Sláturhúsið á Óspakseyri við Bitrufjörð
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta. Ég fagna þeim anda sem er á bak við svar landbrh. og ég treysti honum sem landsbyggðarmanni til að taka öðruvísi á þessum málum en tekið hefur verið. En hitt finnst mér, að skyldur embættismanna séu þær að svara t.d. kaupfélagsstjóranum og láta hana vita hvað þarf að gera til að þarna sé hægt að vinna áfram. Það er til gamalt máltæki sem segir: Kurteisi kostar ekkert en kaupir allt. Og það er óþarfa ókurteisi að svara ekki fólki og láta það vita hvað þarf að gera.