Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Flm. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau orð sem hann lét falla hér. Hann sagði að ég kæmi fram sem einhver sérstakur sendimaður umhverfisverndarmanna sem er auðvitað alrangt. Mitt sjónarmið í þessu máli er fyrst og fremst að reyna að koma í veg fyrir það stórfellda viðskiptalega tjón sem við eigum eftir að verða fyrir vegna aðgerða grænfriðunga og af því tilefni er þessi tillaga lögð hér fram. Menn mega ekki meta það svo, þó að ég taki upp hanskann að einhverju leyti fyrir þá menn sem hér á þingi og víðar hafa verið kallaðir hermdarverkamenn en vinna einhver merkustu umhverfisverndarstörf í Evrópu sem um getur um þessar mundir, að ég taki upp hanskann fyrir þá og komi málstað þeirra að einhverju leyti á framfæri hér.
    Ég vil benda á það, mér láðist að geta þess í upphafsræðu minni, að nú hefur það gerst að Samband ísl. samvinnufélaga, sjávarútvegsdeild, hefur sent hv. sjútvn. Nd. umsögn um það frv. um hvalveiðibann sem hér hefur verið lagt fram þar sem kemur skýrt fram að Samband ísl. samvinnufélaga hefur lagt til að þessum vísindaveiðum verði að vísu haldið áfram en án þess að drepa hvali. Þetta er það viðhorf sem ríkir hjá þeim mönnum sem þurfa að koma sínum varningi á framfæri í þeirri hörðu samkeppni sem á sér stað, bæði í Evrópu og á Bandaríkjunum, og ég vara eindregið við því, og það skulu verða mín lokaorð til að lengja ekki þessa umræðu vegna þess hve löng hún var út af frv. sem lagt var fram, að þeir menn sem þybbast við að taka á þessu máli af alvöru skulu þá bera ábyrgðina á því hvað gerist ef þetta mál hefur þann framgang sem nú virðist ætla að verða. Og ég hef miklar áhyggjur af því að aðgerðir þær, sem umhverfisverndarmenn hafa þegar boðað og hafa stofnað til og munu halda áfram á þessu ári og á næsta ári, eigi að öllu óbreyttu, ef við ekki tökum í taumana að einhverju leyti, eftir að skaða viðskipti okkar við umheiminn mjög verulega.
    Hæstv. sjútvrh. sagði að það væri ekki hægt að reikna þetta mál út í debet og kredit. Auðvitað er það alveg hárrétt. Það hefur engum manni dottið í hug að gera það. En ég held að það áfall sem ímynd okkar og orðstír erlendis hefur orðið fyrir af þessu máli verði að fara á debetreikning og ég hygg að við munum kannski eiga duggulítið erfitt með að bæta upp þann skaða sem þegar er orðinn.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu meira en orðið er nema sérstök ástæða gefist til hér á eftir og lýk máli mínu.