Gjalddagi söluskatts
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Mér finnst nú sanngjarnt að hv. þm. Halldór Blöndal fái líka að endurtaka það sem hann sagði hér, a.m.k. seinni hluta sinnar ræðu. Ég skal endurtaka það sem ég sagði og sleppa þá athugasemdum um ljóskerfi og rafmagnskerfi hússins. En ég bið hv. þm. Halldór Blöndal að virða það að ég hef nú þegar sett í gang vinnu í ráðuneytinu í þessu máli og ætla mér þess vegna að reyna eftir bestu getu að framkvæma þann vilja sem kom fram í samþykkt Alþingis á sínum tíma. Hins vegar hefði verið nauðsynlegt að hæstv. fjh.- og viðskn. hefði athugað málið betur og gert sér skýra grein fyrir því hvað þessi breyting kostar ríkissjóð og hvernig hún yrði framkvæmd hvað snertir samskipti ríkissjóðs og Seðlabanka. Sá kostnaður er því miður ekki talinn í tugum milljóna heldur verður hann að teljast í hundruðum milljóna.