Efling atvinnu fyrir konur í dreifbýli
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það eru kannski tvö til þrjú atriði, sem fram hafa komið hér í umræðunni, sem ég ætlaði að víkja að.
    Eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Reykv. er yfirstandandi þing Alþýðusambandsins og virðulegur þm. vék að því að þar hefðu orðið umskipti, ánægjuleg tíðindi. Ég vona að það sé rétt, að þar hafi allt farið fram með þeim hætti að við getum lýst ánægju með það, en ég hef ekki fylgst svo mikið með störfum þess. Ég sé hins vegar ekki að það hafi orðið sú breyting á stöðu kvenna þar í forustu að það sé kannski sérstakt tilefni yfirlýsinga. Þar var varaforseti kona á síðasta kjörtímabili og það er sama staða að því er ég best veit í þeirri forustu. Tíðindi hefðu það verið ef þar hefði orðið önnur og meiri breyting í sambandi við það efni sem við erum að ræða hér þótt óbeint sé, þ.e. áhrif kvenna í þjóðfélaginu almennt.
    Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vék einnig að því að húsmæður til sveita hefðu nóg að starfa. Það er sannarlega rétt. Það leggst mikið verkefni á húsmæður til sveita og í þéttbýli. Kannski enn frekar í strjálbýlinu. Það er alveg rétt hjá hv. þm., en það er e.t.v. ekki vandamálið heldur hitt að verkefni fyrir uppvaxandi konur í sveitum eru ekki til staðar og það veldur auðvitað brottflutningi. Aðstaða ungra kvenna til að sækja vinnu og ætla sér framtíð í sveitinni er lakari en karla, þó að þeirra aðstaða sé engan veginn sem skyldi og einnig brottflutningur uppvaxandi æsku hvort sem um karla eða konur er að ræða.
    Aðalatriði sem ég vildi þó gera hér athugasemd við og nefna snertir þá viðleitni sem vissulega er í gangi, sumpart fyrir frumkvæði kvenna í sveitum, að auka atvinnumöguleikana eins og hér hefur verið vikið að. Allt er það góðra gjalda vert og nauðsynlegt að frumkvæðið komi heiman að og njóti stuðnings hjá stjórnvöldum og öðrum sem nærri þessum málum koma og geta lagt þessu lið. En margar af þessum hugmyndum eru þess eðlis að því miður eru ekki miklar líkur á því að þær skili þeim tekjum til kvenna sem sómasamlegar geti talist eða lífvænlegar. Við vitum hvernig aðstaðan er t.d. með almennan iðnað í landinu og hvaða ótíðindi hafa orðið í þeim efnum --- og þá er ég ekki að tala um sveitirnar sérstaklega heldur landsbyggðina og gildir raunar um landið allt --- þar sem fyrirtæki hafa verið að leggja upp laupana vegna breyttrar samkeppnisaðstöðu, vegna kannski ónógs stuðnings og framsýni stjórnvalda til þess að hlutast til um breytingar. Sumt af þessu er þróun sem við ráðum ekki við, annað eru atriði sem við hefðum getað brugðist við með öðrum hætti. Ég óttast að margar af þeim hugmyndum sem upp hafa komið til þess að auka fjölbreytnina í atvinnu í strjálbýli hafi því miður ekki þær undirstöður að skila lífvænlegum kjörum til þeirra sem við þennan rekstur er ætlað að starfa.
    Auðvitað er það ákveðin félagsleg þörf fyrir konur að hafa atvinnu og atvinnumöguleika, en til lengri tíma litið er það samt ekki það eitt sem um er spurt, það er að til séu lífvænleg störf, störf sem skila

sambærilegum tekjum og gerist annars staðar í samfélaginu því að nógur er nú tekjumunurinn fyrir milli kynjanna eins og við erum oft að ræða hér þegar þessi efni ber á góma. Það er þetta sem ég vildi benda á. Þarna þarf sannarlega að koma til athugun á þessum aðstæðum, um leið og menn eru að meta möguleikana að það skili eðlilegum lífvænlegum tekjum í samanburði við önnur störf.
    Ég held einnig að um leið og farið er ofan í atvinnumöguleika kvenna í sveitum sé þörf á því að farið sé ofan í félagslegar aðstæður jafnhliða. Ég nefndi hér í fyrra máli mínu tryggingakerfið, götin í því að því er snertir aðstæður sveitakvenna. Ég nefndi aðstæður þeirra að því er varðar skilgreiningu á þeirra hlut sem bónda, þar sem þær standa engan veginn jafnfætis körlunum. Möguleikar til að vera aðili að félagsbúi með sínum sambýlismanni og annað fleira, sem þarf að fara yfir, þetta varðar almennt hag þeirra kvenna sem í sveitunum eru. Hitt er svo önnur hlið á þessu máli, sem hér hefur verið rædd, að fjölga þurfi atvinnumöguleikunum þannig að fleiri geti staldrað við í sveitinni til frambúðar.