Meðferðarheimili fyrir ósakhæfa afbrotamenn
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Á þskj. 66 er fsp. frá Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni, varaþm. Borgaraflokksins í Reykjavík. Þar sem hann átti þess ekki kost að fylgja þessari fsp. eftir hefur það komið í minn hlut að mæla fyrir henni og gera grein fyrir efni hennar.
    Fsp. þessari er beint til dómsmrh. og er um meðferðarheimili fyrir ósakhæfa afbrotamenn, en orðrétt er fsp. á þessa leið:
    ,,Hvenær verður tekið í notkun meðferðarheimili fyrir ósakhæfa afbrotamenn sem hafa hlotið úrskurð dómara um að fá vistun á viðeigandi stofnun?``
    Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að spyrja um meðferðarheimili fyrir ósakhæfa afbrotamenn, svo oft hefur þetta mál verið til umræðu hér á Alþingi, í fjölmiðlum og manna á meðal. Það sem einkennt hefur þessa umræðu er að stjórnvöld hafa í orði sýnt máli þessu mikinn skilning, en samt ekkert aðhafst til lausnar. Eins og málum er nú háttað og hefur raunar verið í allmarga áratugi eru ósakhæfir menn vistaðir á Litla-Hrauni meðal þeirra fanga sem dæmdir hafa verið og eru að afplána sína tímabundnu dóma.
    Það kviknaði von hjá mörgum, þegar Hæstiréttur tók af skarið og dæmdi sakhæfan mann í meðferð, um að stjórnvöld mundu vakna og setja á stofn heimili fyrir menn sem fengju slíka dóma og svo þá sem dæmdir hafa verið ósakhæfir. Sá neisti slokknaði fljótt þegar sá aðili var sendur utan í meðferð.
    Í ríkiskerfinu hefur mjög verið um það deilt hvort þeir menn sem dæmdir hafa verið ósakhæfir skuli sæta meðferð á sjúkrastofnunum og þá einnig hvort sú stofnun eigi að heyra undir heilbrrn. eða hvort þarna sé um að ræða afbrotamenn sem dómsmrn. eigi alfarið að sjá um að koma í gæslu. Af þessu stigi hefur umræðan innan ríkiskerfisins því miður tæpast komist og við það situr enn. Að sjálfsögðu vona ég að hæstv. ráðherra gleðji mig og þingheim með því að verið sé með raunhæfum hætti að taka á þessum málum sem eru til skammar íslenskum stjórnvöldum og íslenskri þjóð.