Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Nokkur orð um þessa till. Það fer nú jafnan svo að þegar rædd eru hin merkustu mál í hv. Sþ. er fátt um þingmenn í sætum sínum.
    Ég lýsi stuðningi mínum við till. og það sem kemur fram í henni í grundvallaratriðum. Ég verð þó að segja það að ég sakna þess nokkuð að ekki skuli í þessari tillögu fjallað um fóðurframleiðsluna og hvernig eigi að búa að henni í náinni framtíð því að óvart er hún undirstaða þess að vel takist til með fiskeldi hér á landi.
    Ég hygg að því miður sé till. á ferðinni 20 árum of seint og hefði hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson haft þann brennandi áhuga á fiskeldi fyrir 20 árum sem hann hefur nú hefði hann ugglaust getað tekið undir með Skúla Pálssyni á Laxalóni um það að þessi merka atvinnugrein hafi verið bundin í viðjar og hún ekki fengið að þróast á eðlilegan hátt hér á landi.
    Ég hygg að við getum mikið og margt um þetta rætt. Sjálfur hefði ég haft gaman af því að taka fyrir einstaka liði eins og sjúkdómaeftirlit og sjúkdómavarnir. Við höfum ekki hér á landi nægilega stóran hóp sérmenntaðra manna í fisksjúkdómum og það hefur háð okkur verulega. Við þessi störf hafa unnið menn sem hlotið hafa dýralæknismenntun, fróðir menn á sínu sviði en ekki að fullu til þess hæfir að fjalla um fisksjúkdóma.
    Ég hef líka saknað þess að þarna er ekki fjallað um umhverfisverndarþátt fiskeldis sem er orðinn geysilega mikilvægur þáttur og hefur valdið bæði spjöllum og erfiðleikum í Noregi og Færeyjum þar sem ég þekki skást til. Affall frá fiskeldisstöðvum hrúgast á sjávarbotn þar sem fiskur er alinn í sjó og veldur þar breytingum á lífríki sem eru mjög háskasamlegar, einnig affall frá fiskeldisstöðvum í landi sem rennur beint í haf. Það þarf að setja mjög strangar reglur um hreinsun á þessu affalli og jafnvel um hugsanlega gerilsneiðingu á því vatni sem notað er til fiskeldis almennt.
    Þá hefði ég gjarnan viljað sjá koma fram í till. þá skoðun margra manna, sem áhuga hafa á fiskeldi á Íslandi, að fiskeldið, allur sá málaflokkur, verði nú fluttur frá landbrn. yfir til sjútvrn. Ég tel að það sé orðið fyllilega tímabært og það hefði raunar þurft að gera það fyrir mörgum árum, a.m.k. stóran þátt fiskeldis. Vont er að þurfa að skipta þessum mikilvæga málaflokki á milli ráðuneyta, en ég hygg að hann væri betur kominn hjá sjútvrn.
    Ég get tekið undir allar þær hugmyndir sem koma fram um aðgerðir til að greiða fyrir fiskeldisfyrirtækjum, stofnun þeirra og fjármögnun, m.a. a- og b-lið till., svo og c-liðinn. Um d-liðinn hef ég nú ekki mikið annað að segja, en það er svo sjálfsagt mál að því ætti að vera unnt að hrinda í framkvæmd þegar í stað.
    Það sem sagt er um raforku til fiskeldis sem verði seld á taxta er taki mið af nýtingartíma og orkunotkun get ég fyllilega fallist á, reglur um takmörkun erlendrar lántöku, að þær hindri ekki uppbyggingu arðbærra fiskeldisfyrirtækja. Fjármögnunin hefur verið

höfuðvandi fiskeldisfyrirtækja, og okkur er auðvitað kunnugt um fyrirtæki sem hafa verið byggð upp af mikilli bjartsýni, kunnáttu, þekkingu og mikilli vandvirkni en hafa síðan lent í mjög alvarlegum rekstrarfjárvanda vegna þess að fjármögnun í upphafi var of dýr. Við þær aðstæður sem ríkja í okkar þjóðfélagi þar sem fjármagnskostnaðurinn er kominn upp fyrir öll skynsamleg mörk er þessi grein í miklum erfiðleikum mjög víða nú um stundir.
    Ég hefði haft hug á að ræða ýmsar greinar fiskeldis sem lítið hefur verið fjallað um í umræðum hér á þingi og víðar. Ég er þeirrar skoðunar og hef lengi verið að við höfum lagt allt of litla áherslu á eldi hraðvaxandi fiska, þ.e. fiska sem vaxa hratt, m.a. í volgu vatni. Þá á ég einkum við regnbogasilung og þann margumrædda ál sem ég hef nú barist fyrir að fá að flytja hingað til lands og rækta. En leyfi til þess hefur ekki fengist þrátt fyrir það að hingað til lands hafa verið fluttar lifandi fisktegundir eins og vatnarækja sem reynt var eldi á á Suðurnesjum en svo illa tókst til að þar drapst allt. Nú nýverið var fluttur inn skelfiskur sem ég hefði álitið að væri ekki síður smithætta af fyrir aðra fiskstofna og hrogn, hrognainnflutningur sem ég held að líffræðingar hafi verulegar áhyggjur af, blöndun á stofnum. Allt hefur þetta verið leyft átölulaust, en það er eins og ekki eigi allir innhlaup hjá þeim mönnum sem fara með völd í þessum málaflokk. Þar er sitt hvað Jón og séra Jón. Þessu verður auðvitað að breyta og þessu verður breytt áður en yfir lýkur.
    Ég vil þakka hv. 1. flm. fyrir flutning till. og hefði talið eðlilegt að hér hefði setið einhver ráðherra til þess að fjalla um jafnmerkan tillöguflutning og hér er á ferðinni, til þess þó ekki væri annað en að láta álit sitt í ljós og greina frá því hvað núverandi stjórnvöld hyggjast gera í þessum efnum.