Efling atvinnu fyrir konur í dreifbýli
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að lýsa stuðningi við þessa till. og þær ánægjulegu umræður sem fram hafa farið um hana. Ég lít svo á að með till. sé verið að lýsa yfir því að stuðnings sé að vænta við hinar margháttuðu aðgerðir sem ýmsir aðilar hafa haft með höndum til þess að efla fjölbreytni verkefna kvenna hvar sem er á landinu og ekki síst í dreifbýlinu. Ég leyfi mér að nefna aðgerðir Iðntæknistofnunar með stuðningi fyrrv. ríkisstjórnar og þá sérstaklega hæstv. iðnrh. Friðriks Sophussonar. Lengi vel voru námskeið fyrir konur í atvinnurekstri í Reykjavík en voru síðan flutt út á land og slíkt námskeið fór fram í haust á Selfossi.
    Þá finnst mér tilhlýðilegt að við lýsum stuðningi okkar við og virðingu fyrir því mikla starfi sem unnið hefur verið á vegum Kvenfélagasambands Íslands í þessu sambandi. Það er ótrúlegt verk sem innt hefur verið af höndum á þess vegum einmitt í því að efla konur til ýmissa starfa og fræða þær um sitthvað sem að haldi kemur bæði í búrekstri þeirra og öðrum störfum. Ég nefni Heimilisiðnaðarfélag Íslands og svo má lengi áfram halda og auðvitað koma manni í hug ýmsir frumkvöðlar í kvennahópi einmitt á þessu sviði. Væri það of langt upp að telja en þeirra störf miðuðust við annars konar þjóðfélag, má segja, sem bauð kannski ekki upp á jafnfjölbreytta möguleika og nú bjóðast.
    Í gær var merkilegur dagur á margan veg, að ég held, einmitt í sögu atvinnuhátta kvenna. Ég tel það ekki koma neinum flokksböndum við þó að ég lýsi í fyrsta lagi gleði yfir því að til varaformennsku í Alþýðusambandi Íslands var kosin kona. Í öðru lagi hlustaði ég í gærkvöldi á í útvarpinu frásagnir kvenna sem hafa verið í forustu í ýmiss konar atvinnurekstri úti um land. Frásagnir þessara kvenna, ásamt því sem gerðist fyrr um daginn í Alþýðusambandinu að því er konur varðaði, voru þess eðlis að það hlaut að vera til uppörvunar öðrum konum. Ég ímynda mér að sérstaklega það sem konurnar sem stjórnuðu atvinnurekstri sögðu í útvarpinu um sín störf hafi mjög verið til uppörvunar þeim sem hyggja á slíkt og líka þeim sem ekki stjórna atvinnurekstri. Mér þótti þetta mjög uppörvandi og er þó ekki hægt að kalla að það komi neinu slíku við þó að kona hafi um langan aldur starfað á þingi. En þingið hefur að mestu verið skipað körlum. Það eru helst horfur á því að úr því sé að draga svona innan tíðar. En þetta að fá umfjöllun þeirra sem reynslu hafa í atvinnulífi er mikils virði til leiðbeiningar þeim sem vilja hasla sér nýjan völl. Ég hvet til þess að í þessu sambandi verði fengnar til liðs þær konur úti um landið sem nú þegar standa fyrir ýmiss konar atvinnurekstri, hafa gert það lengi og með miklum árangri. Ég tel að þetta hafi geysimikla þýðingu og verði öðrum konum til stuðnings og uppörvunar. Það er einmitt það sem menn segja að helst þurfi. Það kom svo sannarlega í ljós í umfjöllun þessara kvenna að þær sinna þessum störfum af mikilli skynsemi, kostgæfni og elju. Þegar þær voru spurðar hverju árangurinn væri að þakka sögðu þær

ósköp einfaldlega: Þetta er það sama og kemur til greina þegar við stjórnum heimili. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð, en ég held að þetta sé mergurinn málsins.
    Að því er varðar þau ummæli sem hér hafa fallið um fábreytta möguleika kvenna á landsbyggðinni til þess að finna kröftum sínum viðnám eða nýta sína vinnugetu til fulls tek ég fram að ég efast um að það sé í öllum tilfellum rétt. Ég er ansi hrædd um að nútímahúsmóðirin, og þá ekki síður á landsbyggðinni en í þéttbýli, hafi á ýmsan veg mjög mikið starf með höndum og einmitt vegna þess að núna er ekki um að ræða vinnukonur og vinnumenn, kaupakonur og kaupamenn. Nú veltur enn meira á hennar eigin vinnugetu og skipulagningarhæfileikum. Þess vegna held ég að það sé oft á tíðum einmitt svo nú á dögum að hún hafi yfrið nóg að starfa og það sé ekki það sem á skortir. Ég tel því að við megum ekki heldur fjalla um þessi mál á þann veg að við ætlum að kona sem telur sig ekki hafa tíma til að sinna fleiri verkefnum en þeim sem falla til á hennar eigin heimili hljóti að vera einhver ónytjungur. Ég held að það sé afar hættulegt að fjalla um málið með þeim hætti að hún geti með nokkru móti lagt þann skilning í það. Hitt er annað mál að víða háttar svo til að þennan möguleika skortir til fleiri og fjölbreyttari verka og að því leyti til er þetta mjög nauðsynlegt mál. Í því hefur mikið verið unnið og ég fagna því að í þessari þáltill. kemur fram stuðningur við það starf og vilji til að efla það.