Sala ríkisfyrirtækja
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það kann að verða þörf á því að endurskoða þingsköp til að heimila einstökum þingmönnum Sjálfstfl. að bera fram sérstakar fsp. til formanns Alþb. í nafni þess embættis vegna þess að fyrir nokkrum dögum kaus hv. alþm. Friðrik Sophusson að fara hér upp utan dagskrár með sérstakar spurningar til mín sem formanns Alþb. en ekki sem fjmrh. Nú kemur í ljós að a.m.k. verulegur hluti af áhuga hv. þm. Geirs H. Haarde beinist að embætti formanns Alþb. en ekki að embætti fjmrh. Skal ég taka það skýrt fram að ég hef ekkert á móti því að þingsköpum verði breytt í þá átt að opnað sé fyrir þann möguleika að formaður Alþb. sé sérstaklega spurður í fyrirspurnatíma. ( GHH: Hann verður þá að sitja á þingi.) Já, hann gerir það um þessar mundir þannig að þetta getur þá verið bráðabirgðaákvæði.
    Hins vegar vil ég vekja athygli hv. þingmanns á því að það er allnokkur munur á kröfunni um einkavæðingu og kröfunni um atvinnulýðræði. Krafan um einkavæðingu felur í sér að stórfyrirtæki hvers konar geta keypt sig inn í þann hlut sem ríkið hefur haft. Það er t.d. hugsanlega sú aðferð sem Eimskipafélagið ætlaði að beita gagnvart Ferðaskrifstofu ríkisins með því að gera baksamning við starfsfólkið. Ég tel óeðlilegt að það að minnka hlutdeild ríkisins verði til þess að auka hlutdeild stórfyrirtækja sem hafa drottnunaraðstöðu á markaðnum fyrir. Hitt er svo atvinnulýðræði sem miðast við það að fólkið sjálft sem starfar í fyrirtækjunum eða almenningur í landinu hafi víðtækari áhrif á rekstur þeirra. Á þessu er nauðsynlegt að gera skýran mun.
    Þótt Alþb. hafi barist gegn sölunni á Siglósíld og Landssmiðjunni á sínum tíma tengdist það þeim fyrirtækjum sérstaklega og fyrir því voru færð mjög skýr rök og þegar ég háði baráttu hér í Flugleiðamálinu fyrir mörgum árum var hún fyrst háð hér í þessum sal til að vara Alþingi við því að fullyrðingar forsvarsmanna fyrirtækisins um rekstrarstöðu fyrirtækisins og framtíðarþróun væru rangar og að það kynni að koma að því innan tíðar að beðið yrði um stórfelldar ríkisábyrgðir og ríkisbjörgunaraðgerðir gagnvart fyrirtækinu. Þær spásagnir mínar reyndust réttar, en yfirlýsingar forsvarsmanna fyrirtækisins rangar.