Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Þar sem í hv. Nd. hefur þegar verið rætt um frv. sem gengur mjög í sömu átt og þessi tillaga, eða gefur alla vega tilefni til sams konar umræðna, hafa allmargir þingmenn þegar haft tækifæri til að tjá sig ítarlega um málið, en við sem erum svo lánsamir að sitja í hv. Ed. höfum ekki haft tækifæri til þess fyrr en núna. Þess vegna vildi ég hafa um þetta nokkur orð.
    Þessi tillaga felur í sér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að hefja þegar í stað endurskoðun á hvalveiðistefnunni og flm. gefur sér til hvers sú endurskoðun eigi að leiða, þ.e. að vísindahvalveiðar verði stöðvaðar um a.m.k. þriggja ára skeið.
    Nú hygg ég að það hafi komið fram í þessum umræðum að það er aðeins eitt ár eftir af þessari vísindaveiðiáætlun eins og hún er nú hugsuð þannig að mér finnst tillagan ekki í fullu samræmi við þann veruleika sem við stöndum andspænis. Mér finnst það líka vera ljóður á ráði þessarar tillögu, ef þannig má að orði kveða, að hér er verið að tala um að stöðva mikilvæga leit að þekkingu sem við höfum beitt okkur fyrir og haft frumkvæði um meðal þjóða. Ég held að þeim vísindamönnum sem gerst til þekkja beri saman um að þessar mjög svo takmörkuðu vísindaveiðar hafi þegar skilað ómetanlegum gögnum á ýmsum sviðum líffræði og sjávarlíffræði sem raunar er hvergi nærri lokið við að vinna úr og áreiðanlega eiga eftir að færa vitneskju okkar töluvert lengra fram á við, auka hana og efla og leiða til ýmissa hluta sem við ekki sjáum fyrir í dag. Slíkt er nú eðli vísindarannsókna og þekkingarleitar. Þess vegna finnst mér miður að hér skuli flutt tillaga um að stöðva þessa þekkingarleit. Það er staðreynd að margra þeirra upplýsinga sem fást með veiðum á hvölum verður ekki aflað með öðrum hætti, vísindamenn mæla því ekki mót.
    Hér hefur verið vitnað til ályktunar 20 líffræðinga sem starfa að ég hygg við Háskóla Íslands. Ég minnist þess ekki að sá ágæti hópur hafi nokkurn tíma ályktað jákvætt um eitt eða neitt sem gert hefur verið á vegum Hafrannsóknastofnunar, ég minnist þess ekki, og má það þó vel vera.
    Það er rétt, sem hér hefur fram komið, að þessar takmörkuðu vísindaveiðar hafa valdið okkur ýmsum óþægindum. Það er alveg rétt. Mín skoðun er sú að ef hér verður slegið undan og nú verður gefist upp og sagt: Við skulum ganga að öllu óskum og kröfum svonefndra grænfriðunga, þá fyrst muni okkar vandræði byrja.
    Samtökin sem kenna sig við hinn græna lit og frið, grænfriðungar, hafa vissulega gert mjög margt lofsvert, einkum í baráttunni gegn mengun. Þau hafa gert mjög margt lofsvert og það er ástæða til að meta það og virða. Þar eigum við sameiginlegra hagsmuna að gæta. En við getum ekki, við megum ekki og við eigum ekki að taka undir með þessum samtökum þegar þau afflytja okkar málstað, þegar þau breiða út um íslensku þjóðina og Íslendinga ósannindi, rangar fullyrðingar, óhróður og lygi. Slíku hljótum við að berjast gegn, slíku hljótum við að andmæla og slíku

eigum við auðvitað aldrei að kyngja.
    Þessi samtök halda því m.a. fram að við förum ekki að alþjóðalögum og samþykktum. Þetta er rangt. Þetta hefur verið margsinnis hrakið, margsinnis bent á. Þetta er rangt! Þessi samtök kunna því miður hvorki að umgangast sannleikann né staðreyndir þegar hvalveiðar eru annars vegar og þar er farið með óhróður og ósannindi um okkur og okkar mál.
    Það er svo aftur annað mál að ég er þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið gert nægilega mikið af því og ekki nægilega öfluglega gert fyrr en núna síðustu missirin kannski að mótmæla þessum málflutningi, að gera gangskör að því að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Ég veit að það er ekkert auðvelt, en ég er samt þeirrar skoðunar að þar hefði þurft að gera meira.
    Mér finnst það og hefur lengi fundist, allar götur síðan 1983, áhyggjuefni hvað þessi samtök, og þá er ég ekki bara að tala um grænfriðunga heldur ýmis önnur samtök og sumt öfgasamtök á þessum vettvangi, hafa átt greiðan aðgang að íslenskum fjölmiðlum. Það virðast liggja beinar línur milli talsmanna þessara samtaka og íslenskra fjölmiðla. Þetta kom mjög vel í ljós 1983 þegar Ríkisútvarpið hafði sérstakan fréttamann í Bandaríkjunum og í hverjum fréttatíma kvölds og morgna voru fluttar fréttir af viðbrögðum talsmanna grænfriðunga og fleiri samtaka í Bandaríkjunum og svo var látið í veðri vaka sem bandaríska þjóðin stæði í rauninni á öndinni yfir þessum málum. Staðreyndin var sú að það var mjög lítið um þessi mál fjallað í bandarískum fjölmiðlum og fólk sem þar var á ferð um þetta leyti vissi nánast ekki af því og þegar bandarískir fiskkaupendur komu hingað þetta sama ár, einir 25 eða 30, og var ekið með þá í langferðabíl um Skúlagötuna og leiðsögumaðurinn benti þeim á hvalbát sem var að sigla út úr höfninni, þetta var undir vorið, og sagði: Þarna er nú einn af þessum hvalbátum sem lætin hafa verið út af, þá urðu þeir eitt spurningarmerki og sögðu: Hvaða læti?
    Við höfum fengið ranga mynd af því sem hefur verið að gerast þarna úti og þessi samtök hafa átt ótrúlega greiða leið að fréttamönnum og ýmsum fleiri áhrifamiklum einstaklingum í þessu þjóðfélagi. Við skulum nefnilega hafa í
huga að gildi þessara aðgerða er ekki fyrst og fremst fólgið í því að þær fari fram, heldur að þeim upplýsingum að þær hafi farið fram sé komið á framfæri við okkur til þess að skjóta okkur skelk í bringu. Þetta finnst mér vera áhyggjuefni. Það er ekki fréttaefni í Bandaríkjunum, í 6--7 millj. manna borg eins og Fíladelfíu, þó að 30 manns komi þar á fund. En það verður hins vegar fyrsta frétt í ljósvakamiðlunum hér. Það er engin frétt.
    Ég held að við þurfum að hafa áhyggjur af því hvað gerist næst. Talsmenn þessara samtaka hafa lýst því yfir að þeir muni ekki endilega láta staðar numið þótt hvalveiðum linni. Hvað kann að koma næst? Selveiðar? Síldveiðar? Síldin er mikilvæg fæða fyrir suma hvali, eins og háhyrninga. Einu sinni --- og það

er ekki gamansaga --- var íslenskur loðnumjölsframleiðandi beðinn um staðfestingu á því, það er alkunn saga, að loðnan, sem mjölið hafði verið unnið úr, hefði ekki verið tekin frá hvölum. Við vitum ekkert hvar það endar ef undanlátsseminni verður beitt og hörfað við fyrsta mótlæti og hlaupið til baka.
    Það getur vel verið að við þurfum að lúta í lægra haldi. En við eigum ekki að gefast upp strax, um leið og á móti blæs. Það er ekki líkt þessari þjóð. Við höfum staðið af okkur annað eins og menn eiga ekki að vera hræddir og ekki fara með veggjum og hlaupa í felur um leið og á okkur er blásið. Við eigum að halda okkar reisn og við eigum að ljúka því vísindalega verki sem við höfum hafið. Við eigum að kynna árangur þess og síðan eigum við að berjast fyrir því innan ramma laga og réttar, eins og við höfum gert til þessa, að við getum haldið áfram að nýta þennan stofn í hafinu eins og aðra stofna í sjávarlífríkinu hér í kring.