Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. minnti á áskorun 21 líffræðings frá því í júlí á síðasta ári, áskorun til ríkisstjórnar Íslands um að hætta hvalveiðum, en lét um leið þau orð falla að hann minntist þess ekki að frá þessum hópi hefði nokkurn tíma komið nokkuð jákvætt í garð Hafrannsóknastofnunar. Þetta er fullyrðing sem ég get ekki látið hjá líða að mótmæla. Vegna þessara orða hv. þm. vil ég vitna til örfárra orða, fyrst í áskoruninni sem birtist í júlí 1987 og hefst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við undirritaðir líffræðingar fögnum auknum rannsóknum á lifandi hvölum hér við land, en skorum jafnframt á ríkisstjórn Íslands að virða tímabundið veiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins, hætta hvalveiðum og kosta rannsóknir á hvalastofnum með öðrum hætti en með ágóða af hvalveiðum.``
    Nokkru síðar í sömu áskorun segir svo, með leyfi forseta: ,,Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á lifandi hvölum eru líklegar til að bæta verulega þekkingu á fjölda, útbreiðslu og atferli hvala og gera kleift að meta veiðiþol hvalastofna við landið.``
    Síðan birtist greinargerð í ágúst sama ár og í lokaorðum þeirrar greinargerðar segir, með leyfi forseta: ,,Því áliti okkar, sem fram kom í áskorun til ríkisstjórnarinnar, að rangt væri að kenna hvalveiðar Íslendinga við vísindi, var ekki beint til þeirra sem nýta sér dauða hvali til ýmiss konar líffræðilegra rannsókna. Við teljum þær rannsóknir í sjálfu sér hinar merkustu. Það er hins vegar mat okkar að öflun gagna með veiðum skili svo litlum viðbótarupplýsingum um stærð og veiðiþol stofnanna að rangt sé að tala um hvalveiðar í vísindaskyni og notfæra sér þannig undanþáguákvæði í alþjóðasáttmálanum um hvalveiðar.``
    Ég vildi aðeins, virðulegi forseti, láta þetta koma fram til leiðréttingar á þessari fullyrðingu.