Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það væri að sönnu fróðlegt og æskilegt að hafa lengri tíma til að ræða þetta mál hér og hefði ég gjarnan viljað ræða nokkuð um gróðureyðinguna og frumorsakir hennar, en læt það eitt nægja að benda á það að fleiri eru fræðimenn en höfundar tiltekinnar kennslubókar og ég veit það mætavel af kynnum mínum við þá stétt manna sem helst fjallar um gróðureyðingu og orsakir hennar að það eru býsna deildar meiningar um vægi hinna einstöku þátta sem þar eru á ferðinni.
    Í öðru lagi vil ég segja og taka undir ummæli hæstv. heilbrmrh.: Það er augljóst mál að hæstv. viðskrh. talaði sem flokksmaður á fundi þeirra krata og ég hygg að það geti verið vænlegt til árangurs hvað varðar skilning á ummælum hans að taka tillit til þess hvar þau eru fram borin og að þar kann ýmislegt að vera betur til vinsælda fallið en annars staðar í þjóðfélaginu.
    Ég vil þó segja að ég tel þessi ummæli fremur óheppileg og afar lítt grunduð vegna þess að hér eru viðkvæm mál og afar mikil hagsmunamál á ferðinni þannig að ráðamenn þurfa að vega og meta ummæli sín vel. Það er ljóst að það er í raun mjög mikilvægt að neyslan innan lands á hinni hefðbundnu búvöruframleiðslu sé sem mest þannig að sem minnst þurfi að flytja út með verðábyrgð ríkisins eins og þeim málum er nú fyrir komið innan ramma búvörusamningsins milli ríkisvaldsins og bænda, því að dragi úr neyslunni innan lands kostar það meiri útflutningsuppbætur sem eru mun dýrari og óhagkvæmari en þær niðurgreiðslur sem eru á framleiðslunni til sölu innan lands.
    Í öðru lagi þykir mér rétt að minna á að það er með fjölmörgum mismunandi hætti verið að vinna að gróðurverndarmálum, m.a. því að beita ítölu og reyna að draga úr beit á þeim svæðum sem verst eru farin. Ég hygg að það eigi að reyna að ná árangri í þessum málum með þeim hætti og ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég tel öfgar af því tagi að afnema með öllu lausagöngu búfjár í landinu fráleitar. Ég bendi á að í heilum landshlutum er ástand gróðurlendisins gott og ekki nokkur ástæða til að leggja í þann vörslukostnað og girðingarkostnað, til að mynda á Austurlandi og Vestfjörðum og norðausturhorni landsins, sem öfgastefna af þessu tagi mundi hafa í för með sér.
    Það er hins vegar rétt að taka þarf þessi mál fastari tökum á þeim svæðum þar sem ástandið er verst. Því ætlar landbrn. sér að sinna og þiggur að sjálfsögðu hjálp góðra manna í því efni, hvort sem heldur er í mörkun nýrrar framleiðslustefnu eða gróðurverndarmálum, og vona ég að hugur fylgi máli og ekki muni þá á skorta liðsstyrk þeirra sem um þetta fjölluðu á flokksþingi Alþfl. að taka nú myndarlega á gróðurverndarmálum á næstunni.