt þessu er ekki lagastoð fyrir þeim aðgerðum sem hér hafa verið raktar, þ.e. að fjmrh. heimili greiðslu opinberra gjalda með skuldabréfum eða sambærilegum skuldaviðurkenningum. Þetta er reyndar viðurkennt í svari fjmrn., sem ég vitnaði til og var á þskj. 177 á síðasta löggjafarþingi. Hins vegar hafi ráðuneytið talið að því væri heimilt að ganga til samninga við skuldara um greiðslufyrirkomulag skuldar þegar talið væri að staða skuldara og trygging fyrir skattkröfum væri það léleg að telja mætti að skuldin væri að verulegu leyti töpuð. En fyrir þessu er sem sagt engin lagastoð.
    Þetta svar sem ég hef nú rakið þýðir auðvitað að fyrir Alþingi liggur vitneskja um að fjármálaráðherrar hafa tekið sér vald sem þeir hafa ekki að lögum til að leyfa einstökum aðilum að greiða jafnvel háar fjárhæðir opinberra gjalda, sem gjarnan voru í vanskilum, með skuldabréfum til lengri eða skemmri tíma og með mismunandi kjörum að öðru leyti eftir því sem ráðherra ákveður. Með þessu móti hefur verið brotið gegn því sem segja má að sé meginstefna allrar skattalöggjafar að allir þegnar þjóðfélagsins sem eins stendur á um hljóti sömu meðferð og þá eingöngu samkvæmt lögum eins og kveðið er á um í stjórnarskrá lýðveldisins. Með vitneskju um þessa lögleysu getur Alþingi að mínum dómi ekki annað en tekið þetta mál til meðferðar og þá virðist vera eðlilegast að setja í lög skýr ákvæði um innheimtu á opinberum gjöldum og hvernig bregðast megi við þegar um vanskil er að ræða.
    Í þessu frv. sem ég nú flyt er einmitt gert ráð fyrir að tekið verði á þessu máli og þá með því að gera tiltölulega einfalda breytingu á 111. gr. laga nr. 75 frá 1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Það er að sjálfsögðu rétt að vekja athygli á því að þessi breyting mun einnig ná til innheimtu á söluskatti skv. lögum nr. 10 frá 1960 þar sem kveðið er á um í 28. gr. að ákvæði laga nr. 75/1981 skuli einnig gilda um söluskatt eftir því sem við á.
    Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, en kom þar nokkuð seint fram. Tilefni þess voru þær upplýsingar sem lágu fyrir í svari við fsp. minni til fjmrh. eins og ég hef rakið, en það hlaut þá ekki afgreiðslu og er því endurflutt núna.

    Frv. er einungis tvær greinar. Sú fyrri hljóðar svo:
    ,,Við 111. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Það skal vera stefna við innheimtu á tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum þessum að allir gjaldendur, sem eins stendur á um við innheimtu, vanskil og nauðungaraðgerðir, skuli hljóta sams konar meðferð. Telji innheimtumaður tök á að tryggja greiðslu á kröfu, sem ella mundi tapast, með samningi um greiðslu skal hann gefa fjármálaráðherra ítarlega skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja slíkan samning að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar. Að loknu hverju innheimtuári skal Ríkisendurskoðun gefa Alþingi skýrslu um alla samninga af þessu tagi.``
    Með þessari grein eins og hún er hér orðuð eru sem sagt settar ákveðnar leikreglur, sett skilyrði fyrir því að fjmrh. sé heimilt að leyfa einstökum aðilum að greiða opinber gjöld með skuldaviðurkenningum til lengri eða skemmri tíma. Samkvæmt þessu skal einungis heimilt að lána opinber gjöld í þeim tilvikum þar sem innheimtuaðili telur að krafan fáist ekki greidd nema með því að semja um greiðslu á henni. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir því að fjmrh. sé heimilt að samþykkja greiðsluskilmála, enda liggi þá fyrir umsögn Ríkisendurskoðunar. Með þessum hætti er ætlunin að tryggja samræmd vinnubrögð að því er þetta atriði varðar þannig að ekkert fari á milli mála hvernig að er staðið þegar tilvik af þessu tagi koma upp.
    Loks er gerð grein fyrir því í greininni að Ríkisendurskoðun gefi Alþingi árlegar skýrslur um slíka samninga. Með því móti er gert ráð fyrir að Alþingi geti með eðlilegum hætti rækt aðhaldshlutverk sitt og ekki sé nein ástæða til þess fyrir einstaka þingmenn að bera fram fyrirspurnir um þetta efni.
    2. gr. frv. er einungis um það að lög þessi öðlist þegar gildi og þarfnast hún því ekki skýringa.
    Kjarni málsins er sá, herra forseti, að fyrir liggur að leyft hefur verið að greiða opinber gjöld með skuldabréfum eða þess háttar greiðslum. Fyrir því er ekki lagastoð samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. sjálfu. Talið hefur verið að
fjmrh. hefði heimild til þess að gera eins konar nauðungarsamninga fyrir ríkisins hönd þegar illa stæði á og á þeim grundvelli hafa þessir samningar verið gerðir. Hitt er ljóst að það er auðvitað rétt að setja ákvæði um þetta efni í lög og ganga frá því með þeim hætti sem Alþingi telur best viðeigandi. Hér er ekki um flókna lagasetningu að ræða. Það eru einungis tvö ákvæði sem gert er ráð fyrir að setja í lögin, annars vegar það að ráðherra geti veitt heimild ef innheimtumaður óskar eftir því og rökstyður ósk sína að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar og hitt ákvæðið er að eftir á skuli skilað skýrslum árlega til Alþingis um það hvernig þessari heimild hafi verið beitt.
    Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.