Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þegar frv. tveggja hv. þm. Borgfl. um hvalveiðibann var til umræðu fyrir fáeinum vikum lýsti ég afstöðu minni til þessara mála í nokkuð ítarlegri ræðu og sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þá afstöðu nú. Ég vil þó ítreka áhyggjur vegna stefnu stjórnvalda sem ég tel að hafi spillt verulega fyrir lífsnauðsynlegu samstarfi við aðrar þjóðir um víðtæka umhverfisvernd.
    Það er mín skoðun að Íslendingar hafi verið á vægast sagt hálum brautum með hinar svokölluðu hvalveiðar í vísindaskyni og hafi sýnt háskalega þrjósku og óbilgirni í þessum málum. Íslensk stjórnvöld hafa stöðugt haldið fram rétti sínum, en Alþjóðahvalveiðiráðið hefur ítrekað gert athugasemdir við hvalveiðarnar og haft miklar efasemdir um að þær væru fyrst og fremst í vísindaskyni.
    Hv. síðasti ræðumaður gerði töluvert úr því að í þessum veiðum væri einungis um 70--80 dýr á ári að ræða, það væri allt og sumt, og það er satt. En áætlunin hljóðaði í upphafi upp á miklu fleiri dýr. Það hefur sannarlega verið bakkað í málinu. Og við skulum ekki gleyma því að markmiðið með þessari vísindaáætlun er undirbúningur að áframhaldandi veiðum og vegna forsögu okkar, sem er lítt til sóma, er okkur ekki treyst. Það er mergurinn málsins. Það er að sönnu ekkert auðvelt fyrir leikmenn að átta sig á því hvort hér hefur verið um vísindaáætlun að ræða eða ekki, enda hefur vísindamenn sjálfa greint á um það. Íslenskir andmælendur og efasemdarmenn hafa þó ekki verið ýkja háværir af þeirri einföldu ástæðu að menn hafa í lengstu lög viljað forðast átök sem gætu skaðað úthafið og vonað að stjórnvöld kæmu sér skammlaust út úr þessu vandræðamáli. Því miður óttast nú margir, og vil ég taka undir það með hv. flm., að meira en lítill skaði sé skeður og það verði þrautin þyngri að vinna aftur upp það traust sem hefur tapast meðal annarra þjóða vegna þessa máls.
    Þetta vildi ég aðeins ítreka við umræðu um þessa tillögu sem ég tel ákaflega varlega orðaða og flestir alþm. ættu að geta verið sammála meginefni hennar.