Fyrirspurn um innflutning á hundum
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég tel ástæðu til að blanda mér í þessar umræður, ekki vegna þess að ég sé áhugamanneskja um hundahald heldur vegna þess að mér sýnist að hér sé verið að ræða um jafnréttismál, ekki jafnrétti meðal manna heldur jafnrétti meðal hunda.
    Hv. fyrirspyrjandi er vel kunnugur frægasta hundi landsins, sem er frægur vítt um heimsbyggðina reyndar, og hann vill greinilega ekki láta mismuna öðrum hundum þessa lands vegna þessa og gera þá líka fræga með því að listi sé yfir þá til í skjölum Alþingis. Ég vil nú spyrja hvort í beiðninni felist ekki fleira en beiðni um upplýsingar um eigendur hundanna og nöfn þeirra. Mér þætti eðlilegt að á þeim lista væru líka og jafnvel öllu fremur nöfn hundanna sem mundu áreiðanlega auðga tungu okkar og vera fróðleg lesning.
    Ég tel annars að viðbrögð hæstv. ráðherra séu rétt í þessu máli. Ég er ekki að segja að hér sé um viðkvæm einkamál að ræða, en þetta eru málefni sem eru afar sambærileg við það eins og hverjir hafi fengið byggingarleyfi í sambandi við byggingar einbýlishúsa, t.d. bílskúra eða eitthvað slíkt sem varðar meira einkalíf manna án þess að þar sé um viðkvæm mál að ræða. Ég held því að þetta séu rétt viðbrögð ráðherra, en ég áfellist heldur ekki hæstv. forseta þar eð það hlaut að vera matsatriði hæstv. ráðherra hvernig hann tæki á þessu máli, hversu nákvæmlega hann svaraði fsp.
    En ég vildi vekja athygli á því að mér þykir það afar sérkennilegt þingmál að hér eigi að birta nöfn manna sem eiga hunda og birta ekki einu sinni nöfn hundanna. Ég fékk þær upplýsingar rétt áðan að frægasti hundur lands og heims væri nú orðinn 17 ára svo ekki virðast þessar upplýsingar ná til jafnaldra þess fræga vinar mannsins. En ég vildi benda á þetta. Ég held að þetta sé afar sérkennilegt mál og hvet hæstv. ráðherra til að láta athuga jafnréttisþáttinn í þessu máli.