Fyrirspurn um innflutning á hundum
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er rétt, eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda, hv. þm. Inga Björns Albertssonar, að fsp. er ekki svarað að öllu leyti í botn í því skriflega svari sem dreift hefur verið á hinu háa Alþingi og er á þskj. 119. Ástæður þessa, að nöfn viðkomandi einstaklinga eru í þessu tilviki ekki birt, eru þær að það þykir orka tvímælis að heimilt sé að birta nöfn einstaklinga í vissum tilvikum þegar um viðkvæm einkamálefni er að ræða. Fyrir því eru nokkur fordæmi á hinu háa Alþingi að fsp. af þessu tagi hafi ekki verið svarað og hygg ég að hægt sé að rifja þau upp eða vitna til þeirra ef þess er óskað.
    Ég hef ráðfært mig við nokkra aðila hvað þetta áhrærir og hafa menn haft um þetta efasemdir. Það er þó rétt að taka fram að formlegra álitsgerða hefur ekki verið leitað í þessu efni. Ég tel hins vegar sjálfsagt og ekki síst í ljósi orða hæstv. forseta að leita formlegra álitsgerða aðila eins og ríkislögmanns, tölvunefndar og þeirra aðila fleiri sem fyrst og fremst fjalla um réttindi og skyldur í þessum tilvikum, hvort skylt sé eða heimilt að birta nöfn einstaklinga í þessu tilviki.
    Í þessu sambandi er rétt að minna á að íslensk löggjöf er því miður fátækleg af ákvæðum hvað þetta áhrærir. Þannig er til að mynda ekki til nein heildarlöggjöf um upplýsingaskyldu stjórnvalda né heldur um meðferð persónulegra upplýsinga í svona tilvikum. Það má út af fyrir sig líka rifja það upp og vitna þar til að mynda til bókar Ólafs Jóhannessonar um stjórnskipun Íslands hvort rétt sé að heimila fyrirspurnir ef þær fela í sér e.t.v. ósk um upplýsingar sem ekki er rétt að birta. Í því sambandi langar mig til að vitna, með leyfi hæstv. forseta, í bls. 272 í þessari ágætu nefndu bók, en þar segir: ,,Vitaskuld getur stundum verið álitamál hversu ítarlegs og nákvæms svars er hægt að krefjast af ráðherra.`` --- Hér er átt við svör við fyrirspurn. --- ,,Og hugsanlegt er að fyrirspurn varði efni er ráðherra telur sér ekki heimilt að ræða, en í því tilfelli hefði þingið ekki átt að leyfa fyrirspurnina.``
    Ég tel að það skriflega svar við fsp. sem hér hefur verið vitnað til og er á þskj. 119 svari í öllum aðalatriðum fsp. nema hvað þetta efni áhrærir, þ.e. nöfn viðkomandi einstaklinga eru ekki birt.
    Ég tel að í svarinu skorti á að það sé útskýrt og rökstutt hvers vegna nöfnin eru ekki birt og tek það á mig að þar hefði betur mátt fara. Við þessar aðstæður hefði verið eðlilegt að í hinu skriflega svari hefði komið fram hvers vegna ráðherra treysti sér ekki, a.m.k. ekki að svo stöddu, til að birta viðkomandi nöfn einstaklinga.
    Ég tek það fram að til þess gæti komi síðar ef það yrði að bestu manna yfirsýn heimilt, ég tala nú ekki um skylt.