Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Sú till. til þál. sem hér liggur frammi um endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga frá hv. 3. þm. Norðurl. e. er í meginstefnu samhljóma því lagafrv. sem ég hef flutt í Nd. Við erum sammála um meginlínuna í þessum málum vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að þessi mál eru að okkar mati komin í óefni. Hvernig hefur verið haldið á þessum málum er saga út af fyrir sig sem ekki verður svo auðveldlega rakin hér, en það er alveg ljóst að við erum ekki að berjast við opinbera aðila, ekki við ríkisstjórnir. Við erum að berjast við fólkið í hinum frjálsu löndum, frjáls félagasamtök og frjálst fólk sem hefur skoðanir. Þetta fólk hefur miklu meiri áhrif en menn vilja vera láta hér og þau fara vaxandi. Áhrifin af þessu höfum við séð undanfarna mánuði í auknum áróðri gegn okkur með þeim afleiðingum að margir af okkar samningum um sölu á fiskafurðum hafa gengið til baka eða við höfum átt í erfiðleikum af þeim sökum.
    Þá er athyglisverð sú skoðun, sem hér hefur komið fram, að jafnvel hafi þetta haft áhrif til lækkunar á fiskverði á erlendum mörkuðum og ég gæti vel trúað að svo sé. Það er því alveg ljóst að við höfum þegar tapað jafnvel hundruð milljóna á þessari stífni okkar og ekki verður öllu lengur gengið þessa braut.
    Í Frosti, 6. tbl. 3. árgangi 1988, segir svo, með leyfi forseta: ,,,,Stöðvum hvalveiðar strax``, segir Benedikt Guðmundsson í Hamborg.`` Svo er tekin upp bein tilvitnun í hann: ,,,,Áhrif hvalamálsins eru ekki komin fram enn þá. Við höfum aldrei selt meira en á þessu ári. Salan í ár er þegar orðin jafnmikil og allt árið í fyrra``, sagði Benedikt Guðmundsson, framkvæmdastjóri VIK í Hamborg, um áhrif hvalamálsins á sölu íslenskra sjávarafurða í Þýskalandi.
    Síðan er vitnað til hans aftur og segir þar: ,,Forráðamenn Nordsee, sem rekur um 150 veitingahús víðs vegar á Þýskalandi, hafa tilkynnt okkur að þeir muni ekki kaupa af okkur frystan fisk vegna þvingana frá Greenpeace, en hvað þau gera svo veit ég ekki. Það hafa verið nokkurra daga mótmælaaðgerðir við a.m.k. tvo veitingastaði Nordsee og þær verða fleiri. Vonandi tekst að ljúka hvalveiðirannsóknum án þess að um frekari hvalveiðar verði að ræða nk. sumar. Við eigum á hættu að fleiri fyrirtæki hætti viðskiptum við Ísland vegna þess að þar eru mikil verðmæti í húfi, mun mikilvægari en hvalveiðar.``
    Þetta segir í stuttu máli hver eru viðhorf fjölda manna sem eru úti á akrinum, eru að selja okkar afurðir og hafa fylgst með þessum málum.
    Til okkar í sjútvn. Nd. hafa komið umsagnir um þetta mál og segir svo í bréfi Verslunarráðs Íslands frá 22. nóv. 1986, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi og ríkisstjórn hafa þegar markað ákveðna stefnu varðandi hvalveiðar í fiskveiðilögsögu Íslands. Hana á að endurskoða frá grunni eftir eitt ár þegar núverandi veiðum í vísindaskyni lýkur. Þar að auki er ljóst að Alþjóðahvalveiðiráðið mun endurskoða sína stefnu árið 1990 þegar bann þess við hvalveiðum í

atvinnuskyni rennur út.
    Í samræmi við stefnumótun Alþingis er framkvæmd vísindaveiða í höndum framkvæmdarvaldsins. Það er því hlutverk ríkisstjórnar að framfylgja veiðum með hliðsjón af þjóðarhag. Ekki verður séð að önnur skipan mála sé eða hafi verið skynsamlegri. Í framhaldi af framansögðu er ekki hægt að mæla með að Alþingi samþykki umrætt frv. til laga um hvalveiðibann.
    Verslunarráð Íslands vill nota þetta tækifæri til að undirstrika þá skoðun að margs þarf að gæta þegar reynt er að framfylgja hvalveiðum og móta hvalveiðistefnu með hliðsjón af þjóðarhag. Teldi ráðið það vel til fundið ef ríkisstjórn eða sjútvrn. beitti sér fyrir úttekt og skoðanaskiptum á þjóðarhag í þessu sambandi í víðtækasta skilningi.``
    Þetta bréf frá Verslunarráði Íslands sýnir að Verslunarráðið er tvístígandi. Þeir eru þó einkennilega hallir undir ríkisstjórnina og mætti ætla að ef ríkisstjórn og Alþingi marki stefnu í einhverju máli muni þeir ekki vera á móti þeirri stefnu fyrr en sú stefna fellur úr gildi og á ég nú von á að þetta muni gerast í efnahagsmálum líka. Hins vegar er það að þeir ræða um þjóðarhag og þá koma þeir að því sem þeir raunverulega meina. Þeir eiga við að það séu svo miklir hagsmunir í húfi að það eigi að hætta hvalveiðum með núverandi hætti.
    Samband ísl. samvinnufélaga, sjávarafurðadeild, sendir nefndinni einnig bréf og þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Við höfum fyrir nokkru síðan komið þeirri skoðun á framfæri við sjútvrh. að ljúka beri rannsóknaráætlun þeirri sem nú er unnið að án þess að veiddir verði fleiri hvalir. Gangi þetta eftir munu niður falla vísindaveiðar sumarið 1989. Mun þá gefast nokkurt hlé til úrvinnslu rannsóknarefnis og óhlutdrægrar skoðunar málsins.``
    Ég tel að þetta bréf sé mjög merkilegt. Þar kemur fram að Samband ísl. samvinnufélaga vill hætta vísindaveiðum og styður þá skoðun að við höfum aldrei átt að fara út í vísindaveiðarnar heldur halda okkur við hvalveiðar ef við hefðum ætlað að gera það.
    Um þessi mál hafði verið fjallað vítt og breitt á þessum fundi. Ég hafði
þegar haldið alllanga ræðu í Nd. um þetta og ætla ekki að endurtaka það sérstaklega hér, en það er alveg ljóst að við getum ekki lokað augunum fyrir þeim staðreyndum sem liggja fyrir og við getum ekki haldið áfram hvalveiðum í vísindaskyni með þeim hætti sem við gerum nú. Það er líka ljóst að það er ágreiningur um þessar vísindalegu niðurstöður, ef við viljum ræða það sérstaklega. Ég ætla ekki að gera þetta sérstaklega að umræðuefni hér, en undirstrika að það virðist vera sitt hvað hvort menn vinna undir sjútvrn., í tengslum við það, eða á öðrum stöðum hvað þetta varðar.
    Hæstv. forseti. Ég fer senn að ljúka máli mínu. Ég vil þó aðeins undirstrika að lokum að sá bæklingur sem sjútvrn. hefur notað til kynningar erlendis, er að vísu kominn með nýtt innlegg væntanlega, er mjög

slæm kynning á okkar málum. Eins og ég hef sagt áður hefði verið betra að standa betur að þessum málum frá upphafi. Það er alveg ljóst að við verðum að huga að þessum málum með öðrum hætti en hingað til og sú stífni sem hefur ríkt í þessum málum gengur ekki lengur.