Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Hæstv. forseti. Það hlýtur að vekja nokkra athygli hversu hatrömm barátta grænfriðunga er gegn vísindahvalveiðum Íslendinga og það kann að vera að íslenskir fréttamenn eigi verulegan hlut að máli þegar að því kemur. Það hlýtur að vekja athygli hversu hart grænfriðungar berjast gegn hvalveiðum þar sem um er að ræða veiði 70 dýra sem allir hljóta að vera sammála um að hefur engin megináhrif á hvalastofna þegar tekið er tillit til þess að barátta grænfriðunga snýr sáralítið að Japönum, Norðmönnum, Færeyingum eða Sovétmönnum. Í hverju skyldi það leynast að barátta þeirra snýst svo hatrammt gegn Íslendingum? Það skyldi nú ekki liggja að hluta í því að íslenskir fjölmiðlar hafa fjallað um og auglýst starfsemi grænfriðunga meira en líklega nokkrir aðrir fjölmiðlar í heiminum. Á sama tíma og hlutverk grænfriðunga á þessari jörðu er sjálfsagt mjög mikilvægt og áríðandi, á þeim tíma þegar umhverfisvernd er í máli allra manna, á sama tíma og mengun eykst á jörðinni, á sama tíma og verkefni þessara samtaka eykst stöðugt dag frá degi ef þau eiga að sinna sínu hlutverki, þá verja þau meginhluta síns fjár, vinnu og tíma og skipulagi í að berjast gegn Íslendingum sem veiða 70 hvali á ári, verulegum fjármunum og verulegum tíma. Ég kemst ekki hjá því að draga þá ályktun að íslenskir fréttamenn eigi verulegan hlut að máli.
    Ég er alveg sannfærður um að grænfriðungar hafa góðar fréttir af því sem skeður á Íslandi. Þeir fá fréttir frá sínum stuðningsmönnum hér um umræðuna, hvernig hún er. Og ég er alveg viss um að þeir telja af þeim fréttum sem hér eru stöðugt í sjónvarpi og útvarpi að hér séu þeir að ná verulegum árangri. Þess vegna eigi þeir að beita sér verulega hér. Þess vegna eigi þeir að einhenda sér í það að berjast gegn Íslendingum fram yfir aðrar þjóðir sem hvali veiða. Og ég verð að játa að ég held einmitt að þessi umræða hér á þinginu og tillöguflutningur efli þessa starfsemi þeirra fremur en hitt því að vafalaust fá þeir fréttir af því sem hér skeður.
    Ég er þeirrar skoðunar og auðvitað vitum við öll að veiði á þessum 70 dýrum hefur enga úrslitaþýðingu á efnahag Íslendinga. En vafalaust eru þær upplýsingar sem með þessum rannsóknum fást mikils virði. Ég held að við hljótum hverju sinni að verða að meta hagsmuni okkar, hvaða hagsmunir eru sterkastir og ríkastir. Og það verðum við að gera sjálfsagt kalt og án mikilla tilfinninga. En ég kemst ekki fram hjá því að ég hygg að Íslendingar hafi sjálfir verið sínir mestu óvinir í þessu máli. Ég hygg að íslenskum fréttamönnum megi þakka eða hallmæla fyrir hvernig málin eru komin. Fréttamat þeirra og stöðugur fréttaflutningur af grænfriðungum og þeirra starfsemi hér á landi hefur vafalaust orðið til þess að efla grænfriðunga í þessari baráttu.