Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar leiðrétta þann misskilning sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Sæmundi Sigurjónssyni, að mínu mati, varðandi hv. þm. Albert Guðmundsson þegar hann hélt því fram að Albert Guðmundsson hefði flutt sitt mál með þeim hætti að það mætti túlka þannig að hann hefði látið beygja sig. Þetta var alrangt en þannig túlkaði hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Ég vil mótmæla því. Það sem hv. þm. Albert Guðmundsson gerði var einfaldlega það að hann sagði sannleikann eins og hann birtist honum. Hann gerði meira og var maður að meiri. Hann viðurkenndi stöðu Íslendinga í þessu erfiða máli.
    Ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki um mál að ræða sem hægt sé að ræða við útlendinga um með rökum. Flestir þeir útlendingar sem ég hef lent í og eru þeir miklu, miklu, miklu fleiri en hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson hafði tækifæri til að ræða við á þremur til fjórum dögum í Þýskalandi, þeir ræða þetta út frá sjónarmiði tilfinninga en ekki hagsmuna og því skulum við gera okkur grein fyrir.
    Hv. þm. Albert Guðmundsson vitnaði í þá reynslu sem hann varð fyrir í Bandaríkjunum varðandi þetta mál, en ég get sagt það fyrir mitt leyti að ég hef ferðast til Bandaríkjanna sem sérstakur upplýsingafulltrúi stórs útflutningsaðila á hverju einasta ári frá 1961 til 1988 og geri enn og oft á ári og því miður verð ég að segja að það sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði og ég mun fara hér nánar inn á á eftir eru orð að sönnu. Þetta mál er okkur í óhag miklu, miklu víðar í Bandaríkjunum en við höfum viljað viðurkenna. Ég tek það hins vegar skýrt fram áður en ég held lengra áfram í mínu máli að það er stefna Sjálfstfl. í þessu að við reynum að sameina þjóðina, að við reynum að sameina þingheim um að komast að samkomulagi sem leiðir til jákvæðrar niðurstöðu fyrir þjóðina í heild og einnig við lausn þessa máls. En því miður finnst mér að stjórnarþingmenn hafi talað þannig, þó ekki allir en allt of margir, að greinilega er ekki að vænta neinnar samstöðu úr þeim herbúðum því að hér standa þeir hver um annan þveran og rífast í þessu alvarlega máli. Og það sem verra er og það finnst mér forkastanlegt, þeir reyna að gera lítið úr þeim sem koma hingað upp og hafa aðra skoðun eða túlka þetta með öðrum hætti en þeim hentar nú í þessari stöðu vegna stjórnarsamstarfsins. Þess vegna segi ég það að það er nauðsynlegt fyrir hv. þm. að gæta þess að þetta mál er miklu stærra en einhver rifrildisfundur á hv. Alþingi. Þetta mál er þess eðlis, og sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á það, að það verður að leysast með samstöðu okkar allra, hv. þm. Þess vegna var það sem við lögðum áherslu á það að við lögðum til að hv. utanrmn. reyndi að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem tryggði hagsmuni íslensku þjóðarinnar og álit. Því miður eru það hins vegar stjórnarþingmenn sem greinilega munu koma í veg fyrir það með sínum þvergirðingshætti og ég vil segja að mörgu leyti

ósæmilegri framkomu gagnvart okkur hinum sem höfum okkar skoðanir á þessu eins og þeir en viljum fá sátt, viljum fá niðurstöðu sem sameinar þjóðina en sundrar henni ekki.
    Auðvitað er þetta mál hluti af okkar þjóðarstolti. Það er spursmál um þjóðarstolt að láta ekki erlenda aðila hafa þau áhrif á gang mála hérlendis að við getum ekki hagað okkar málum eins og okkur hentar best á hverjum tíma. En það er líka rétt sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði: Við skulum gera okkur grein fyrir að við erum ekki einir í heiminum. Við verðum að leita sátta eins og aðrar þjóðir um lausn erfiðra og viðkvæmra mála og við erum að tala um viðkvæmt mál.
    Þá kemur það atriði að vega og meta meiri hagsmuni og minni hagsmuni. Það sem ég hef tekið sérstaklega eftir í umræðum á Alþingi, bæði nú og fyrr, þegar þessi mál hafa komið á dagskrá er hvað framganga þeirra manna er harkaleg sem ég tel að túlki sjónarmið minni hagsmuna, þ.e. þeirra sem alfarið halda til streitu að okkur beri að stunda hvalveiðar, ekki bara vísindalegar hvalveiðar heldur hvalveiðar almennt. Ég get út af fyrir sig fallist á það sem Íslendingur að það sé ekkert athugavert við það að stunda hvalveiðar, fjarri því. En ég segi líka sem Íslendingur: Ég verð vegna annarra og sjálfs mín að vega og meta meiri hagsmuni. Það getur vel verið að pólitískum loddurum henti það hér í þessari stöðu, til þess að fá stig í vinsældum, að halda því fram sem höfðar meira til þjóðarstoltsins, en það mun ekki skila þeim árangri þegar til lengdar lætur.
    Við skulum gera okkur grein fyrir því að öll sú neikvæða umræða sem hefur orðið um hvalveiðarnar úti í hinum stóra heimi hefur þegar haft mjög afdrifarík og vond áhrif á afkomu þjóðarinnar, bæði beint og óbeint. Það er hægt að taka dæmin frá vestri og til austurs í þeim efnum, en dæmin eru bara ekki alveg eins, niðurstaða þeirra er ekki alveg sú sama hvað afkomuna snertir þótt hið sama snúi að okkur hvað þjóðarstolt áhrærir. Ég mundi t.d. aldrei taka Vestur-Þýskaland sem sérstakt viðmiðunarland þegar ég ætti að vega það og meta hvernig Íslendingar eiga að haga sínum málum og afstöðu í sambandi við hvalveiðar. Þýskaland hefur ekki verið það land í markaðs- og sölumálum Íslendinga að það hefði afgerandi áhrif eða úrslitaáhrif. Þjóðverjar eru mjög
harðdrægir viðskiptamenn. Þeir eru mjög harðdrægir kaupendur og þeir eru fljótir að tryggja sína eigin hagsmuni ef þeir sjá leiðir í þeim efnum. Þýskaland er þannig markaður að það hentar Þjóðverjum sjálfum betur að fá óunninn eða ferskan fisk, ferskar vörur frá Íslandi en ekki frystar eða niðurlagðar. Frystur fiskur á Íslandi keppir við hagsmuni mjög sterkra innflytjenda, mjög sterkra kaupenda á ferskum fiski, sérstaklega í Bremerhaven, Cuxhaven og Hamborg, alveg sérstaklega Bremerhaven.
    Því miður er hæstv. forseti að slá á klukkuna þannig að ég hef ekki svigrúm til að skýra nánar markaðshlið þessara mála. Ég vil hins vegar aðeins fá að segja í stuttu máli að Bandaríkin eru það land sem

hefur verið okkur erfiðast. Það er m.a. vegna þess að þessir friðunarsinnar í Bandaríkjunum hafa komist mjög sterkt inn í skólana, komist mjög sterkt inn á kennarastéttina og þar af leiðandi komist að börnunum og unglingunum og í gegnum það hafa þeir komist inn í fjölmiðla. Þar er því við ramman reip að draga.
    En hvað sem því líður þýðir ekki að gefast upp. Við verðum að vinna þannig að við eigum að standa sameinaðir um þetta. Við eigum að vinna þannig að Íslendingar séu ekki að rífast um aukaatriði á hv. Alþingi heldur aðalatriði. En því miður haga stjórnarsinnar málflutningi sínum þannig hér á hv. Alþingi að ég sé enga von í því að stefna okkar sjálfstæðismanna verði framkvæmd, að menn geti sameinast um þetta mál og og þar með væntanlega að baki hæstv. sjútvrh. þannig að hann geti skilað því í sæmilega höfn, vegna óeiningar meðal stjórnarliða.
    Ég legg sem sagt áherslu á það, og það er stefna okkar sjálfstæðismanna, að utanrmn. skili sínum tillögum og hugmyndum hið fyrsta.