Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég hef nú látið þessar umræður fara fram hjá mér á þessum fundi, en ég get ekki látið hjá líða að taka aðeins til máls um þessa þáltill. þó lagafrv. komi hins vegar fyrir sjútvn. þar sem ég á sæti.
    Ég vil taka sérstaklega undir þau rök sem komu hér fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. Mér fannst hann taka á einfaldan hátt skýrt á þessu máli í hnotskurn miðað við það ástand sem í raun og veru er á erlendum vettvangi.
    Ég get sagt það strax að þegar hér var tekin ákvörðun á hv. Alþingi um bann við hvalveiðum á sínum tíma var ég andvígur þeirri afgreiðslu sem hér fór fram og greiddi atkvæði gegn því. Ég þarf ekki að rökstyðja það eða endurtaka það hér. Ég taldi að við Íslendingar ættum að ráða okkar málum sjálfir, en við ættum að leggja fyrst og fremst áherslu á auknar rannsóknir á þessu sviði og átta okkur á því og hafa forustu um það meðal þjóða hvernig raunverulegt ástand væri í sambandi við þennan hvalastofn miðað við þær hóflegu veiðar sem Ísland hafði stundað árum saman.
    Ég er andvígur þessari þáltill. og vísa til þess, sem raunverulega er kjarni málsins, að eftir þá ákvörðun sem Alþingi Íslendinga tók á sínum tíma hefur verið unnið að þessum rannsóknarveiðum í samræmi við samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins og liggur alveg ljóst fyrir að við erum að slá botninn í þessar vísindaveiðar. Þær eiga að endurskoðast eftir eitt ár, árið 1990, og þá verður ljóst hvaða stefnu Alþjóðahvalveiðiráðið tekur og hvaða stefnu við Íslendingar komum til með að berjast fyrir. Ég tel að þau rök sem hér hafa komið fram hjá fyrri ræðumönnun og raunar fyrr í þessum umræðum öllum séu nægjanlega sterk fyrir okkur að þessu leyti til.
    Ég tel að svona tillöguflutningur, bæði að því er varðar þáltill. og eins lagafrv. sem var lagt fram í hv. Nd., sé á vissan hátt skaði, það sé í raun og veru vantraust á okkar ágætu vísindamenn sem njóta sívaxandi álits á alþjóðavettvangi. Við getum glaðst yfir því í leiðinni að þeir hafa fengið sérstaka viðurkenningu fyrir sín miklu störf þannig að um leið hefur Ísland fengið viðurkenningu fyrir að vera viss brautryðjandi á þessu sviði meðal þjóða, enda er það mikilvægt fyrir okkur sem erum fyrst og fremst fiskveiðiþjóð og eigum allt undir því komið að halda skynsamlega á þessum málum fyrir hvaða fiskistofn sem er og hvaða afurð sem er í hafinu sem við þurfum að nýta á skynsamlegan hátt og er um leið undirstaða undir okkar þjóðfélagsbyggingu í nútíð og framtíð. Ég tel þess vegna að þessi tillöguflutningur sé nokkurt vantraust og ég vil undirstrika mikilvægi vísinda á þessu sviði sem eins og ég áður sagði leggur grunn að viðurkenningu fyrir vissum mikilvægum þætti í okkar uppbyggingu atvinnulega séð.
    Ég hef ekki látið fara frá mér neitt í sambandi við þann áróður sem viðgengst á erlendum vettvangi. Ég tel hann að vissu marki vera tískufyrirbrigði sem

gengur yfir. Það eru viss samtök sem geta unnið ágæt störf að ýmsum mikilvægum málum, eins og landvernd, mengunarvarnir og allt sem því fylgir, en ég tel að þarna sé um ósvífinn áróður að ræða og þarna fari öfgamennirnir fylktu liði jafnvel í óþökk þeirra aðalmanna sem stýra þessum samtökum á vissan hátt gagnvart þjóðum. Við höfum dæmið um Grænlendinga, en þessi samtök lögðu mikilvæga atvinnugrein hjá Grænlendingum í rúst fyrir ósvífinn áróður í máli sem þeir höfðu ekki einu sinni haft fyrir því að kynna sér hvernig var í pottinn búið í raun og veru.
    Ég vil leggja mikla áherslu á að miðað við þessar aðstæður verði kappkostað að auka kynningu á okkar málstað í þessu máli og að hefja gagnáróður gegn því sem fram hefur komið á erlendum vettvangi. Þó að við séum fátækir og smáir er öruggt að málstaður okkar er svo góður og skýr að það er tiltölulega auðvelt að koma mótáróðri í gang. Það sýnir ljóslega sú sendiferð sem er nýafstaðin til Þýskalands. Hún bar strax jákvæðan árangur. Ég er ekki í neinum vafa um að það er hægt að ná árangri að þessu leyti til.
    En ég vil segja að lokum að ég vil alls ekki að það sé gefið eftir í þessu máli miðað við þáltill. sem hér er. Hún mundi gera okkur ógagn. Hún grípur inn í atburðarásina sem er rétt að verða lokið, rannsóknastarfið sem tekur enda á næsta ári. Ég legg áherslu á að það verði hvergi hvikað í þessu máli.