Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Fyrir einu ári fluttu forustumenn Alþfl. í hverri umræðu frá Alþingi sem útvarpað var eða sjónvarpað árásarræðu um landbúnaðinn vegna þess hve hann væri dýr og kostnaðarsamur og hafa þeir reyndar komist að því eins og öll þjóðin hve þar hefur orðið mikil breyting á. Ég held að það sé nánast á þeim eina stað sem hægt er að finna sparnað, þ.e. í landbúnaðinum. Og nú hafa þeir fundið sér aðra leið og tekið sér þar að sjálfsögðu til fyrirmyndar erlend öfgasamtök sem hafa mjög sótt að Íslendingum upp á síðkastið í sambandi við viðskipti með fiskafurðir. Þetta er kjarni málsins. En það sætir furðu hvernig þetta mál ber að þegar þetta er aðaltextinn í máli viðskrh. á aðalfundi miðstjórnar Alþfl. og sérstaklega er tekið undir þetta í ályktun fundarins.
    Menn tala hér um að það sé þýðingarmikið að græða og bæta landið og í ýmsum stjórnmálaályktunum er fjallað um þessi efni. En hvernig var nú þegar Alþfl. undirbjó frv. til fjárlaga fyrir einu ári? Hvernig var gróðarverndarmálanna þá gætt? Þau voru stórlega skorin niður. Og hvernig er núna aðhafst gagnvart því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir? Gróðurverndarmálin eru líka stórlega skorin niður. Þetta eru þeirra verk. Þetta er afstaða áhugamannanna um landgræðslu og gróðurvernd í landinu. Svo á að stofna nýtt ráðuneyti, nýjar skrifstofur og ráða sérfræðinga á sama tíma og verið er að draga með mjög skýrum hætti úr því að landið sé grætt upp og gróður verndaður. Það verður t.d. gaman að sjá hverjar verða tillögur um að leggja fjármagn í að græða upp Mývatnsöræfi, eins og nú liggur fyrir við næstu fjárlagagerð svo að dæmi séu nefnd.
    Tími minn er á þrotum, virðulegi forseti, og ég skal ljúka máli mínu. Hér er ekki hægt að taka efnislega umræðu um gróðurverndar- og landgræðslumál. Til þess eru engin efni. Málið ber að á grundvelli stjórnmála, á grundvelli áróðurs og því hljótum við alveg sérstaklega að mótmæla hér. Þótt Alþfl. sé veikur um þessar mundir hygg ég að þessi aðför að íslenskum landbúnaði muni ekki verða honum til farnaðar.