Efling atvinnu fyrir konur í dreifbýli
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir þessari till. Hún er mjög tímabær og mjög umhugsunarverð. Maðurinn er félagsvera, segjum við öðru hvoru a.m.k., en ég er hrædd um að það hafi oft gleymst að hluti mannkynsins, konur, eru líka félagsverur. Þær þola illa þá einangrun sem þær búa við t.d. í sveitum landsins. Þær þurfa á félagsskap að halda. Þegar þar við bætist að vinnan á heimilinu minnkar, ég hygg að það sé ekkert óalgengt að t.d. um miðjan daginn eða hluta af deginum sé frekar lítið að gera inni á heimilinu, þá væri ákaflega gott að konur gætu komist frá heimilinu og unnið eitthvað í félagsskap hver við aðra.
    Ég held að konur hafi ýmsar hugmyndir um þetta sjálfar, þær sjái ýmsa möguleika. Þær vantar einhvern veginn einhverja forustu til að koma þessu af stað.
    Ferðaþjónusta bænda er mjög merkilegt fyrirbæri, finnst mér. Ég hef notað þessa ferðaþjónustu nokkur sumur og haft mikið gaman og gagn af. Ég held að það þyrfti að koma þessari ferðaþjónustu betur á framfæri við útlendinga. Það er ekki svo mikið að sjá fyrir þá hér í Reykjavík, hver borgin er annarri lík, en það væri mikils virði fyrir þá að komast út á landsbyggðina. Ég held einmitt að í tengslum við ferðaþjónustuna væri hægt að koma upp ýmsu, t.d. eins og minnst var á hér áðan, minjagripasölu, ýmsum verkum kvenna og þess háttar. --- Mér sýnist hæstv. landbrh. vera að fara út og þess vegna ætla ég að koma hérna að ágætri hugmynd sem ég heyrði konur í Borgarfirði tala um. Þar er t.d. einn staðurinn þar sem verið er að leggja niður sláturhús. Ég held að það sé enginn ágreiningur um að leggja það niður, en þessi hús sem eru lögð niður sums staðar eru ágætis hús, það er margt hægt að gera í þeim. Ég heyrði ungar konur vera að tala um að það væri nú ágætt ef þær gætu fengið þetta hús og sett þarna upp einhvern matvælaiðnað, mat sem þær framleiddu í bökkum t.d. og gætu svo sent frá sér. Ég vil mælast til þess við hæstv. ráðherra að hann taki því mjög vinsamlega ef konur hafa einhverjar hugmyndir um hús sem verið er að leggja niður og standa kannski bara til hálfgerðra leiðinda fyrir alla og eru ekkert notuð. Það væri ágætt að konur gætu fengið þessi hús bara ókeypis og hagnýtt sér þau eftir því sem þær þyrftu.
    Það er merkilegur þáttur sveitakonunnar í uppeldi, mér liggur við að segja þjóðarinnar. Allflestar sveitakonur hafa alveg fram á þennan dag verið með mikið af börnum í uppeldi, börnum sem þær eiga ekki sjálfar, ekki --- ja, mér liggur við að segja sjaldnast peninganna vegna, miklu oftar vegna þess að þær hafa verið að gefa þessum börnum færi á að kynnast lífinu í sveitinni. Þetta er að vísu dálítið að breytast. Það er verið að setja upp sumardvalarheimili sem rekin eru eins og hver önnur barnaheimili. Þessi þáttur sveitakvenna hefur ekki komið fram eins og skyldi finnst mér, en hann er út af fyrir sig mjög merkilegur. Ég hef haft mikla ánægju af því að heyra viðtöl við tiltölulega unga rithöfunda sem hefur verið rætt við t.d. í útvarpi hvað þeir minnast þessarar veru með mikilli ánægju og finnst eiginlega að þarna hafi þeir

fengið undirstöðuna, þarna hafi sköpunargáfa þeirra fengið sína undirstöðu.
    Ég lýsi mikilli ánægju yfir því hvað hér hefur orðið mikil og góð umræða um sveitakonuna. Ég hugsa að staða hennar hafi ekki oft verið rædd inni á Alþingi og það gleður mig sannarlega að heyra þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég lýsi eindregnum stuðningi við þessa tillögu og tel að við ættum að sameinast um að hún komist mjög vel á framfæri.