Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Það ber að harma ummæli hæstv. ráðherra. Þau eru sögð á viðkvæmum tímum. Þau eru forkastanleg. Það er sorglegt þegar tungan verður hugsuninni yfirsterkari. Þau eru líkleg, þessi ummæli, til að spilla þeirri þjóðarsátt sem nú var að takast um gróðurvernd og vaxandi áhuga um skógrækt. Bændurnir eru þeir aðilar sem þarf að hafa mest og best samstarf við um það efni. Stríðshanskar, hótanir og svigurmæli stjórnmálamanna í garð einnar stéttar, og það bændastéttarinnar, mega ekki eiga sér stað. Öfgabarátta fyrrv. skógræktarstjóra og fyrrv. búnaðarmálastjóra um trjárækt og sauðfé var óheppileg á sínum tíma.
    Nú hafa bændurnir, Landgræðslan og Náttúruverndarráð á ýmsum sviðum samvinnu í baráttu fyrir verndun örfoka lands. Engum svíður sárar en bóndanum og ræktunarmanninum að sjá fjúkandi land. Hvað veldur rofabörðum og landeyðingu? Þar eru stærstu orsakavaldarnir eldgos, köld veðrátta, jökulár, fannir á köldum árum sem leysast seint upp. Gróðurlína landsins hreyfist um 50 metra við hverja eina gráðu í meðalárshita. Við landnám óx skógur við 600 metra yfir sjó en nú aðeins við 400 metra. Ég tel að ráðherrann hafi misst vald á tungu sinni og mörg þau ummæli sem hann viðhafði, eins og að hross væru á afréttum, eru þegar berleg ósannindi.
    Ég tek ekki mark á því tískuorði sem menn nú nefna, vörsluskylda búfjár. Ég vil að bændurnir og þjóðin lifi sátt við þetta land.
    Það er margt annað sem er ástæða til að ræða um hér á hv. Alþingi, ekki síst hvernig fjölmiðlarnir hafa markvisst ráðist að bændastéttinni og reynt að gera hana að sökudólg. Ég vil að menn átti sig á því að þessum galdrabrennum nútímans verður að ljúka og ég veit að hæstv. iðnrh. hefur næga greind til að biðjast afsökunar á ummælum sínum.