Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég veit mætavel að í augum hv. 5. þm. Reykv. erum við, sá sem þetta mælir og sjálfsagt flestir hér, eins og hverjir aðrir álfar út úr hól, eins og hann kallaði okkur hér áðan, og auðvitað unum við því og viðurkennum að við komumst ekki með tærnar þar sem þessi heiðursmaður hefur hælana, bæði að því er snertir andlegt atgervi og yfirleitt alla skapaða hluti. (Gripið fram í.) Og við erum hér eins og hverjir aðrir álfar út úr hól, eins og hv. þm. sagði.
    Hann kom hér og sagði fjölskyldusögur frá Bandaríkjunum og það eru ósköp einfaldar skýringar á þessu, hv. þm., sem jafnvel álfar út úr hól kunna nokkur skil á. Þær skýringar eru m.a. þær að þessi samtök í Bandaríkjunum hafa yfir að ráða milljónum og aftur milljónum dollara. Og hvernig nota þau það fjármagn? Til þess að komast í samband við alla kennara í landinu sem kenna litlum börnum í grunnskólum. Og hvað gera þessi samtök síðan? Þau senda þessum kennurum margs konar efni og kennararnir segja við þessi litlu börn: Nú skuluð þið skrifa bréf til hinna vondu ráðherra á Íslandi og biðja þá um að hætta að drepa í stórum stíl hina gáfuðu og elskulegu hvali. Þetta gera þessi blessuð börn. Þau hlýða sínum kennurum. Sum þeirra eru varla skrifandi og varla læs. Mörg þeirra hafa aldrei séð hval og aldrei séð sjó. Íslenskir ráðherrar eiga þessi bréf í tuga kílóa tali í sekkjum í Stjórnarráðinu. Það er svona, hv. þm., sem þessi samtök starfa. Þau nota saklaus börn til að koma þessum sjónarmiðum á framfæri, börn sem hafa ekki neina aðstöðu til að mynda sér skoðun á þessu. Þetta er staðreynd.
    Ég get líka sagt hv. þm. afar stutta sögu um hugsunarhátt sumra hverra þeirra manna sem að þessu standa. Fyrir fáeinum árum var ungur íslenskur námsmaður í skóla í Bandaríkjunum og hann átti að taka svokallað stöðupróf í enskri tungu. Kennarinn, ungur maður sem var með tvær doktorsgráður, sagði: Það er alveg sama um hvað þið skrifið. Ég ætla bara að sjá hvað þið eruð góð í ensku. Þessi ungi Íslendingur kunni ensku ágætlega og hann skrifaði stutta ritgerð um hvalveiðar og fáránlega baráttu Greenpeace, sem hann nefndi svo, gegn hvalveiðum Íslendinga. Hann fékk ritgerðina til baka og það var ekki mikið strikað í hana og ekki margar villur í henni. En fyrir neðan ritgerðina stóð: ,,D mínus, ég er félagi í Greenpeace.`` Og prófessorinn skrifaði síðan nafn sitt undir. Það er m.a. svona fólk sem við erum að berjast við og það er illt að eiga svona andstæðinga.
    Þessi samtök nota hvalveiðarnar í fjáröflunarskyni. Þessar litlu hvalveiðar okkar gefa þessum samtökum í aðra hönd tekjur sem eru áreiðanlega þúsundfaldar á við þær tekjur sem við höfum af hvalveiðum. Og ég ætla aðeins að segja það hér að lokum: Það er mikill misskilningur að við eigum í einhverju stríði við almenning í þessum löndum, það er mikill misskilningur. Við eigum í stríði við þá sem ráða ferðinni hjá þessum samtökum og hafa kosið að beina öllum spjótum sínum að okkur af því að við erum

smáþjóð en ekki stærri þjóðum eins og Sovétmönnum, Japönum og öðrum sem stunda víðtækar hvalveiðar sem við gerum ekki. Það er þetta fólk sem við eigum í stríði við. Við erum ekki í stríði við almenning í þessum löndum, það er grundvallarmisskilningur.