Efling atvinnu fyrir konur í dreifbýli
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í efnislegar umræður um þessa tillögu. Ég ætla aðeins að vekja athygli á því að hér er um mjög sérkennileg vinnubrögð að ræða. Hér er farið í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, og upp úr honum nánast tekin orðrétt, ég segi ekki alveg orðrétt, en efnislega er tekin upp ein setning hér á bls. 10, þar sem stendur: ,,Sérstakt átak verður gert til að auka fjölbreytni í atvinnu kvenna á landsbyggðinni.`` Þetta er góðra gjalda vert. Um þetta var gott samkomulag í stjórnarmyndunarviðræðunum þó að það megi nú kannski bæta því við að ég held að mönnum hafi ekki alveg verið ljóst á þeirri stundu í hverju þetta ætti nákvæmlega að felast frekar en ýmislegt annað sem þarna er skrifað á blað. Síðan koma hér nokkrir þingmenn eins stjórnarflokksins, taka þessa setningu og gera úr henni þáltill. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera sérstakt átak til að efla atvinnumöguleika kvenna í dreifbýli.``
    Ég vek athygli á því að hér er um mjög óvenjuleg vinnubrögð að ræða sem ekki hafa verið tíðkuð hér á Alþingi svo ég best viti. Mér finnst þetta nú svona heldur einföld og ekki mjög merkileg leið til að afla sér mála til að flytja á Alþingi þegar stjórnarþingmenn taka setningar úr stjórnarsáttmálanum og breyta þeim í þáltill. Mér finnst það ekki vera vinnubrögð sem eru beinlínis til fyrirmyndar.