Rekstrarskilyrði garðyrkju og ylræktar
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég er einn þeirra sem skrifuðu undir sem flm. að till. til þál. um könnun á rekstrarskilyrðum garðyrkju og ylræktar, en 1. flm. er hv. varaþm. Unnur Stefánsdóttir. Umræðan er hafin, en henni var frestað og nú hefur hv. 1. flm. horfið af þingi eins og tilkynnt var í upphafi þessa þingfundar.
    Mér finnst eðlilegt að við þessa umræðu komi það skýrt fram að fyrrv. ríkisstjórn vann að þessu máli. Það var gert undir forustu þáv. landbrh., hv. þm. Jóns Helgasonar, sem skipaði nefnd samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar til að kanna sérstaklega áhrif þeirra breytinga sem urðu á rekstrargrundvelli íslenskrar garðyrkju við nýja lagasetningu um innflutningsgjöld frá sl. áramótum. Nefndinni var ætlað að kanna hvort styrkja mætti samkeppnisstöðu íslenskrar garðyrkju með því að beita aðflutningsgjöldum sem gætu verið breytileg eftir árstíðum og tegundum.
    Ég vil, virðulegur forseti, láta þetta koma fram vegna þess að það féll í hlut iðnrh. að tilnefna mann í þessa nefnd sem starfaði undir forustu Sveinbjarnar Eyjólfssonar, deildarstjóra í landbrn., en nefndarskipunin átti sér stað 7. mars á þessu ári.
    Það er öllum ljóst að breytingar hafa orðið á rekstrarskilyrðum garðyrkju og ylræktar í landinu og það var þess vegna nauðsynlegt að taka á þessu máli. Ég harma það að þessi könnun og þetta nefndarstarf hafi þurft að taka svo langan tíma, en mér finnst full ástæða til þess þegar þetta mál er til umræðu að það komi fram að þetta starf var í gangi undir forustu þess hv. þingmanns sem var ekki á Alþingi þá stund sem varamaður hans kom og flutti tillöguna. Nú þegar mál hafa skipast þannig að hv. þm. Jón Helgason er kominn í stað 1. flm. þykir mér ekki úr vegi að spyrja hvort hv. þm. Jón Helgason geti sagt þingheimi frá því hver afdrif þessa nefndarstarfs urðu, en mér skilst að það hafi tafist ýmissa hluta vegna. Ég tel, virðulegur forseti, að full ástæða sé til þess að hér komi fram að varamaður hv. þm. Jóns Helgasonar, fyrrv. landbrh., sá sig tilknúna til þess að flytja till. um efni sem hv. þingmaður hóf athugun á. Ég held að það væri eðlilegt, þar sem hér er dálítið sérkennilegur málatilbúnaður, að hv. aðalþingmaður, Jón Helgason, fái hér tækifæri til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum.
    Að svo mæltu, virðulegur forseti, mælist ég til þess að þessi þáltill. verði samþykkt, enda er hér um gott efnisatriði að ræða sem fyrrv. hæstv. ríkisstjórn byrjaði að starfa að og það væri ekki úr vegi að halda því starfi áfram. Vegna þess að þessi till. er komin fram og hv. þm. Jón Helgason er kominn væri hins vegar rétt að fá upplýsingar um málið ef vera kynni að niðurstaða væri fengin í málið og tillöguflutningurinn þess vegna óþarfur.