Kjararannsóknir
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka flm. þessarar þáltill. fyrir að hafa borið hana fram og þá sérstaklega hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur. Ég held að hér sé mjög þarft mál á ferðinni og kemur það heim og saman við áhuga okkar alþýðuflokksmanna á þessu máli sem hefur lýst sér í því, þó að hv. 5. þm. Suðurl. Guðna Ágústssyni sé greinilega ekki kunnugt um það hefur mál mjög svipað þessu verið flutt á tveimur þingum af Jóhönnu Sigurðardóttur og það hefur verið athugunar innan þingflokks Alþfl. hvort sú tillaga skyldi ekki flutt aftur. Hún tekur á þessu máli frá nokkuð öðru sjónarhorni, gæti kannski verið viðbót við þessa góðu till. Ég held að það verði úr að við flytjum þessa tillögu og þær ættu þá að skoðast í samhengi er hún kemur fram. Ég vil hins vegar endurtaka mínar þakkir. Þetta mál er af hinu góða og það mun örugglega hljóta okkar stuðning.