Sala ríkisfyrirtækja
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá að taka til máls í þriðja sinn. Ég vek athygli á því að fjmrh. reynir að drepa þessu máli á dreif með því að snúa því upp í umræðu um annars vegar atvinnulýðræði og hins vegar einkavæðingu. Það er misskilningur. Það stendur ekkert um það í stefnu ríkisstjórnarinnar að þarna sé eitthvað verið að tala sérstaklega um atvinnulýðræði. Það er bara verið að tala um að selja ríkisfyrirtækin almenningi. Það heitir á mæltu máli einkavæðing. Það stendur ekkert um hverjir kaupendurnir eigi að verða aðrir en almenningur þannig að ráðherrann getur ekki snúið sig út úr þessu með því.
    Að auki vildi ég vekja athygli á sérstaklega óviðurkvæmilegum ummælum ráðherrans um forustumenn Flugleiða, þáverandi og núverandi, sem eru honum í núverandi embætti ekki til sæmdar þó þau geti farið honum vel sem formanni Alþb.