Kjararannsóknir
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að lýsa viðhorfi til þessarar þáltill. þar sem ég er einn af flm. hennar, en ég vil koma því á framfæri að ég held að það efni sem í henni felst skipti mjög verulegu máli. Launamál í landinu, umræður um þau, samanburður milli starfsstétta og harðar deilur á stundum eru staðreynd og það er nauðsynlegt að fyrir liggi sem fyllstar upplýsingar um það hvernig skiptin eru á vinnumarkaði.
    Þessi till. gerir ráð fyrir efldum rannsóknum. Rannsóknir skortir á fjölmörgum sviðum í landi okkar. Umræðuefnið hér áðan utan dagskrár var dæmi um eitt slíkt mál þar sem þekkinguna skortir og að þekkingin sé orðin allra eign til þess að grunda á skynsamlega umræðu og ákvarðanir. Það sama gildir um launamálin. Þar er mjög margt dulið og þess vegna ber yfirvöldum í landinu að hlutast til um það að fá réttar upplýsingar fram, réttan grunn fyrir umræðu og þær ákvarðanir sem teknar eru á vinnumarkaði hverju sinni. Þetta styður það markmið sem hv. frummælandi vék að í sínu máli, að auka jöfnuð, skapa réttlátari tekjuskiptingu í þjóðfélaginu með því að gera launakerfin aðgengilegri og auðskiljanlegri. Ég vænti þess að þessi tillaga hljóti stuðning. Ég get vart ímyndað mér að þetta verði ágreiningsmál milli stjórnmálaflokka. Ég trúi ekki öðru en að það sé áhugamál allra stjórnmálamanna að styðja við upplýsingaöflun af þessu tagi svo þýðingarmikil sem hún er fyrir þjóðfélagið.
    Ég á sæti í þeirri nefnd sem gerð hefur verið tillaga um að fái þetta mál til meðferðar og á þannig kost á að fylgja málinu eftir á þeim vettvangi. Ég þakka hv. 1. flm. Kristínu Einarsdóttur fyrir frumkvæði hennar í þessu máli og ég vona að af því spretti margt gagnlegt fyrir það efni sem þessi till. varðar, skiptingu þjóðarteknanna, samskiptin á vinnumarkaðinum.