Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa vanþóknun á orðbragði hv. 1. þm. Norðurl. v. í þessum ræðustól. Það er honum ekki sæmandi og raunar finnst mér sorglegt að þessi umræða um þetta mikilvæga mál skuli einkennast hjá allt of mörgum hv. þm. af ómerkilegum áróðursupphrópunum og útúrsnúningum, afar lítið merkilegum. ( PP: Viltu bera þetta til baka?) Í grunnskólum landsins er notuð við kennslu bók sem heitir Gróðureyðing og endurheimt landgæða. Ég held að sumir hv. þm. og kannski 1. þm. Norðurl. v. hefðu gott af því að glugga í þessa bók --- og kannski hv. 5. þm. Suðurl. líka. Þar stendur, þetta er eftir Ingva Þorsteinsson og Sigurð Blöndal, og ég les upp úr þessari bók, með leyfi forseta:
    ,,Veðurfari er oft kennt um þessa rýrnun gróðurs og einkanlega er þeirri skoðun haldið á loft í köldum árum. Auðvitað vex allur gróður minna þegar kalt er í veðri og skaðlegra áhrifa kólnandi veðurs gætir því meira sem nær dregur veðurfræðilegum gróðurmörkum jarðar. En því verra sem ástand gróðurs er, því verr þolir hann áföll eins og lækkandi hitastig. Núverandi gróðurfar er ekki bara afleiðing slíkra áfalla. Lélegt ástand þess á sér miklu lengri aðdraganda og veðurfar er ekki frumorsökin heldur ofnýting gróðursins, fyrst og fremst eyðing skóganna og of mikið beitarálag sem hefur aukið skaðleg áhrif kuldaskeiða.``
    Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Ísland okkar tíma er aðeins skuggi þess sem var í árdaga byggðar. Það er mikið áhyggjuefni og það hlýtur að vera eitt meginverkefni okkar nú og í framtíðinni að endurheimta horfin landgæði.``
    Ég held að við hér á hinu háa Alþingi ættum að ræða þessi mál með svolítið öðrum hætti en ýmsir hv. þm. hafa gert hér í dag.