Gjalddagi söluskatts
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þetta svar og finn að það er vilji hjá honum til að breyta þessu. Hann setur fyrir sig kostnað og telur það í hundruðum milljóna sem þetta getur komið til með að kosta ríkissjóð. Ég er ekki jafnsannfærður og hæstv. fjmrh. í þessu efni. Ég bendi á að gjalddagi söluskatts nú er 15. hvers mánaðar og eindagi 25. Stór hluti þeirra sem eiga að skila söluskatti borga á gjalddaga, það eru ekki allir sem borga hinn 25. eins og reikningsdæmin eru yfirleitt reiknuð út frá, að allir borgi þegar síðasti dagur er. Ég hef að vísu ekki beinar tölur um þetta, en þær upplýsingar sem ég hef fengið benda til þess að þetta sé ekki eins mikill kostnaður og margir vilja telja.
    Ég vil taka undir það, sem fram kom hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að þegar lögin um söluskatt voru til umræðu kom fram hugmynd um að breyta gjalddaganum. Þessi fsp. var eiginlega hugsuð með það í huga hvort það stæði ekki til og í samræmi við þær upplýsingar sem þá komu fram.