Kjararannsóknir
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Flm. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka undirtektir við till. og þá kannski sérstaklega hv. 5. þm. Suðurl. og 5. þm. Norðurl. v. vegna þess að þeir standa ekki að tillögunni með mér. Ég get tekið það fram að ég bauð að sjálfsögðu einum þm. Alþfl. að vera með á till. en hann taldi sér það ekki fært. Hins vegar hefur hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson lýst því yfir að hann styðji till. og það gleður mig. Þess vegna á ég von á að till. geti fengið fljóta afgreiðslu og verði samþykkt á þessu þingi.
    Því miður er langt liðið á þingið þannig að skammt er í jólaleyfi og ekki víst að hægt sé að vinna mikið að till. fyrir jólaleyfi. Varðandi aðrar tillögur sem tengjast þessu máli geta þær ekki annað en stutt þessa tillögu. Svipaðar tillögur, sem geta komið í tengslum við þessa og á einhvern hátt tengjast kjararannsóknum, mun ég sjálfsagt geta stutt sem og aðrir. Mér þykir að sjálfsögðu leiðinlegt að þm. Alþfl. skyldu ekki treysta sér til þess að vera meðflm. að till. en þykir mjög vænt um að þeir hafi hugsað sér að styðja hana.