Sveigjanleg starfslok
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Flm. (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt fimm þingmönnum öðrum till. til þál. um nýjar reglur um starfslok og starfsréttindi, svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd er fái það hlutverk að móta reglur um sveigjanlegri starfslok, t.d. á aldursbilinu 64--74 ára.``
    Ég vil fara nokkrum orðum um tilgang og þau rök sem mæla með þessari breytingu. Í grg. segja flm. að það séu mannréttindi að fólk haldi starfsréttindum svo lengi sem hæfni, starfsorka og starfslöngun eru fyrir hendi.
    Flutningsmenn telja að eftirlaunaaldur ætti að vera mun sveigjanlegri en nú er þannig að fólk geti sjálft valið hvenær það hættir störfum t.d. á aldursbilinu 64--74 ára. Það á hvorki að vera lögþvingun né einhliða réttur atvinnurekanda að þvinga fólk til að hætta störfum þegar ákveðnu aldursmarki er náð. Allar rannsóknir benda til þess að ófrávíkjanleg starfslok fólks við ákveðin aldursmörk valdi ótímabærri hrörnun.
    Flutningsmenn leggja áherslu á eftirtalin atriði:
    1. Það eru mannréttindi að halda óskertum starfsréttindum og eiga það ekki undir náð atvinnurekanda hvort viðkomandi heldur vinnu sinni.
    2. Fólk á að halda áunnum eftirlaunaréttindum en starfslok þurfa að vera mun sveigjanlegri svo að fólk geti hætt störfum að eigin vali, t.d. á árabilinu 64--74 ára.
    3. Gefa þarf fólki rétt á að sinna hlutastarfi í ,,fastri vinnu`` þegar aldur færist yfir.
    4. Heilsufar fólks 64--74 ára er betra en áður var, enda starfar nú helmingur fólks 67--74 ára fullan starfsdag en oft í íhlaupavinnu. Þetta fólk hefur verið svipt fastráðningu.
    5. Meðferð öldrunar er ekki alger hvíld heldur andleg og líkamleg örvun og þar af leiðandi eru lög um vinnulok við 67 eða 70 ára aldur ekki læknisfræðilega réttlætanleg.
    6. Enn fremur þarf að bæta lífeyri fólks svo að það neyðist ekki til að vinna lengur en heilsa og hugur leyfa.
    Eins og ég hef sagt eru ástæður þess að þetta mál er flutt hér á Alþingi margar. Það er sú sem ég hef þegar nefnt, sjálfsögð mannréttindi. Það benda öll rök til þess, eins og hér verður komið nánar inn á, að heilsufari fólks hraki mjög þegar vinnu lýkur, valdi ótímabærum dauða, heilsuleysi og ærnum kostnaði í meðulum og sjúkrahúsvist, auk þess sem óvissa og tilgangsleysi raskar sálarheill margra.
    Mannfjöldaspár og þróun aldursskiptingar benda ótvírætt til þess --- ef við höldum áfram á sömu braut að svipta fólk vinnu um og fyrir sjötugt, svo ég tali nú ekki um ef stefnt yrði að því, sem kannski ýmislegt bendir til, fyrr á æviskeiðinu, upp úr sextugu eins og á Norðurlöndum og víðar --- að vinnandi fjöldi í þjóðfélaginu yrði það lágt hlutfall að með svona kerfi mundum við sigla inn í verulegar efnahagslegar þrengingar. Einhvern tímann mælti vitur maður: Vinnan hefur ekki alltaf hamingju í för með

sér en það er engin hamingja án vinnu.
    Ef við fyrst hugsum um mannréttindin. Það er harður dómur að vísa fólki burt úr vinnu þótt einhverju ákveðnu aldursmarki sé náð. Ekki síst hjá þjóð sem þarf á öllu sínu liði að halda til að byggja stórt og erfitt land. Það er skerðing á mannréttindum að verða að yfirgefa starfsvettvang eftir langa og dygga þjónustu og sitja eftir með mjög skerta lífsafkomu eins og þorri launþega verður að gera hér á landi við okkar vanmáttuga lífeyriskerfi. Hér fær þorri fólks, sem lætur af störfum og er á eftirlaunaaldri, ekki nema u.þ.b. 60% af launum. Þetta fólk gerist þá jafnvel á fullorðinsaldri farandverkafólk og stundar ígripavinnu sem fer illa með heilsuna. Í nálægum löndum munu þeir sem af störfum láta ná u.þ.b. 90% af launum.
    Atvinnan er Íslendingum mjög mikils virði og einn stærsti tilgangurinn með lífshlaupinu. Veðráttan á Íslandi á sinn þátt í því hvað það er mikilvægt að stunda vinnu. Stutt sumur og langir og umhleypingasamir vetur. Þegar ákveðið var að borga fólki grunnlífeyri eða ellilífeyri við 67 ára aldur var það hár aldur og heilsan oft á þrotum eftir erfiðan starfsdag. Þetta var gert fyrir einum 60 árum. Nú er sjötugur maður og jafnvel enn eldri með mikla starfsorku og starfslöngun sé heilsan í lagi. Enn eitt atriðið er mjög mikilvægt í mínum huga, það eru sveigjanleg starfslok. Að fólk geti mætt aldri sínum með því að minnka vinnuna sígandi, jafnvel ef það óskar upp úr sextugu. Það gæti gerst með tvöföldu sumarfríi, með því að færa vinnuna úr 100% niður í 75%, úr 75% niður í 50% og síðan haldið hálfu starfi t.d. til 74--75 ára aldurs.
    Á eitt vandamál benda margir þegar þetta ber á góma, ef starfsaldur yrði lengdur, en það er endurnýjun á vinnustöðum, ekki síst að menn héldu verkstjórn og stjórnunarstörfum allt of lengi og allt of gamlir. Ég tel rétt að mæta þessari hættu. Mér fyndist ekkert óeðlilegt við það ef starfslok yrðu hækkuð og gerð sveigjanleg að setja jafnhliða þær reglur hjá t.d. ríkinu að
menn væru ekki í forustustörfum t.d. eftir að 67 ára aldri væri náð.
    Ég ætla hér að rýna aðeins í mannfjöldaspár í Hagtíðindum frá því í desember 1987, en þar segir, með leyfi forseta:
    Sumarið 1984 ákvað framkvæmdanefnd, sem forsrh. skipaði í apríl það ár til að hafa forgöngu um framtíðarkönnun fyrir árin 1985--2010, að koma á fót nokkrum starfshópum til að fjalla um einstaka þætti í þessari könnun. Einum hópanna var fengið það verkefni að kanna horfur um þróun mannfjölda hér á landi næstu áratugina og gera mannfjöldaspá. Hópurinn vann einkum að spánni veturinn 1984--1985. Hún var látin ná til ársins 2020 og var fullgerð vorið 1985. Í aðalspá þessarar skýrslu er miðað við það að börnum sem hver kona eignast á ævinni fækki á sjö árum úr 2,08 1984 í 1,7 árið 1991. Þessi forsenda er við það miðuð að á Íslandi hefur tala barna sem hver kona eignast á ævinni lækkað um helming á

aldarfjórðungi. Hefur þróunin hér á landi fylgt því sem hefur gerst í Vestur-Evrópu, nema að því leyti að hún verður seinna á ferðinni á Íslandi. Þá er verið að segja að þessi tala er hverju sinni á Íslandi svipuð og hún var nokkrum árum fyrr annars staðar. Um 1980 stöðvaðist hin hraða lækkun fæðingartíðninnar víða erlendis og breytist hún nú minna ár frá ári. Tala barna sem hver kona eignast á ævinni er á bilinu 1,3--1,7 í mörgum Evrópulöndum.
    Þegar fólksfjölgun var mest hér á landi 1950--1960 var árleg fjölgun um og yfir 2%. Á síðustu árum hefur hún verið um 1% og spáð er að hún verði um 0,7% á næstu fimm árum. Eftir það verði hún um 0,5% á ári fram að aldamótum og verði þá Íslendingar 262 þúsund, eða 9% fleiri en þeir voru 1985. Eftir aldamót dregur enn úr fólksfjölgun samkvæmt spánni og mun hún stöðvast fljótlega eftir árið 2020. En þá verður mannfjöldinn samkvæmt aðalspá 276 þúsund. Varasamt er þó að treysta forsendum um fæðingartíðni og flutninga svo langt fram í tímann.
    Milli 4000 og 5000 börn hafa fæðst á ári hverju sl. 35 ár. Um þessar mundir fæðast innan við 4000 börn á ári, en spáð er að fæðingum fækki í 3400 árið 2000. Það vekur athygli að því er spáð að hinni íslensku þjóð fari að fækka upp úr árinu 2020. Þá hafi hún náð því hámarki sem hún kemst í miðað við þær forsendur sem menn gefa sér.
    Hér á landi deyja árlega um 1700 manns. Gert er ráð fyrir að sú tala hækki hægt og sígandi í 2000 árið 2000. Dauðsföllum fjölgar ekki verulega fyrr en eftir 2020, þegar fjölmennu árgangarnir, fæddir eftir 1950, komast á efri ár. Náttúrleg fjölgun, eða mismunur lifandi fæddra og dáinna, er nú 2200 manns á ári, en lækkar í um 1400 árið 2000 samkvæmt spánni.
    Því er spáð að aldursskipting Íslendinga muni breytast á næstu áratugum með líkum hætti og gerst hefur í öllum grannlöndum okkar á nýliðnum áratugum. Aldursskiptingin hefur verið teiknuð hér í píramíta en ég fer ekki út í það. En ég ætla hér t.d. að minna á það að árið 1930 voru 65 ára og eldri 7,6% af þjóðinni, 1970 eru þeir orðnir 8,9%, árið 2000 er spáð að þeir verði 11% af þjóðinni og árið 2020 verða hvorki meira né minna en 17,5% af þjóðinni 65 ára og eldri.
    Árið 1985 var fólk á aldrinum 65--74 ára 14 þúsund en verður 18 þúsund árið 2000 og 28 þúsund árið 2020.
    Sem rök í þessu máli ætla ég að ræða um þann þátt sem ég minntist á í sambandi við heilsufar. Í grg. birtist skýrsla eftir Ólaf Ólafsson landlækni og Þór Halldórsson yfirlækni um mannréttindi og eftirlaunaaldur, en þar segja þeir:
    ,,Lok fastráðningar hafa í för með sér tekjumissi og skerðingu á tilteknum réttindum. Á Norðurlöndum er eftirlaunaaldur yfirleitt við 67 ár, í Svíþjóð við 65 ár en á Íslandi eru mörkin nokkru sveigjanlegri. Opinberir starfsmenn ráða hvort þeir hætta störfum við 67 ára eða 70 ára aldur. Einnig gildir þar ,,95 ára reglan``.
    Ýmsir lífeyrissjóðir á Íslandi leyfa starf til allt að

70 ára aldurs. Á félagssvæði Alþýðusambandsins eru starfslok komin undir samkomulagi launþega við vinnuveitanda. Launþegi verður þar að sækja rétt sinn til vinnu til hans. Mörg fyrirtæki hafa ákveðnar reglur um að segja starfsfólki upp við 70 ára aldur. Athyglisvert er að í einkarekstri halda menn mun lengur starfi sínu eftir að eftirlaunaaldri er náð en hjá ríki og sveitarfélögum.``
    Þeir minnast á líklegar orsakir starfsloka áður en eftirlaunaaldri er náð. Það er atvinnuleysi, að menntunarkröfur atvinnuveganna hafa aukist, hagræðing er orðin meiri, m.a. vegna tölvuvæðingar, félagslegur þrýstingur, menn eiga að hætta þegar ellin færist yfir og hleypa hinum ungu að vegna atvinnuleysis o.s.frv. Verkalýðspólitík fagfélaganna er oft neikvæð í garð þeirra gömlu. Og í einstökum tilfellum er fjárhagsleg hagkvæmni að hætta vinnu. En um heilsufar og aðstæður eftirlaunafólks segja þeir:
    ,,Aðeins örfáar rannsóknir hafa farið fram sem lýsa aðstæðum og heilsu eftirlaunafólks.
    Samkvæmt rannsóknum Félagsmálarannsóknastofu Danmerkur reyndist heilsufar aldraðra frekar batna á árunum 1962--1979. Í samræmi við þessar niðurstöður
minnkaði dánartíðni fólks á aldrinum 65--74 ára á Norðurlöndum á árunum 1970--1980.
    Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið fjalla um ástand hjá ófaglærðum starfsmönnum í lægri launaflokkum en fáar um menntamenn og sjálfstæða atvinnurekendur. Launþegar hætta störfum mun fyrr en þeir sem starfa sjálfstætt. Algengast er að menntamenn og atvinnurekendur eigi sér frekar áhugamál er komi í stað starfsins en verkamenn. Sá hópur sem er mótfallinn því að hætta störfum við 64 ára aldur er á bilinu 15--30% og allt að þriðjungur ellilífeyrisþega á Norðurlöndum kemst illa af fjárhagslega. Í kjölfar þessa hrakar oft næringarástandi fólks. Einmanaleiki, depurð og leiði eru algeng, lyfjanotkun eykst, sérstaklega hjá konum.``
    Þeir víkja hér að nauðsyn líkamlegrar og andlegrar örvunar: ,,Til að fólk haldi líkamlegri og andlegri hæfni sem lengst er líkamleg og andleg örvun nauðsynleg, svo sem skyn- og hreyfigetu, andlegrar hæfni, félagslegrar og sálrænnar aðlögunarhæfni. Tamt er að líta á mannsævina sem göngu á fótinn framan af með sífellt aukinni getu en síðan halli undan fæti þegar lengra líður. Vitað er að frumum líkamans fjölgar og þær stækka fram að kynþroska og e.t.v. að 20--25 ára aldri, en í sumum tilvikum fer þá þegar að draga úr stærð þeirra og fjölda. Niðurstöður langtímarannsókna, sem gerðar eru á mannslíkamanum með nútímatækni, sýna að þrátt fyrir það að viss rýrnun frumna líkamans byrji um 25 ára aldur eru breytingarnar litlar næstu 20 árin. Almennt benda rannsóknir til þess að breytingar á frumum líkamans með hækkandi aldri verði ekki verulegar fyrr en komið er yfir 65--75 ára aldur. Meira máli skiptir minnkun starfsgetu heldur en myndrænar breytingar. Mörg líffæri búa yfir mikilli aukagetu. Sum þeirra má skerða um 3 / 4 hluta án þess að nokkur greinileg starfsskerðing komi í ljós. Margs konar geta, sem

skiptir okkur máli, nær hámarki um kynþroskaaldur en stendur síðan að mestu leyti óbreytt í langan tíma þar til hægfara skerðing verður með háum aldri.
    Það er mikilvægt að benda á að á sumum sviðum geta menn aukið hæfni sína á miðjum aldri og býsna lengi fram eftir ævinni. Það hefur oft komið í ljós að fram að 70 ára aldri er andleg hæfni flestra lítt eða ekki skert og má jafna við getu þrítugra eða fertugra.`` --- Ég vek athygli á þessu. --- ,,Þó verður að taka fram að snerpunni hrakar heldur.
    Rannsóknir á sjötugu fólki fyrir og eftir þjálfun sýna að þjálfun eykur ekki aðeins vöðvastyrk heldur aukast einnig meira viðbrögð skjótvirkra vöðvaþráða en hægfara.``
    Ég fer senn að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Mig langaði að lokum að ítreka það að hér er bent á þau rök að við þurfum fleiri sjúkrarúm og við þurfum miklu, miklu dýrari og meiri meðul í fólk eftir að það lætur af störfum. Það hefur komið fram að lyfjaneysla fólks frá 67 ára til 73 ára á Íslandi eykst verulega á þessu aldursbili og eina ástæðan fyrir því sem er greinanleg er sá leiði og sá kvíði sem kemur yfir gamla fólkið þegar því er umsvifalaust varpað til hliðar í þjóðfélaginu.
    Að lokum legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til hv. félmn.