Aðför
Miðvikudaginn 23. nóvember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til nýrra aðfararlaga. Þar er um að ræða frv. sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi löggjöf um aðfarargerðir, einkum lög um aðför frá árinu 1887 og lög um lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar frá árinu 1985 auk nokkurs fjölda annarra og enn eldri fyrirmæla um þetta svið réttarfars okkar.
    Segja má að tvær ástæður hafi öðrum fremur búið að baki því að ráðist var í samningu þessa frv. Annars vegar eru núgildandi lög á þessu sviði nær öll orðin eldri en einnar aldar gömul og sárafáar breytingar hafa verið á þeim gerðar frá upphaflegri mynd. Þótt þessi lög hafi staðið vel af sér þær miklu breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi frá setningu þeirra getur naumast hjá því farið að hár aldur laganna hljóti að einhverju leyti að koma niður á framkvæmd þeirra, enda voru þau samin með hliðsjón af gjörólíkum aðstæðum.
    Þeir tveir fornu lagabálkar sem ég nefndi, lögin um lögtak og lögin um fjárnám, voru upphaflega nánast orðréttar þýðingar samsvarandi danskra laga, en til hliðsjónar má hafa að Danir hafa margsinnis endurskoðað reglur sínar á þessu sviði. Síðast með umfangsmiklum breytingum á árinu 1976.
    Má með nokkrum rétti segja að íslensk lög hafi á þessu sviði dregist mjög aftur úr upphaflegum fyrirmyndum sínum og löngu sé orðið tímabært að laga reglurnar um aðfarargerðir að breyttum aðstæðum þótt annað hefði ekki komið til.
    Hin meginástæðan fyrir samningu frv. er að í framhaldi af samningu frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sem kom fyrir á síðasta Alþingi, var ljóst að ráðast þyrfti í margvíslegar breytingar á réttarfarslöggjöf til samræmis og til þess að skipta verkefnum milli héraðsdómstóla og sýslumanna í samræmi við þá stefnumörkun sem fram kemur í grg. umrædds dómstólafrv. Má segja að frv. sé fyrsti áfangi að þeirri umfangsmiklu endurskoðun á gildandi réttarfarslöggjöf sem nú er unnið að á vegum dómsmrn.
    Við samningu frv. var leitað fyrirmynda og annarra aðfanga víða í erlendri löggjöf. Má segja í grófum dráttum að uppbygging frv. eigi sér helst samsvörun í norskri löggjöf, en norsku aðfararlögin eru miðuð við þá skipun dómsvalds og stjórnsýsluvalds í héraði sem mjög líkist þeirri skipan sem stefnt er að hér á landi eftir mitt ár 1990, svo aftur sé vitnað til frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem lagt verður fram á Alþingi mjög fljótlega eftir þá umfjöllun sem það frv. hefur fengið í milliþinganefnd. Norsku lögin eru reyndar að þessu leyti keimlík löggjöf í Svíþjóð, Finnlandi og í allmörgum ríkjum sunnar og vestar í álfunni. Um önnur atriði hefur hins vegar verið horft til danskra lagareglna, enda nærtækt í ljósi þess að núgildandi dönsk löggjöf er nánast endurnýjuð mynd þeirra laga sem enn gilda á þessu sviði hér á landi. Eru þannig allmargar efnisreglur frv. mjög líkar nýjum dönskum lagafyrirmælum. En að þessu mun ég koma nánar síðar.

    Þá eru ýmis atriði frv. frumsmíð frumvarpshöfunda sem hafa mikla reynslu af framkvæmd aðfarar og við úrlausn dómsmála sem risið hafa af því tilefni. Af frumvarpshöfundum vil ég sérstaklega tilgreina Markús Sigurbjörnsson, settan prófessor, sem er aðalhöfundur frv. Ásamt honum hafa ýmsir aðrir lögfræðingar unnið að gerð þess eða farið yfir frumvarpstextann. Má þar nefna Skúla Guðmundsson, deildarstjóra í dómsmrn., Stefán Má Stefánsson prófessor, Guðmund Vigni Jósefsson gjaldheimtustjóra, Pál Þorsteinsson borgarfógeta, Þorstein Thorarensen, fyrrv. borgarfógeta, og Sigurmar Albertsson hæstaréttarlögmann. Þá hafa bæði réttarfarsnefnd og laganefnd Lögmannafélags Íslands fylgst með samningu frv. og yfirfarið frumvarpstextann. Dómsmrn. hefur síðan fylgst með verkinu í heild.
    Efni frv. er rakið og skýrt í mjög ítarlegum athugasemdum sem því fylgja og sem einar út af fyrir sig gætu verið kennslurit í lögfræði. Ég mun því takmarka framsöguræðu mína við helstu breytingarnar sem í frv. felast.
    Frv. var eins og áður segir samið með hliðsjón af þeim tillögum sem til umræðu eru um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, en frv. þar að lútandi var flutt á síðasta þingi eins og áður er getið og það verður endurflutt hér með þeim breytingum sem hin sérstaka milliþinganefnd lagði til, en milliþinganefndin fjallaði um það í sumar og hefur skilað af sér.
    Eins og lýst er nánar í athugasemdum með því frv. er gengið út frá því að ýmis verkefni sem héraðsdómstólar hafa fengist við til þessa verði framvegis á verksviði framkvæmdarvaldsins í höndum endurskipulagðra embætta sýslumanna. Þetta yrðu eigi lengur dómsathafnir heldur stjórnsýsluaðgerðir. Fjölmargt þótti mæla með þeirri breytingu og yrði of langt mál að tíunda það hér í einstökum atriðum. Þó má nefna hagræðingarsjónarmið þar sem aðskilnaðarfrv. gerir ráð fyrir að héraðsdómstólar verði aðeins átta að tölu og flestir með víðlend umdæmi, en sýslumannsembætti verði áfram 27 talsins og þannig betur sett til þess að annast verkefni af þessum meiði. Tvímælalaust verður meiri staðarþekking hjá sýslumönnum en héraðsdómstólum auk þess sem við embætti sýslumanna verður beinn aðgangur að upplýsingum úr þinglýsingabókum og öðrum
opinberum eignaskrám og bein tengsl væru almennt við lögreglu sem getur haft þýðingarmiklu hlutverki að gegna við framkvæmd fullnustugerða.
    Þá er þess að geta að í öllum nágrannalöndum okkar nema hér og í Danmörku eru fullnustugerðir taldar stjórnvaldsgerðir. Hin danska undantekning sem varð fyrirmynd okkar í núgildandi lögum á sér skýringu í aðstæðum sem uppi voru í Danmörku við lok einveldistímabilsins og skýrð var í frumvarpi til danskra réttarfarslaga frá 1877. Í framkvæmd hafa þó Danir að verulegu leyti falið svokölluðum ,,pante``fógetum og ,,kontor``fógetum aðfararaðgerðirnar, en þar er um ólöglærða starfsmenn dómsmála að ræða sem framkvæma aðfarargerðir en fara ekki með

úrskurðarvald.
    Við samningu þessa frv. voru þeir sem um málið fjölluðu sammála um að rétt væri að hverfa frá núgildandi skipan á aðfarargerðum og skilgreina þær framvegis sem stjórnsýsluathöfn er yrði í höndum umboðsmanna framkvæmdarvaldsins í héraði, þ.e. sýslumannanna.
    Frv. er nokkuð óvanalegt í uppbyggingu í samanburði við yngri löggjöf hér á landi að því leyti að því er skipt í einstaka þætti, sex að tölu, en þáttunum er aftur skipt í afmarkaða kafla í áframhaldandi númeraröð, alls 17 talsins. Þetta á sér fyrirmynd í skiptalögunum, en þessi skipan er einnig mjög algeng í dönskum lagabálkum. Þetta er ekki gert af sérvisku heldur er hér einfaldlega verið að undirstrika innbyrðis samhengi í frv. og auðvelda leit að ákvæðum sem þörf er á hverju sinni.
    Um röðun einstakra reglna frv. má að öðru leyti vekja athygli á því að reynt er að setja reglurnar fram í tímaröð, þ.e. á þann veg að þær séu nánast í sömu röð og atburðarás yrði almennt við undirbúning og framkvæmd aðfarargerðar.
    Svo ég snúi mér að efni einstakra greina frv. vil ég fyrst nefna 1. gr. þess þar sem taldar eru upp aðfararheimildir. Þótt þær séu flestar óbreyttar frá því sem nú gildir er í 1. gr. að finna tvö veigamikil nýmæli. Hið fyrra er í 7. og 8. tölul. 1. mgr. Þar er mælt fyrir um að aðför megi gera án undanfarins dóms eða réttarsáttar til fullnustu kröfum samkvæmt skuldabréfum, víxlum og tékkum. Þessi breyting hefur verið til umræðu hér á landi um árabil, en hún á sér fyrirmynd í nýjum búningi danskra reglna um aðfararheimildir. Af þessari breytingu mun leiða verulegan sparnað í meðferð mála jafnframt því sem réttaröryggi verður að teljast fullnægjandi.
    Síðara atriðið sem kemur fram í 1. gr. frv. felst í því að lögtaksheimildir samkvæmt fyrirmælum ýmissa sérlaga eru taldar upp sem aðfararheimild og er þar verið að leggja af greinarmun á fjárnámi og lögtaki að öðru leyti en því að mismunandi heimildir búi að baki því að fullnægja megi viðkomandi kröfum með aðför. Framvegis verður í einu lagi fjallað um bæði þessi afbrigði aðfarar til að fullnægja peningakröfum með samheitinu fjárnám og enginn greinarmunur gerður á reglum um framkvæmd eða réttaráhrif. Þessi breyting á sér danska fyrirmynd eins og fleiri breytingar í frv., en dönskum lögum var breytt í samsvarandi horf á árinu 1976.
    Að öðru leyti en nú hefur verið nefnt eru óverulegar breytingar ráðgerðar á aðfararheimildum í 1. gr. frv., en vekja má athygli á reglu 2. mgr. hennar þar sem reynt er að taka af skarið um það til hvaða kröfuliða aðfararheimild nái.
    Reglur 2. og 3. gr. kveða á um hver geti krafist aðfarargerðar og að hverjum megi beina gerðinni. Hér eru á ferð nokkrar breytingar frá núgildandi reglum sem nánar eru skýrðar í athugasemdum frv.
    Í 4. gr. þess kemur fram ákvæði sem vert er að staldra aðeins við. Þar er mælt fyrir um að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra fari með aðfarargerðir, en

þessir embættismenn annist framkvæmd aðfarargerðar sem stjórnvaldsathafnir. Eins og nánar verður komið að síðar eiga héraðsdómstólar að sinna ákveðnum viðfangsefnum í tengslum við aðfarargerðir, en í meginatriðum er þar um að ræða að dómstólar verða við vissar aðstæður að fjalla um ódæmdar kröfur áður en aðfarar verður krafist fyrir þeim, auk þess að þeir verði einir bærir um að leysa endanlega úr ágreiningi sem rís við framkvæmd sýslumanns á aðförinni sjálfri. Nær allt annað sem snýr að aðfarargerð í þeirri mynd sem við þekkjum nú verður í höndum sýslumanna.
    Regla 4. gr. minnir einnig á þá hugtaksnotkun frv. að sá sem aðfarargerð framkvæmir er nefndur sýslumaður en ekki fógeti. Fógetahugtakið er þannig hvergi notað í frv. og heldur ekki samsett hugtök úr því, svo sem fógetagerð og fleiri sem nú tíðkast ef frá eru taldar sérreglur um tengsl eldri laga og yngri undir lok frv.
    Í II. kafla frv. koma fram reglur um aðfararfrest meðal þeirra atriða sem vert er að nefna sérstaklega. Í fyrsta lagi eru lagðar til nýjar reglur í 5. gr. um aðfararhæfi dóma og úrskurða. Í þeim efnum má annars vegar benda á að gert er ráð fyrir að birting dóms eða úrskurðar verði ekki skilyrði fyrir aðför heldur megi krefjast aðfarar án frekari ráðstafana að liðnum 15 dögum frá uppkvaðningu dómsúrlausnar. Hins vegar koma fram ráðagerðir um nokkuð breyttar reglur varðandi áhrif áfrýjunar eða kæru aðfararheimildir sem eftir
eðli máls snýr fyrst og fremst að dómum og úrskurðum. Málskot innan almennra málskotsfresta hefur að vísu eins og eftir núgildandi lögum frestandi áhrif á rétt til aðfarar, en þau nýmæli koma hins vegar fram í II. kafla frv. að ef almennur málskotsfrestur er liðinn frestast aðför að meginreglu ekki þótt áfrýjað sé að veittu áfrýjunarleyfi.
    Í öðru lagi koma fram sérstök skilyrði í 7. og 8. gr. fyrir aðför til fullnustu kröfum sem eigi hafa á fyrri stigum komið til kasta dómstóla. Í 7. gr. er þannig kveðið á um að ef leita á aðfarar fyrir kröfu samkvæmt úrskurði eða ákvörðun yfirvalds, skuldabréfi, víxli, tékka eða á grundvelli annarrar lögtaksheimilda en fyrri skattkröfu verður gerðarbeiðandi að beina sérstakri greiðsluáskorun að gerðarþola áður en lengra verður haldið. Ef um skattkröfur er hins vegar að ræða kemur fram sérregla í 8. gr. um almenna greiðsluáskorun þótt um ódæmdar kröfur sé að ræða. Þessi síðast nefnda aðgerð kemur í stað núgildandi reglna um almenna lögtaksúrskurði sem þjóna tæpast neinum raunhæfum tilgangi í dag.
    Þá má loks nefna í þriðja lagi að í 9. gr. er kveðið á um að aðför megi gera til fullnustu kröfu svo lengi sem hún er ófyrnd, án þess að þörf verði birtingar sérstakra greiðsluáskorana eins og þarf samkvæmt 9. gr. núgildandi aðfararlaga.
    Ég flyt mig svo í III. kafla frv. Vil ég einkum vekja athygli á þýðingarmiklum reglum í 11. og 16. gr. sem í sameiningu snúa að því hvert beina eigi aðfararbeiðni. Í 11. gr. er kveðið á um að byrja þurfi á að leggja beiðnina fyrir héraðsdómara í tilvikum

sem nánar eru talin í sex töluliðum. Megineinkenni þeirra tilvika sem þurfa að sæta þessari meðferð er að hér er almennt um þær aðfararhæfu kröfur að ræða sem ekki hafa áður komið til kasta dómstóla. Þetta er þó ekki einhlítt því að ekki er gert ráð fyrir að ódæmdar skattakröfur hins opinbera þurfi að fara þessa boðleið. Þegar fyrirmæli 11. gr. eiga við um kröfu er gert ráð fyrir að aðfararbeiðni og fylgigögn hennar verði lögð fyrir héraðsdómara sem taki með einföldum hætti afstöðu til hennar án þess að gerðarþoli verði almennt kvaddur til af því tilefni. Héraðsdómara er því ætlað að framkvæma forprófun á kröfu ef svo má kalla og ef skilyrðum aðfarar er fullnægt að árita aðfararbeiðnina þar að lútandi.
    Í 16. gr. er gert ráð fyrir að slík árituð aðfararbeiðni gangi því næst til sýslumanns sem annast framkvæmd gerðarinnar sjálfrar.
    Þá ber að vekja athygli á því þýðingarmikla atriði að ef krafa fellur ekki undir reglu 11. gr. fer aðfararbeiðni beint til sýslumanns án undangenginnar meðferðar fyrir dómi, en þessi tilhögun á við um algengustu aðfararheimildirnar eftir núgildandi reglum, þ.e. dóma, úrskurði, áritaðar áskorunarstefnur, réttarsáttir og skattakröfur sem njóta lögtaksréttar samkvæmt fyrirmælum annarra laga.
    Um reglur III. kafla að öðru leyti má benda á að í 16. gr. er gert ráð fyrir að krefjast megi aðfarar á fleiri stöðum en nú leiðir af varnarþingsreglum aðfararlaga.
    Í IV. kafla frv. koma fram almennar reglur um upphafsaðgerðir þegar aðfararbeiðni hefur borist sýslumanni. Sú regla kaflans sem helst er ástæða til að nefna hér kemur fram í 21. gr. Samkvæmt henni verður meginreglan sú að tilkynna eigi gerðarþola fyrir fram um væntanlega aðfarargerð, en frá því má þó víkja vegna tiltekinna atvika. Þessi regla á sér fyrirmynd í nýlegum breytingum á dönskum lögum sem þóttu m.a. nauðsynlegar vegna rýmkunar á heimildum fyrir aðför til fullnustu ódæmdum kröfum. Fyrir því eru rök sem eigi er tóm til að rekja að svo stöddu.
    Í 22.--24. gr. koma fram reglur um hvar byrja megi aðfarargerð sem eru hliðstæðar núgildandi reglum, en einnig koma fram heimildir til að ljúka gerðinni án þess að gerðarþoli hafi mætt til hennar. Hér er ekki ráðrúm til að skýra einstök atriði þeirra reglna, en í heild má segja að hér sé byggt á því meginsjónarmiði að ef gerðarþoli hefur á annað borð fengið tilkynningu um væntanlega aðfarargerð megi ljúka henni án viðveru hans eða einhvers fyrir hans hönd ef tök eru á annarra hluta vegna. Ef þessi möguleiki er ekki fyrir hendi eru nokkuð strangar skorður settar við því að gerð verði lokið án þess að náð verði til gerðarþolans sjálfs eða einhvers sem honum er nákominn.
    Í 26. og 27. gr. koma fram mikilvægar reglur sem taka til þess hvernig sýslumaður eigi að bregðast við ef ágreiningur rís um framkvæmd gerðarinnar, hvort sem um frestsveitingu er að ræða eða deilt er um hvort gerðin megi yfirleitt ná fram að ganga. Hér er gert ráð fyrir að sýslumaður taki þegar í stað

ákvörðun um það hvort og þá hvernig gerðin haldi áfram ef gerðarbeiðandi krefst þess á annað borð. Þær líkindareglur eru settar í þessum ákvæðum að mótmæli gerðarþola eigi að jafnaði ekki að hafa áhrif á framgang gerðarinnar, en frá því megi þó víkja ef sýslumaður telur þau valda því að málefnalegar ástæður séu til að draga réttmæti krafna gerðarbeiðanda í efa. Getur sýslumaður þá ákveðið að stöðva frekari aðgerðir.
    Þannig er gert ráð fyrir því að sýslumaður haldi gerðinni almennt áfram eins og ekkert hafi í skorist og hún verði ekki stöðvuð til
dómsmeðferðarágreinings, enda á gerðarþoli þess kost að fá dómsúrlausn um réttmæti gerðarinnar eftir á samkvæmt fyrirmælum XV. kafla. Ef sýslumaður tekur hins vegar ákvörðun gerðarbeiðanda í óhag getur gerðarbeiðandi þegar í stað borið ákvörðunina undir héraðsdóm eftir reglum XIV. kafla, auk þess að gerðarbeiðandi getur ávallt óskað eftir frestun gerðarinnar og heimilað gerðarþola þar með að fá leyst úr ágreiningi þeirra fyrir dómi eftir sömu reglum áður en gerðinni verður fram haldið.
    Í framhaldi af þessu má benda á að í 29.--31. gr. koma fram reglur um þvingunarúrræði og valdbeitingu sýslumanns við framkvæmd aðfarargerðar. Þessar reglur eru nokkuð frábrugðnar núgildandi reglum í 36. og 37. gr. aðfararlaganna um hliðstætt efni, en sérstaklega má vekja athygli á að heimildir til frelsisskerðingar gerðarþola eru verulega breyttar samkvæmt 29. gr. frv.
    Í 32. og 34. gr. þess eru reglur um framlagningu gagna við aðför og bókanir, auk þess að gert er ráð fyrir að almennt verði ekki þörf votta við aðför, en ef aðstæður krefjast nægi að vottur sé einn.
    Í 35. gr. er að finna reglu sem heimilar sýslumanni að fara út fyrir umdæmi sitt til að ljúka aðfarargerð ef nauðsyn krefur. Í samhengi við þessa heimild er þó vert að benda á að ekki er gert ráð fyrir að almennt þurfi að flytja gerð milli umdæma þó bent sé á eign til fjárnáms í öðru umdæmi. Í 2. mgr. 51. gr. er mælt fyrir um að það megi ljúka fjárnámi almennt án tillits til þess hvar eign sú, sem gert er fjárnám í, sé niður komin.
    Í VI. kafla frv. koma fram reglur um andlag fjárnáms sem að meira eða minna leyti eru mótaðar eftir fyrirmynd í nýlega breyttum dönskum lagareglum um fjárnám. Af helstu breytingunum sem hér er gert ráð fyrir má benda á að eftir 38. gr. er ekki ætlast til að virðing eigna fari fram við fjárnám nema sérstakar aðstæður krefji. Þetta er veruleg breyting frá núgildandi lagafyrirmælum á pappírnum þótt hana megi vart merkja í raun þar eð í forprentuðum embættisbókum sem notaðar eru við aðfarargerðir hefur lengi tíðkast að prenta setninguna ,,Aðilar féllu frá virðingu``.
    Þá má nefna reglur 41.--50. gr. sem rýmka undanþágur eigna frá fjárnámi og frátökuheimild gerðarþola. Um frátökuheimildina er vert að vekja sérstaka athygli á 43. gr. sem er ekki aðeins rýmri til hagsbóta fyrir gerðarþola en núgildandi lagafyrirmæli

heldur er að auki að mestu tekin úr tengslum við tölulegar viðmiðanir.
    Í VII. kafla frv. er að finna reglur um réttaráhrif fjárnáms og um fleiri skyld atriði sem rétt er að gera nánari grein fyrir. Í fyrsta lagi koma fram nýmæli í 54. gr. þar sem mælt er fyrir um að eigi megi knýja fram nauðungarsölu eignar á grundvelli fjárnáms fyrr en fjórar vikur eru liðnar frá því að það er gert. Þessi regla á sér danska fyrirmynd og byggist á þeirri augljósu hugsun að rétt sé að veita gerðarþola ráðrúm til að leysa sín mál eftir fjárnám án þess að hann eigi nauðungarsölu eigna yfir höfði sér þegar í stað.
    Þá er rétt að vekja sérstaka athygli á því að í 54. gr. er kveðið á um að ef ágreiningur um réttmæti fjárnámsgerðar er borinn undir héraðsdóm samkvæmt reglum XV. kafla hefur það þá afleiðingu að meginreglu að nauðungarsala getur ekki náð fram að ganga eftir kröfu fjárnámshafa fyrr en málið hefur verið til lykta leitt fyrir héraðsdómi.
    Í öðru lagi er ástæða til að vekja máls á því að í 56. gr. kemur fram sú almenna regla að gerðarþoli haldi vörslum eða umráðum hins fjárnumda þar til komið er að ráðstöfun þess með nauðungarsölu. Heimild er þó til vörslusviptingar ef sérstök hætta þykir á að gerðarþoli misfari með viðkomandi eign. Hér er ekki að finna frekari sérreglur um framkvæmd vörslusviptinga, enda er hér byggt á því að þær tengist ekki í framtíðinni fjárnámsgerðinni sem slíkri heldur fari þær fram í tengslum við nauðungarsölu og þá fyrir atbeina þess sem hana annast.
    Af reglum VII. kafla má loks í þriðja lagi benda á ákvæði 60. gr. þar sem mælt er fyrir um að fjárnám í lausafé eða kröfum falli almennt sjálfkrafa niður að liðnu ári frá því að fjárnám er gert ef gerðarbeiðandi hefur ekki krafist nauðungarsölu hins fjárnumda innan þess tíma. Þessi regla, sem á sér danska fyrirmynd, á að koma í stað svokallaðrar tólf vikna reglu í 2. mgr. 50. gr. núgildandi aðfararlaga.
    Í VIII. kafla frv. koma fram sérreglur um skilyrði fyrir því að fjárnámi verði lokið án árangurs. Meginbreytingin sem hér er ráðgerð felst í því að fjárnámi megi almennt ekki ljúka án árangurs nema gerðarþoli eða málsvari hans hafi mætt við gerðina og hafi annaðhvort ekki getað bent á neina eign eða einungis bent á eign sem hrekkur ekki fyrir kröfu gerðarbeiðanda.
    Í IX. kafla er síðan að finna reglur sem taka afstöðu til heimilda til endurupptöku fjárnámsgerðar. Reglurnar eru að flestu leyti samsvarandi þeim reglum sem nú er fylgt, en þó má benda sérstaklega á að í 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. er gert ráð fyrir að gerðarþoli geti krafist endurupptöku ef fjárnám hefur verið gert að honum fjarstöddum í eign sem ekki mátti taka fjárnámi eða
hefði fallið innan frátökuréttar hans.
    Í X. kafla eru sérstakar reglur um fjárnám til fullnustu kröfum um dagsektir sem ekki eiga sér hliðstæðu í núgildandi lögum.
    Í XI. kafla frv. er komið að reglum um aðför til fullnustu krafna um annað en peningagreiðslur. Svara

þær í flestu til núgildandi reglna. Þó má nefna að regla 77. gr., sem snýr að þeim aðstæðum að kröfu verður ekki fullnægt samkvæmt efni sínu með valdbeitingu, er að nokkru leyti frábrugðin núverandi fyrirmælum í aðfararlögum.
    XII. kafli frv. fjallar sérstaklega um útburðar- og innsetningargerðir án undangengins dóms eða réttarsáttar eða m.ö.o. um beinar fógetagerðir. Ákvæði kaflans fela ekki í sér neina breytingu frá núverandi framkvæmd á grundvelli dómvenju.
    Í V. þætti frv. er fjallað sérstaklega um meðferð mála um aðfarargerðir fyrir héraðsdómstólum og er þættinum skipt í þrjá kafla sem hver um sig tekur til ákveðinna afbrigða dómsmála. Í XIII. kafla er fjallað um meðferð mála þar sem ágreiningur hefur risið um aðfararbeiðnir við upphafsgerðir fyrir héraðsdómi samkvæmt 11. gr., en þar eru þau tilvik talin þar sem leggja þarf aðfararbeiðni fyrir héraðsdómara áður en henni er beint til sýslumanns.
    Í XIV. kafla er fjallað sérstaklega um meðferð mála sem koma til vegna ágreinings sem rís við framkvæmd aðfarargerðar og þar sem heimilt er að leggja afmarkaðan ágreining fyrir héraðsdómara.
    Í XV. kafla er fjallað um meðferð þeirra mála sem ætlunin er að hafi helst þýðingu í framkvæmd. Í frv. er gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að ágreiningur í sambandi við aðfarargerð komi almennt ekki til kasta héraðsdóms fyrr en sýslumaður hefur lokið gerðinni. Eftir þau tímamörk og á næstu átta vikum geta gerðarbeiðandi, gerðarþoli eða þriðji maður, sem hefur hagsmuna að gæta, krafist úrlausnar héraðsdóms um öll atriði aðfarargerðarinnar með tiltölulega einföldum hætti og fengið hana fellda úr gildi eða breytt eftir atvikum. Reglur XV. kafla taka þannig sérstaklega til mála sem koma til með þessum hætti og er lögð áhersla á einfalda og fljótvirka málsmeðferð.
    Í XVI. kafla frv. koma fram nýmæli um skaðabótaábyrgð vegna aðfarargerðar, en til þessa hefur sú óverulega framkvæmd, sem orðið hefur hér á landi í þessum efnum, stuðst við ólögfestar skaðabótareglur. Ákvæði þessa kafla eru að mestu sniðin eftir danskri fyrirmynd og eru áþekk reglum sem taldar hafa verið gildandi hér á landi um slík tilvik er hér um ræðir.
    Þá er loks í XVII. kafla frv. að finna fyrirmæli um gildistöku, brottfellingu eldri laga og skil milli reglna frv. og núgildandi laga. Reglur 100.--108. gr., sem varða skil eldri laga og yngri, eru mun ítarlegri en samsvarandi reglur hafa almennt verið við setningu réttarfarslöggjafar hér á landi.
    Í frv. er lagt til að það taki gildi sem lög, ef samþykkt verða, hinn 1. júlí 1990, en það er sama gildistökuákvæði og lagt var til í frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds. Ekki veitir af nokkrum tíma fyrir dómstóla, stjórnsýslu og lögmannastétt landsins svo að þessir aðilar geti tileinkað sér þær réttarfarsbreytingar sem aðfararlagafrv. er hluti af.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið því að skýra í stuttu máli efni þessa frv. Hér er um að ræða frv. sem er mjög vandlega undirbúið og sem leysir af

hólmi gamla og í mörgum atriðum úrelta löggjöf. Ég legg á það áherslu að þetta frv. geti orðið að lögum á þessu þingi og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.