Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Unnur Stefánsdóttir:
    Virðulegi forseti. Stjórnvöld ættu að taka til í eigin garði. Það sem spillir fyrir árangri í gróðurverndarmálum er að málflutningur þeirra opinberu stofnana sem um þessi mál fjalla er ósamhljóða og þar nefni ég til RALA, Búnaðarfélag Íslands, Landgræðsluna og landbrn. Það er ekki á færi annarra en Alþingis að ákveða bann við búfjárhaldi með lagasetningu á einstökum svæðum. Viðskrh. ætti því fremur að taka málið upp á Alþingi en hvetja til aðgerða gegn bændum.