Fyrirspurn um innflutning á hundum
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs um þingsköp er að á þskj. 71 lagði ég fram fsp. til hæstv. landbrh. um innflutning á hundum. Fór ég fram á að við fsp. fengist skriflegt svar, en hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:
,,1. Hverjum hefur verið heimilað að flytja hunda til landsins sl. tíu ár? Þess er óskað að fram komi í svarinu nöfn innflytjenda og hvaðan hundarnir hafa verið fluttir, enn fremur rökstuðningur fyrir heimildinni.
    2. Hverjum hefur ráðuneytið synjað um slíkan innflutning á hundum á sama tíma? Óskað er eftir að upplýsingarnar verði sundurgreindar eins og við fyrri spurningu.
    3. Hvenær má vænta þess að komið verði á hundasóttkví til nota í þessu tilefni?``
    Nokkurs konar svar hefur borist frá hæstv. ráðherra á þskj. 119. Sá er þó galli á að mínu mati að fsp. er alls ekki svarað og því um alls ófullnægjandi og óviðunandi afgreiðslu fsp. að ræða. Í svari ráðherra er engan veginn reynt að svara meginatriðum fsp., þ.e. hverjir fengu að flytja inn hunda á sl. tíu árum og á hvaða rökum fengu þeir það og hins vegar hverjir fengu ekki að flytja inn hunda á sama tímabili og á hvaða rökum var þeim synjað.
    Um svör ráðherra er hægt að hafa mörg orð og stór, en þau ætla ég að spara mér og reyndar vona að til notkunar þeirra þurfi ekki að koma. Engu að síður ítreka ég óánægju mína með svör ráðherra.
    Hæstv. forseti. Fsp. þessi fór hina hefðbundnu leið, þ.e. áður en hún fékkst send ráðherra til afgreiðslu yfirfór forseti fsp. og að því loknu heimilaði hann hana. Því vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hún telji afgreiðslu ráðherrans fullnægjandi. Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. forseta hver sé staða og réttur þingmanna varðandi fsp., hvort það geti verið að ráðherra eigi að komast upp með alls ófullnægjandi svör. Ef svo er ekki, hæstv. forseti, hvað er þá til ráða?