Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir. Ég held að ekki sé annað hægt en að taka jákvætt undir þessa tillögu þó að hún sé takmörkuð og miðuð við Vesturland, en ef litið er til aðstæðna flm. er eðlilegt að hún sé miðuð við hans kjördæmi. Tillagan er út af fyrir sig góðra gjalda verð. Óskað er eftir upplýsingum sem við þurfum á að halda og þar er sérstaklega vísað til fiskeldis, þ.e. að nýta megi þessar náttúruauðlindir, sem þarna er óskað eftir að fá upplýsingar um, til fiskeldis og til eflingar byggðar og búsetu á Vesturlandi.
    Það er ábyggilega alveg rétt, og ég tek undir það með flm., að líklega er fiskeldi ein þeirra greina sem helst koma til greina til eflingar byggðar víða um land og vænlegar gætu orðið. Í því sambandi er heita vatnið mjög mikils virði ekki síst í seiðaeldi og við klakið. Nokkuð greinir menn þó á um hver muni vera æskilegasti hitinn í eldi á fullorðnum laxi, en þess get ég vegna þess að flm. vísar til þess í greinargerð með þessari þáltill. Við sem fáumst dálítið við laxeldi bendum gjarnan á að villti fiskurinn fer sína leið sennilega allt norður undir Grænland, elst þar upp í tiltölulega köldum sjó og vex þó hraðar heldur en við tiltölulega góðar aðstæður í eldi. Menn greinir þess vegna nokkuð á um það hvaða þættir það eru sem mest áhrif hafa á vaxtarhraðann og það er ekki endilega víst að hitinn hafi svo mikil áhrif eftir því sem fiskurinn stækkar, enda hygg ég að það sé útilokað að hita sjó mjög mikið ef um eitthvert verulegt eldi á fullorðnum fiski er að ræða, rennslið er það mikið og hitamagnið sem þyrfti því að vera mjög mikið. En eigi að síður er heita vatnið afar mikilvægt til byrjunareldis og þó að ég hyggi að enginn sé nú eins og stendur að hvetja til aukins eldis á seiðum hygg ég þó að silungseldi gæti til að mynda komið mjög víða til greina. Það sem e.t.v. kæmi þó sterkast til greina á þessari stundu væri matfiskeldi á laxi auk annarra tegunda sem þróaðar verða. En þar er lengst komið, þar er skjótast að grípa til aðgerða og markaður er fyrir eldislaxinn. Fram undir þetta hefur fengist tiltölulega gott verð fyrir laxinn þó að sveiflur á markaðsverði á laxi verði ævinlega einhverjar eins og á öllum vörum sem boðnar eru á markaðinn.
    Í þessu sambandi er auðvitað afar mikilvægt að ná jarðsjó og það er athyglisvert að flm. miðar við það að ná jarðsjó og þá væntanlega með borunum eða öðrum slíkum aðgerðum. En eldi úti fyrir Vesturlandi í kvíum kann víða að orka tvímælis vegna þess hve fjörur eru miklar og kæling á sjó getur þess vegna orðið mikil og undirkæling orðið að vetri til. Einn meginvandinn við jarðsjóinn er hvað sjótakan sjálf er dýr. Ég hygg að það sem væri einna brýnast fyrir þá sem að matfiskeldi standa væri að gera einhverjar athuganir á því hvernig hægt sé að ná þessum sjó á ódýrari hátt. Dýrasti þátturinn í eldinu og það sem gerir matfiskeldi eða strandeldi erfitt er hversu dýr sjótakan er. Þær rannsóknir sem Orkustofnun gerir í þessu sambandi eru í flestum tilvikum ódýrar, m.a.

rannsóknir á efnasamsetningu jarðsjávarins og súrefnisinnihaldi hans, sem er ákaflega mikilvægt í fiskeldi því að fiskurinn lifir náttúrlega að verulegu leyti á súrefninu í sjónum og þarf á því að halda og þeim mun minna sem af súrefni er í jarðsjónum þeim mun meira þarf að dæla. Þetta eykur náttúrlega kostnaðinn og hangir saman við lyftihæð og annað slíkt. Þannig að sjótakan er mjög dýr. Það er væntanlega meginmál, ef menn vilja ráðast í matfiskeldi á Vesturlandi sem og víðar, hvernig sjórinn yrði tekinn. Efnasamsetning á honum og gæði að öðru leyti þarf auðvitað að athuga.
    Ég hygg að flm. miði talsvert við það og vitnar í skjöl frá Orkustofnun að Orkustofnun geti staðið að þessum rannsóknum. Í því sambandi vil ég aðeins drepa á tvennt: Varðandi efnasamsetningu og gæði kalda vatnsins hygg ég að raunvísindadeild Háskólans hafi ráðið starfsmann til þess að fást sérstaklega við athugun á kalda vatninu. Gæði ferska vatnsins eru mjög mikilvæg og í rauninni vita menn ekki nægilega mikið kannski um áhrif efnasamsetningar þess, en margir hafa komið fram með þá kenningu að einn meginbölvaldur í íslensku fiskeldi, sem er tálknveikin aðallega í seiðaeldi, stafi að verulegu leyti af efnasamsetningu íslenska vatnsins, þ.e. hversu mjúkt það er. Þarna hygg ég að séu hlutir sem þarf að skoða. En þegar kemur að sjótökunni hygg ég að fleiri þurfi að koma inn í en bara Orkustofnun og stærsti þátturinn í þeim rannsóknum sem þar þarf að gera er sjótakan sjálf og það dýrasta.
    Mig rekur minni til eins verkefnis sem sérstaklega var ráðist í á Suðurlandi þar sem að stóðu saman Orkustofnun, Jarðboranir hf. og síðan ein þrjú eða fjögur fiskeldisfyrirtæki þar sem meiningin var að gera sérstaka könnun á jarðsjónum og allir lögðu nokkuð til. Nú er nokkuð langt um liðið síðan þetta samkomulag var gert og hygg ég að flestir hafi staðið við sinn hlut nema Orkustofnun sem að mínu viti átti þó að gefa út skýrslu sem var ekki mjög viðamikið verkefni og hefur eingöngu fengist í frumdrögum enn. Það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum.
    Það er mín skoðun varðandi þær rannsóknir sem þarna fara fram að það sé afar mikilvægt að þær séu ekki eingöngu fræðilegar athuganir, akademískar rannsóknir, e.t.v. opinberra stofnana sem að einhverju leyti vantar verkefni
og vilja leita slíkra. Það er mjög brýnt mál, og á það vil ég sérstaklega benda flm., að rannsóknir sem þessar, ef menn eru að tala um fiskeldi, séu unnar í tengslum og samvinnu við þá aðila sem í fiskeldinu eru og landssamtök þeirra vegna þess að þeir hafa ákveðnar óskir og vita hvar vandinn brennur og hvaða upplýsingar þeir þurfa og vilja fá. Óskir hinna opinberu stofnana snúast stundum svolítið í aðra átt.