Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Gróðureyðing er sannarlega eitt stærsta umhverfisvandamál á Íslandi. Þar hafa margar kynslóðir í landinu komið við sögu. Þar hefur dregist úr hömlu hjá stjórnvöldum í þessu landi og þeim sem ráðið hafa ferðinni í búnaðarmálum m.a. að taka þessi mál til meðferðar heildstætt. Það er ekki við því að búast að einstakir bændur geti gripið til sinna ráða vegna þess að þeir hafa ekki aðstöðu til að meta heildina, gróðurlendið, gróðurþekjuna. Nánast hver bóndi í landinu ann sinni jörð og vill hag hennar og þeirra sem við henni taka sem bestan.
    Ég tel kjarna þessa máls vera þann að þeir sem ráða ferðum í stjórn landsins og fyrir stefnumörkun í atvinnumálum þurfa að sameinast um að taka þessi mál út frá viðhorfum og þekkingu okkar á auðlindinni, í þessu tilliti gróðurþekju landsins, breyta framleiðsluháttum í landinu þannig að í framtíðinni verði eingöngu stundaður beitarbúskapur í landinu á þeim svæðum þar sem gróðurþekjan þolir það. Það er hins vegar með öllu ótækt að einstakir ráðamenn, eins og í þessu tilviki hæstv. viðskrh., fari að beina spjótum sínum að bændastéttinni og einstökum aðilum þar með þeim hætti sem fram kemur í hans ummælum. Það er skammsýni að mínu mati. Það eru ekki rétt málstök.
    Núverandi ríkisstjórn hefur ætlað sér að taka á umhverfismálum og m.a. að samræma yfirstjórn þeirra. Ég legg áherslu á að það verði gert hið fyrsta með því að stofna sjálfstætt umhverfisráðuneyti óháð öðrum ráðuneytum, ráðuneyti sem vinni að því að leggja mat á stöðu auðlinda til lands og sjávar og gefi leiðbeiningar til fagráðuneyta þar að lútandi. Ég er sannfærður um að bændastéttin í landinu og forsjármenn hennar, trúnaðarmenn á hverjum tíma, eru reiðubúnir til að taka höndum með öðrum landsmönnum um það að snúa frá þeirri ofbeit og ofnotkun lands sem því miður á sér stað allvíða, en það háttar mjög misjafnlega til á landinu í þessum efnum og því þarf að beina nýtingunni, þ.e. beitarbúskap, frá svæðum sem eru ofnotuð yfir á svæði sem þola álagið, þar sem menn geta stundað sauðfjárbúskap, jafnvel hrossarækt, án þess að landið bíði tjón af.