Meðferðarheimili fyrir ósakhæfa afbrotamenn
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint fsp. um það hvenær verði tekið í notkun meðferðarheimili fyrir ósakhæfa afbrotamenn sem hafa hlotið úrskurð dómara, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, um vistun á viðeigandi hæli.
    Þegar mönnum hefur verið refsað fyrir afbrot sökum geðveiki, andlegs misþroska og fleira er samkvæmt almennum hegningarlögum heimilt að ákveða með dómi, ef það þykir nauðsynlegt vegna réttaröryggis, að viðkomandi manni verði komið fyrir á viðeigandi hæli. Það verður að gera ráð fyrir að átt sé við stofnun þar sem viðkomandi aðili fær viðeigandi meðferð við sínum sjúkdómi eða sérhæfða umönnun ef aðrar ástæður en sjúkdómur leiða til að slíkur dómur er kveðinn upp.
    Hér á landi hefur sérstakri stofnun fyrir þessa menn ekki verið komið á fót og er aðalástæðan sú að slík stofnun yrði mjög dýr og umræddir einstaklingar eru á hverjum tíma mjög fáir. Fram að þessu hafa þessir einstaklingar, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, verið vistaðir í fangelsum þótt allir viti að þar er ekki hægt að veita þeim nauðsynlega þjónustu. Auk þess hafa nokkrir verið vistaðir um skamman tíma í stofnunum í nágrannalöndum okkar.
    Á síðasta þingi voru samþykkt lög um fangelsi og fangavist sem taka gildi 1. jan. nk. Í upphaflegu frv. að þeim lögum var ákvæði um að heimilt væri að vista öryggisgæslufanga í fangelsum. Þetta ákvæði var fellt út í meðförum Alþingis. Af því leiðir að frá og með næstu áramótum verður óheimilt að vista öryggisgæslufanga í fangelsum landsins. Þótt ekki sé nema rúmur mánuður til áramóta liggur ekki fyrir endanleg ákvörðun um það hvernig þetta vandamál verður leyst. Nú fyrir skömmu áttum við saman fund, heilbrrh. og ég, ásamt embættismönnum sem fjalla um þessi mál, og það er sameiginlegur ásetningur okkar að finna viðeigandi frambúðarlausn á þessu máli á næstu vikum og ég hef fulla ástæðu til að ætla að það muni takast. Það er ljóst að þetta mál verður ekki leyst á hagkvæman hátt nema í nánu samstarfi dóms- og heilbrigðisyfirvalda. Það að dómsmálayfirvöld komi á fót sérstakri stofnun er bæði dýr og óhagkvæm lausn sem m.a. kemur fram í því ástandi sem nú er, sem rétt er að upplýsa, að það eru aðeins þrír einstaklingar vistaðir í fangelsum sem dæmdir hafa verið til vistar á viðeigandi hæli.