Sala ríkisfyrirtækja
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna upphafsorða hv. þm. Geirs H. Haarde vil ég taka það fram að hann ætti að lesa sér betur til um sögu og viðhorf þess ágæta flokks sem ég er fulltrúi fyrir í ríkisstjórninni. Á meðan hv. alþm. Ragnar Arnalds var fjmrh. lét hann kanna rækilega möguleika á breytingum á þátttöku ríkisins í ýmiss konar starfsemi með það að markmiði að draga úr henni og Alþb. hefur hvað eftir annað ítrekað nauðsyn þess að eðlilegt sé að endurskoða með hvaða hætti ríkið tekur þátt í atvinnulífi og margvíslegri annarri starfsemi í okkar landi.
    Það er rétt, eins og hv. fyrirspyrjandi vék að, að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því lýst yfir að það verði unnið að því að bjóða almenningi til kaups ríkisfyrirtæki og vek ég sérstaka athygli á því orðalagi. Það mál verður tekið til mjög rækilegrar athugunar í fjmrn. og öðrum ráðuneytum á næstu mánuðum. Það hefur ekki verið ákveðið nú hvaða fyrirtæki þetta verða nákvæmlega eða í hvaða röð það verður gert. Það sem ég tel mikilvægara og hef sett fram sem mína skoðun er að áður en kemur að því að selja slík fyrirtæki og hrinda slíkum áformum í framkvæmd sé nauðsynlegt að móta mjög skýrar reglur um með hvaða hætti þetta sé gert.
    Ég vek athygli hv. Alþingis á því að sú reynsla sem hefur verið að koma í ljós varðandi sölu á Ferðaskrifstofu ríkisins gefur tilefni til þess að vanda mun betur vinnubrögð í þessum efnum en gert var í tíð síðustu hæstv. ríkisstjórnar. Það sem komið hefur í ljós varðandi sölu á Ferðaskrifstofu ríkisins bendir eindregið til þess að lengri aðdragandi, skýrari reglur og opnari umfjöllun um málið þurfi að einkenna slíkar aðgerðir til að koma í veg fyrir að einstök fyrirtæki, sem eru fyrst og fremst að hugsa um útþenslustefnu sína og hugsanlega drottnunarstefnu sína á ákveðnum markaði, notfæri sér slíkar aðgerðir, sem áttu að vera í þágu starfsfólks og almennings, til þess að styrkja rekstrarstöðu og drottnunarstöðu viðkomandi stórfyrirtækis.